ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

Kraftur, nýjungar og stórar breytingar á aðalfundi

Aðalfundur Rarik ohf. var haldinn fimmtudaginn 10. apríl, á skrifstofu okkar á Selfossi. Um hefðbundinn aðalfund stjórnar var að ræða þar sem farið var yfir árangur og fjárhagstölur síðasta árs. Miklar breytingar voru gerðar á stjórn fyrirtækisins. Fulltrúi Fjármála- og efnahagsráðherra, Steinunn Sigvaldadóttir, sat fundinn en ráðuneytið fer með allan eignarhluta ríkisins í samsteypunni. Hólmfríður Björk Sigurðardóttir frá Juris stýrði fundinum.

Áhugaverðir tímar

Ingunn Agnes Kro, stjórnarformaður Rarik opnaði fundinn á orðunum „Við lifum áhugaverða tíma“ og sagði hrikta í stoðum góðra gilda um náungakærleikann og samfélagið. Mikilvægt væri að hafa leiðarljós á slíkum tímum. Henni varð því rætt um tvö af gildum Rarik; hugrekki og virðingu, sem hún sagði fylla sig stolti og gefa hjarta hennar hlýju og von. Hún sagði gildi okkar sterk, réttsýn og full umhyggju fyrir starfsfólki, viðskiptavinum, samfélaginu og umhverfinu.

Áhugaverðir tímar 2

Ingunn Agnes Kro, stjórnarformaður Rarik, talaði um gildi okkar. 

En Ingunn sagði þessa tíma einnig áhugaverða vegna þjóðfélags- og tæknibreytinga sem kalla á það að Rarik bregðist við og þróist áfram sem fyrirtæki. Framtíðin kallar á viðbrögð við loftslagsbreytingum, aukinni orkunotkun, skilvirkari nýtingu orku og fjármunum og auknu samstarfi við viðskiptavini. Ótal verkefni eru hafin innan Rarik til að bregðast við þessari þróun og sagði Ingunn að gaman væri að fylgjast með metnaði og hugmyndaauðgi starfsfólks.

 

Þriðja gildi Rarik er árangur og sagði Ingunn að ekki mætti gleyma því, þegar farið yrði yfir árangur síðasta árs, að sá árangur byggði á skipulagningu og verkefnum gærdagsins, líkt og árangur morgundagsins byggir á skipulagningu og verkefnum dagsins í dag. Hún hvatti starfsfólk Rarik til að sýna áfram metnað fyrir þeim verkefnunum sem nú liggja á borðinu svo framtíðin verði björt.

Ár drekans

Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri Rarik skilaði skýrslu stjórnar og vitnaði til þess að árið 2024 hefði verið ár drekans sem væri táknrænt fyrir kraft, nýjungar og stórar breytingar. Þetta hefði svo sannarlega verið einkunnarorð ársins við rekstur og þróun okkar víðfeðma dreifikerfis og eiginleikar sem við þurfum öll að tileinka okkur til að mæta þeim tækifærum og áskorunum sem framtíðin ber í skauti sér.

Ár drekans 2

Árið 2024 fylgdum við áfram eftir stefnumótun og yfirgripsmiklum skipulagsbreytingum af miklum krafti. Skipulagsbreytingar taka tíma en við erum þegar farin að uppskera af þessum breytingum og sjáum aukin tengsl og samstarf milli landshluta, meiri samskipti og þátttöku í áætlunum og að aukin áhersla á mannauðsmál og öryggismál er að skila sér jákvæðri vinnustaðamenningu og öruggum skrefum inn í framtíðina.

 

Þá minntist Magnús á endurmörkun Rarik en það verkefni hófst árið 2024 og leit ný ásýnd okkar formlega dagsins ljós með útgáfu ársskýrslu 2024 og bar ársfundurinn þess glöggt merki. Endurmörkunin endurspeglar þær áherslubreytingar sem orðið hafa á starfsemi félagsins og er ásýndin kraftmikil og framsækin. Hún sameinar starfsfólk okkar um allt land undir einu merki og styður við hlutverk okkar og framtíðarsýn sem framsækins tækni- og þjónustufyrirtækis.

Að lokum sagði Magnús að fram undan væru bæði áskoranir og tækifæri í orkugeiranum. Skapa þyrfti breiða sátt um orkuframleiðslu, flutning og dreifingu og mikilvægt væri að komast að niðurstöðu um að nærsamfélög njóti ávinnings af orkumannvirkjum í eigin garði. Jöfnun kostnaðar milli dreifbýlis og þéttbýlis er mikilvægt sanngirnismál sem við þurfum að ná sátt um.

