ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

Skólanemar fræðast um starfsemi RARIK

Hjá RARIK er vorboðinn ljúfi í formi nemanda úr grunn- og framhaldsskólum landsins sem heimsækja starfsstöðvar okkar um það leyti sem veturinn sleppir af okkur tökunum.

Mynd 11
Nemendur frá VA skoða tæki og tól vinnuflokks á starfsstöð RARIK á Egilsstöðum.

Sumardagurinn fyrsti er kominn og farinn og hækkandi sól gefur vissar vísbendingar um að vorið sé mögulega komið. Hjá RARIK er vorboðinn ljúfi þó í formi nemanda úr grunn- og framhaldsskólum landsins sem heimsækja starfsstöðvar okkar um það leyti sem veturinn sleppir af okkur tökunum. Nemendakynningar RARIK eru haldnar á starfsstöðvum okkar um allt land og eru mikilvægur hluti af starfseminni því hér gefst nemendum kostur á að máta sig við hin ýmsu störf sem standa þeim til boða í framtíðinni og RARIK fær tækifæri til að kynna sig sem áhugaverðan og spennandi vinnustað. Öllum starfskynningum vorsins hjá RARIK er nú lokið og við erum spennt að endurtaka leikinn og hitta fyrir nýja nemendur og mögulega, nýtt framtíðarstarfsfólk RARIK.

Mynd 1
Nemendur frá FNV skoða færanlega rafstöð með álagsbanka á starfsstöð RARIK á Sauðárkróki.

Nemendaheimsóknirnar hófust í febrúar þegar starfsfólk RARIK á Egilsstöðum tók á móti nemendum úr áfanganum verkframkvæmdir og vinnuvernd frá Menntaskólanum á Egilsstöðum og starfsfólk RARIK á Selfossi tók á móti útskriftarárgöngum í rafvirkjun og vélvirkjun frá Fjölbrautarskóla Suðurlands. Á Akureyri mættu útskriftarnemar í vélstjórn og rafvirkjun við Verkmenntaskólann á Akureyri í mars og sama mánuði voru haldnar svipaðar nemendakynningar fyrir Fjölbrautaskóla Vesturlands (FVA) í Borgarnesi og fyrir Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Í apríl var svo aftur haldin starfskynning á Egilsstöðum fyrir nemendur í raf- og vélvirkjun. Nemendur fræddust um öryggi, heimtaugaferli, bilanaleit og mælauppsetningar og skoðuðu tæki og tól vinnuflokka svo eitthvað sé nefnt. Þau sem vildu fengu svo að spreyta sig á stauraklifri í þar til gerðum stauraskóm undir traustri handleiðslu starfsfólks.

Stauraklifur
Nemandi frá VA prófar hina alræmdu stauraskó í heimsókn á starfsstöð RARIK á Egilsstöðum.

Framadagar og starfamessur

Framadagar og starfamessur eru svo einnig hluti af starfakynningum hjá RARIK fyrir framhaldsskólana og tók RARIK þátt í slíkum viðburðum í flestum landshlutum. Sem dæmi má nefna Starfastefnumót á Höfn í Hornafirði sem haldið var 24. október 2023. Ungir sem aldnir komu við á bás RARIK en tæplega 40 fyrirtæki tóku þátt og var almenn ánægja með hvernig til tókst. Námsmenn geta þannig nálgast fyrirtækið með tvennum hætti, á grunnskólastiginu fræðist ungt fólk um fjölbreytni starfa svo þau geti kannað hvar þeirra áhugasvið kann að liggja en þegar kemur að framhaldsskólastiginu er oft um eins konar öfugt atvinnuviðtal að ræða þar sem nemendur hafa orðið haldgóða þekkingu á mörgum starfssviðum fyrirtækisins.

 

Mynd 3
Nemendur í vélstjórn og rafvirkjun frá VMA í heimsókn á starfsstöð RARIK á Akureyri.

Í dag er RARIK nútímalegt þekkingarfyrirtæki sem meðal annars leiðir þriðju orkuskiptin á landsbyggðinni. RARIK hefur í gegnum áratugi boðið störf sem þarfnast sérþekkingar og eru unnin í lifandi umhverfi þar sem rúsínan í pylsuendanum er samfélagslega mikilvæg starfsemi. Fræðsludagar, nemendakynningar og starfamessur eru góðar leiðir til að svara spurningum nemenda og breiða út skilning á RARIK sem skipulagsheild. Þannig tryggjum við okkur líka góða vinnufélaga til framtíðar. Við vekjum athygli á að upplýsingar um laus störf hjá RARIK má alltaf finna á atvinnusíðu RARIK

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

ÞJÓNUSTUVER

Sími: 528 9000

Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Sími: 528 9000

 

 

Fylgdu okkur:

Facebook
Rarik
Við notum vafrakökur til að bæta upplifun þína á vefnum. Með því að halda áfram að vafra um þessa síðu samþykkir þú notkun okkar á vafrakökum. Smelltu hér fyrir neðan til að fá frekari upplýsingar.
Stillingar