ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

Um fjarvarmaveitu á Seyðisfirði

Upphaf reksturs fjarvarmaveitu á Seyðisfirði

Á árunum 1980 til 1981 var komið á fót fjarvarmaveitu á Seyðisfirði í samvinnu RARIK og Seyðisfjarðarkaupstaðar. Í byrjun átti RARIK kyndistöðina og Seyðisfjarðarkaupstaður dreifikerfið fyrir heita vatnið en í janúar 1992 keypti RARIK dreifikerfið og hefur rekið veituna síðan. Einkaleyfi RARIK til reksturs veitunnar rann út árið 2017 og hefur síðan þá verið í höndum Seyðisfjarðarkaupstaðar, nú Múlaþings.

Seyðisfjörður
Seyðisfjörður

Grunnforsenda fyrir rekstri fjarvarmaveitna var og er framboð á ódýrri ótryggðri raforku og að rekstrarkostnaður kerfisins sé lágur. Til að standa undir kostnaði við kyndistöðina, dreifikerfi veitunnar fyrir heitt vatn og töp í dreifingu heita vatnsins þarf verð á raforku til fjarvarmaveitunnar að vera umtalsvert lægra en verð á almennri forgangsorku til beinnar rafhitunar. Þess vegna hafa fjarvarmaveitur keypt svokallaða ótryggða orku, sem er ódýrari en forgangsorka, en má skerða þegar orkuskortur er í landinu. Olíuketill er notaður til vara, þegar ótryggða orkan er skert. Þegar farið var af stað með fjarvarmaveitur upp úr 1980 var verð á ótryggðri orku um 15% af verði forgangsorku, en á síðasta ári var verðið komið upp í 40-50% af því og hefur rekstrargrundvöllur þessara veitna því versnað verulega. Til viðbótar koma nú vaxandi skerðingar vegna skorts á raforku.

 

Jarðhitaleit og ástand dreifikerfis fyrir heitt vatn

Um árabil stóð yfir leit að jarðhita á Seyðisfirði en sú leit hefur reynst árangurslaus og má telja fullreynt að jarðhiti finnist sem nýta megi fyrir hitaveitu. Þá liggur einnig fyrir að dreifikerfi veitunnar fyrir heitt vatn, sem á sínum tíma var lagt af sveitarfélaginu, er víða orðið illa farið af tæringu, þrátt fyrir að það sé yngra en dreifikerfi flestra hitaveitna á Íslandi.  Líklega er um að kenna ófullkomnum frágangi á kápu sem veldur því að vatn kemst í einangrun og orsakar tæringu á pípunum. RARIK telur þess vegna að ekki sé grundvöllur fyrir því að reka dreifikerfið áfram nema fara í allsherjar endurnýjun á því, en árlegur viðhaldskostnaður þess hefur verið mikill á liðnum árum. Við núverandi aðstæður stendur reksturinn ekki undir slíkri endurnýjun. Bæði RARIK og verkfræðistofan Efla, hafa metið stöðuna og sýnir skýrsla Eflu að jafnvel þótt lækka mætti orkukostnað veitunnar með því að skipta úr beinni rafhitun með rafskautskatli yfir í rafhitun með miðlægri varmadælu myndi bein rafhitun húsnæðis samt sem áður vera ódýrari kostur fyrir bæði íbúa og fyrirtæki á Seyðisfirði.

 

Íbúafundur haldinn árið 2017 

Á íbúafundi sem haldinn var í október 2017 var tilkynnt um að RARIK gerði ráð fyrir að leggja niður fjarvarmaveituna á Seyðisfirði í árlok 2019. Því lægi fyrir að húseigendur á Seyðisfirði þyrftu að ákveða framtíðarfyrirkomulag húshitunar sinnar. Meginástæðan fyrir þessari niðurstöðu var sú að þá þegar var mikil óvissa um framboð á ótryggðri raforku og allar líkur á að verð á henni færi hækkandi. Því væri upprunalegur rekstrargrundvöllur fjarvarmaveitunnar brostinn að mati RARIK, nema með verulegri hækkun á orkuverði sem væri ósamkeppnishæft við aðra hitunarkosti. RARIK hefur boðist til að kosta breytingar hjá öllum viðskiptavinum yfir í beina rafhitun og mun Orkustofnun auk þess veita styrk til að setja upp varmadælur í hvert hús.

 

Raforkuskortur veldur auknum tilkostnaði

Eins og fram hefur komið í fréttum er ótryggð orka til fjarvarmaveitna nú skert vegna orkuskorts. Skerðingarnar valda því að RARIK hefur neyðst til að keyra olíuketilinn til að hita upp vatnið á meðan þær vara með tilheyrandi áhrifum á gjaldskrá. Ætla má að umræddar skerðingar geti staðið í fjóra mánuði og er ástæðan orkuskortur þar sem vatnsstaða í miðlunarlónum Landsvirkjunar er undir meðallagi vegna þurrka. Kynding með olíu er mun dýrari en kynding með ótryggri raforku og má ætla að viðbótarkostnaðurinn á þessu fjögurra mánaða tímabili nemi rúmum 100 m.kr., eða sem samsvarar tekjum veitunnar á heilu ári. Þá eru ótalin þau neikvæðu umhverfisáhrif sem fylgja brennslu á olíu. Allar líkur eru á að raforkuskerðingar verði viðvarandi á komandi árum, vegna stöðunnar á raforkumarkaði.

 

Framtíð fjarvarmaveitunnar á Seyðisfirði

RARIK og sveitarfélagið hafa átt í viðræðum um framtíð veitunnar og fengu verkfræðistofuna Eflu til að vinna tillögur að húshitunarkostum á Seyðisfirði og kostnaðarmat á mismunandi útfærslum. RARIK hefur lýst þeirri afstöðu sinni að fyrirtækið sjái ekki forsendur fyrir áframhaldandi rekstri fjarvarmaveitunnar. Vilji sveitarfélagsins, sem hefur nú með höndum einkaleyfi til rekstur hitaveitu á Seyðisfirði, hefur hins vegar verið sá að halda rekstri hennar áfram, en þó í breyttu formi.

 

RARIK mun hætta rekstri fjarvarmaveitu á Seyðisfirði

Nú eru liðin hátt í sjö ár frá því að RARIK tilkynnti um fyrirhugaða lokun veitunnar og allt það sem RARIK spáði fyrir árið 2017 hefur raungerst, bæði hvað varðar hækkun á ótryggðri orku, en ekki síður að framboð á henni hafi minnkað. Fyrirtækið hefur setið uppi með verulegt tap af veitunni um langt skeið og telur sig hafa gefið ríflegan tíma fyrir sveitarfélagið til að ákveða með framhaldið. RARIK hefur því upplýst sveitarfélagið um að fyrirtækið muni hætta rekstri veitunnar á þessu ári en sveitarfélaginu býðst að eignast fjarvarmaveituna án greiðslu. Auk þess býðst RARIK til að styrkja sveitarfélagið um sömu upphæð til breytinga á veitunni og boðin var íbúum til breytinga á húshitun þeirra árið 2017. Það er von RARIK að Seyðfirðingar komist að farsælli og umhverfisvænni niðurstöðu um framtíð húshitunar í bænum.

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

ÞJÓNUSTUVER

Sími: 528 9000

Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Sími: 528 9000

 

 

Fylgdu okkur:

Facebook
Rarik
Við notum vafrakökur til að bæta upplifun þína á vefnum. Með því að halda áfram að vafra um þessa síðu samþykkir þú notkun okkar á vafrakökum. Smelltu hér fyrir neðan til að fá frekari upplýsingar.
Stillingar