Á aðalfundi RARIK sem haldin var í dag kom fram að hagnaður samstæðunnar á árinu 2016 var 2.040 milljónir króna sem er um 8% minni hagnaður en á árinu 2015 þegar hann var 2.220 milljónir króna. Ákveðið var að greiða 310 milljónir króna í arð til eiganda sem er 40 milljónum króna minni arður en greiddur var á síðasta ári.
Á fundinum var kosin ný í stjórn RARIK. Úr stjórn gengu Huld Aðalbjarnardóttir, Björgvin G. Sigurðsson, Guðmundur Hörður Guðmundsson og stjórnina skipa því Arnbjörg Sveinsdóttir, Álfheiður Eymarsdóttir, Birkir Jón Jónsson, Friðrik Sigurðsson og Þórey Svanfríður Þórisdóttir.
Rekstrartekjur RARIK á árinu 2016 hækkuðu um 10,7% frá árinu 2015 og námu 14.670 milljónum króna og rekstrargjöld hækkuðu á milli ára um 6% og námu 11.399 milljónum króna. Heildareignir RARIK í árslok voru 57.722 milljónir króna og lækkuðu um 29 milljónir króna á milli ára.
Eigið fé í árslok 2016 var 36.134 milljónir króna og er eiginfjárhlutfall 62,6% samanborið við 61,7% í árslok 2015. Fjárfestingar ársins að frádregnu andvirði seldra rekstrarfjármuna námu 3.029 milljónum króna, sem er minna en áætlað var en um 597 milljónum króna meira en árið áður.
57% dreifikerfis í jarðstrengjum
Á síðasta áru voru lagðir 276 km af jarðstrengjum í stað loftlína í dreifikerfi RARIK og eru nú 57% dreifikerfisins, eða um 5.000 km komið í jarðstrengi. Áætlanir RARIK gera ráð fyrir að endurnýjun loftlínukerfis með jarðstrengjum ljúki á næstu 18 árum.
Á fundinum kom fram að rekstraröryggi dreifikerfisins hafi aukist verulega með jarðstrengsvæðingu og að aðeins 8% skerðinga á orkuafhendingu sé vegna truflana í jarðstrengskerfinu á meðan 67% sé vegna truflana í loftlínukerfinu. Þá kom fram að haldið verður áfram borunum eftir heitu vatni við Hoffell í Nesjum fyrir Höfn í Hornafirði, en borun rannsóknarhola þar gaf góða raun á síðasta ári.
Sími: 528 9000
Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15