ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

Ingunn Agnes Kro nýr formaður stjórnar RARIK

Á aðalfundi RARIK í dag voru breytingar á stjórninni óvenju miklar að þessu sinni, en þrír af fimm stjórnarmönnum eru nýir. Ný í stjórn RARIK voru kosin þau Eiríkur Rafn Rafnsson, Ingunn Agnes Kro og Sigfús Ólafsson, en endurkjörin í stjórnina voru Valgerður Gunnarsdóttir og Thomas Möller. 

Ingunn Agnes Kro
Ingunn Agnes Kro

Stjórnin kom saman til síns fyrsta fundar strax að loknum aðalfundi og var Ingunn Agnes Kro kosin nýr formaður í stað Birkis Jóns Jónssonar sem nú hverfur úr stjórninni.

 

Magnús Þór Ásmundsson forstjóri gerði grein fyrir ársreikningi félagsins, þeim fyrsta eftir að hann tók við forstjórastarfinu fyrir réttu ári síðan. Rekstur RARIK samstæðunnar gekk ágætlega á árinu 2022 og samkvæmt rekstrarreikningi RARIK nam hagnaður ársins 2.459 milljónum króna sem er um 16% aukning frá fyrra ári. Tekjur samstæðunnar jukust um 8% frá árinu áður, aðallega vegna raforkudreifingar sem jókst um 4% á milli ára, en einnig vegna hækkunar á verðskrá bæði í dreifingu og sölu á raforku. Rekstur Orkusölunnar sem er í 100% eigu RARIK var undir áætlunum, einkum vegna hækkandi verðs á heildsölumarkaði á sama tíma og unnið var að endurbótum á virkjunum félagsins. Ekki urðu umfangsmiklar truflanir í  dreifikerfi RARIK á árinu, en fyrirvaralausum truflunum fjölgaði heldur frá fyrra ári og voru þær aðallega fyrstu þrjá mánuði ársins.

 

Stefnumótun

Í máli Magnúsar Þórs kom meðal annars fram að á síðasta ári var farið í ítarlega stefnumótunarvinnu sem um 40 starfsmenn og stjórnendur tóku þátt í auk stjórnar félagsins. Hlutverk, framtíðarsýn og meginmarkmið fyrirtækisins voru endurskoðuð og í kjölfarið voru skilgreind umbótaverkefni sem miða að því að uppfylla meginmarkmið fyrirtækisins. Undanfarið hefur verið unnið að endurskipulagningu RARIK og er miðað við að þeirri vinnu ljúki um mitt ár 2023.

 

Eignarhlutur í Landsneti seldur

Í lok árs 2022 var gengið frá samkomulagi við Ríkissjóð Íslands um sölu á 22,51% eignarhlut RARIK í Landsneti hf. Kaupverðið nam 105,9 milljónum USD eða 15.184 milljónum króna. Kaupverðið var greitt með tveimur skuldabréfum til fimm ára. Bæði skuldabréfin eru með jöfnum afborgunum og voru áhrif sölunnar sem færð voru í rekstrarreikning jákvæð um 1.358 milljónir króna.

 

Fjárfest fyrir 6,7 milljarða króna

Árið 2022 námu heildarfjárfestingar félagsins 6,7 milljörðum króna. Alls var 4.2 milljörðum króna varið til endurnýjunar og viðbóta í dreifikerfi RARIK og þar af var 2.1 milljarði ráðstafað samkvæmd áætlun RARIK um endurnýjun loftlínukerfa í dreifbýli með jarðstrengjum. Að auki var 865 milljónum króna varið til að mæta kostnaði vegna nýrra heimtauga og aukins álags og fjárfestingar í stofnkerfum félagsins námu um 1 milljarði króna. 

Afkoma RARIK fyrir fjármagnsliði var í samræmi við áætlanir en fjármagnsliðir voru talsvert hærri. Rekstrarhagnaður ársins 2022 fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var 5,6 milljarðar króna, eða 31% af veltu ársins samanborið við 34% á árinu 2021.

 

Heildareignir RARIK í lok árs 2022 voru 88,9 milljarðar króna og höfðu aukist um 5,4 milljarða á milli ára. Heildarskuldir námu 33,1 milljörðum króna og hækkuðu um 3,3 milljarða króna. Eigið fé var 55,8 milljarðar króna og eiginfjárhlutfall 62,7% samanborið við 64,3% í árslok 2021.

 

423 km af nýjum jarðstrengjum

Stöðugt er unnið að endurnýjun dreifikerfisins með lagningu jarðstrengja í samræmi við langtímaáætlun fyrirtækisins og voru alls lagðir 423 km af jarðstrengjum á árinu í stað loftlína. Í árslok 2022 var hlutfall jarðstrengja í dreifikerfi RARIK komið í tæp 75%.

 

75 ára afmæli RARIK

Árið 2022 var þess minnst að 75 ár voru liðin frá stofnun Rafmagnsveitna ríkisins sem síðar varð RARIK ohf.  Í tilefni tímamótanna var viðskiptavinum og öðrum velunnurum boðið í opin hús í starfsstöðvum félagsins víða um land og á haustmánuðum var efnt til nokkurra afmælismálþinga á landsbyggðinni undir yfirskriftinni Rafmagnið í lífi okkar – hreyfiafl landsbyggðar til framtíðar. Þá var lokið gerð kynningarmyndar um sögu RARIK í 75 ár sem hægt er að skoða bæði á vef RARIK og RÚV. 

 

Arðgreiðsla

Á aðalfundinum var samþykkt tillaga stjórnar RARIK um að greiða 310 milljónir króna í arð til eiganda fyrirtækisins, sem er Ríkissjóður Íslands. 

Magnús Þór Ásmundsson forstjóri gerir grein fyrir ársreikningi RARIK, þeim fyrsta eftir að hann tók við forstjórastarfinu fyrir réttu ári síðan.
Magnús Þór Ásmundsson forstjóri gerir grein fyrir ársreikningi RARIK, þeim fyrsta eftir að hann tók við forstjórastarfinu fyrir réttu ári síðan.

Sækja skjalÁrsskýrsla RARIK 2022

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

ÞJÓNUSTUVER

Sími: 528 9000

Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Sími: 528 9000

 

 

Fylgdu okkur:

Facebook
Rarik