Frétt uppfærð 17.03.2020, kl 11:30:
Í gær mánudaginn 16. mars var klárað að hreinsa undan Þverárfjallslínu á þeim kafla sem um ræðir. Í kjölfarið var rafmagni hleypt aftur á línuna. RARIK vill samt biðja þá sem eiga leið um þetta svæði að sýna varkárni. Veðuraðstæður eru þannig að snjór getur fljótt hlaðist upp aftur.
Almennt viljum við vekja athygli á því að sá mikli snjór sem er víða, sérstaklega á Norður- og Austurlandi getur valdið því að mikill snjór safnast undir háspennulínur. Starfsmenn RARIK munu eftir því sem hægt er að koma við skoða línukafla sem vitað er að eru sérstaklega útsettir. Aðstæður breytast þó mjög hratt og við biðjum vegfarendur almennt að fara varlega nálægt háspennulínum. Þetta á sérstaklega við um fólk á ferð á vélsleðum, jeppum eða öðrum farartækjum utan vega. Við viljum einnig biðja þá sem verða varir við mikla snjósöfnun undir línum að láta svæðisvaktir RARIK vita, á Norðurlandi í síma 528 9690 og á Austurlandi í síma 528 9790.
Frétt uppfærð 15.03.2020, kl 13:20:
Rafmagn hefur verið tekið af þessum kafla línunnar og verður það ekki sett á aftur fyrr en búið er að hreinsa undan línunni. Þetta er gert í samráði við íbúa á svæðinu og hefur varaafli verið komið fyrir eftir þörfum. Vakin er athygli á því að veðurmælingarstöð Vegagerðarinnar og vefmyndavél fyrir Þveráfjall er án rafmagns vegna þessa. RARIK vill ítreka að snjór getur hafa hlaðist upp á fleiri stöðum og mikilvægi þess að fólk sem á leið um þetta svæði sýni varkárni.
Frétt uppfærð 12.03.2020, kl 17:20:
Snjór á þessu svæði er nú orðinn svo mikill að vírinn þar sem hann er lægstur er kominn niður fyrir tvo metra. Það verður reynt að ryðja snjó undan línunni ef aðstæður leyfa og verður það líklega gert mánudaginn 16.3.2020.
Um fleiri kafla á línunni getur verið að ræða og fólk sem á leið um þetta svæði vinsamlegast beðið um að sýna varkárni. Við bendum einnig á síma svæðisvaktar RARIK á Norðurlandi, 528 9690.
Birt fyrst á vef 05.03.2020:
Mikill snjór er nú á Þverárfjalli á Skaga. Snjór hefur m.a. hlaðist upp undir háspennulínu RARIK á svæðinu frá bænum Þverá til Hvammshlíðar og er vírinn þar sem hann er lægstur kominn niður fyrir 3 metra.
Um fleiri kafla á línunni getur verið að ræða og fólk sem á leið um þetta svæði vinsamlegast beðið um að sýna varkárni. Við bendum einnig á síma svæðisvaktar RARIK á Norðurlandi, 528 9690.
Sími: 528 9000
Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15