Góður árangur 2024

Að lokinni yfirferð á skýrslu stjórnar var farið yfir lykilfjármálatölur úr rekstri Rarik samsteypunnar en hann gekk vel árið 2024 urðu niðurstöður betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Tekjur af dreifingu og sölu raforku voru um 16% hærri en árið áður og rekstarhagnaður fyrir fjármagnsliði hækkaði um rúmlega 15% frá fyrr ári. Rekstrargjöld hækkuðu um 17% milli ára, meðal annars vegna hækkunar á heildsöluverði raforku og hækkunar á flutningsgjöldum. Fjármagnsliðir voru jákvæðari en árið á undan sem skýrist af lægri verðbólgu og hagstæðari gengismun. Hagnaður Rarik ohf eftir tekjuskatt var 2,2 milljarðar króna samanborið við 1,5 milljarð árið 2023. Á aðalfundi var samþykkt 310 milljóna króna arðgreiðsla til Ríkissjóðs fyrir árið 2024. Nánar má lesa um fjárhagstölur, sem og ófjárhagslegar upplýsingar, í ársskýrslu Rarik 2024 sem sækja má hér neðst í fréttinni.

Góður árangur 1.1

Horfur ársins 2025 eru góðar en krefjandi. Rarik er og vill vera leiðandi afl í orkuskiptum Íslands. Orkuskiptin og undirbúningur fyrir framtíðina eru framþung verkefni og munum við standa frammi fyrir stórum fjárfestingum sem þarf að fjármagna bæði úr eigin rekstri og með aukinni skuldsetningu.

Ný stjórn tekur við

Stórar breytingar voru gerðar á stjórn Rarik á fundinum með skipun nýrra aðal- og varamanna. Ingunn Agnes Kro, sem setið hefur í stjórn frá ársfundi 2023, heldur sæti sínu sem stjórnarformaður en aðrir stjórnarmenn koma nýir inn. Nýja stjórn Rarik skipa Ingunn Agnes Kro, formaður, Ari Kristinn Jónsson, Einar Pálmi Sigmundsson, Þóra Þórisdóttir og Sverrir Jan Norðfjörð. Varamenn eru þau Ragnar Guðmundsson og Sigrún Hallgrímsdóttir.

 

Miklar þakkir voru færðar fráfarandi stjórnarmönnum okkar fyrir vel unnin störf síðastliðin tvö ár, þeim Thomasi Möller, Valgerði Gunnarsdóttur, Eiríki Rafni Rafnssyni og Sigfúsi Ólafssyni.

Mynd Fráfarandi stjórn

Magnús og Ingunn kvöddu fráfarandi stjórn. Á myndina vantar Sigfús Ólafsson.

Langtímamarkmið og framtíðarsýn

Í lok fundar tók Ingunn Agnes Kro til máls og lokaði fundinum með því að segja nokkur orð um fráfarandi stjórn. Hún sagði stjórnina hafa vera eitt teymi þrátt fyrir hafa verið pólitískt skipaða og að hún hefði haft það eina sameiginlega markmið að Rarik farnaðist sem best.

Langtímamarkmið stjórnarinnar hafi horft til þess að vinna gegn loftslagsbreytingum með orkuskiptum því loftslagsbreytingar gera framtíðina enn óstöðugri. Rarik er í lykilstöðu til að leiða orkuskiptin og um leið ein af grundvallarforsendum þeirra. Unnið var að stórum áætlunum sem snúa að aflþörf, langtímafjárfestingaráætlunum, og gerð samskiptaáætlunar. Nú, tveimur árum eftir að stjórnin tók til starfa hefur þessi markmiðasetning borið ávöxt. Við höfum öðlast sýn á aflþörfina, höfum gert langtímafjárfestingaráætlun með sérstaka sýn á orkuskiptafjárfestingar, höfum tekið tekið fyrstu skrefin í fjármögnun og vinnu við fjármögnunaráætlun í samráði við fjármálaráðuneytið, og erum komin með fyrstu útgáfa samskiptaáætlunar fyrirtækisins.

 

Um leið og við hjá Rarik bjóðum nýja stjórn velkomna til starfa viljum við þakka fráfarandi stjórn fyrir vel unnin störf og gott samstarf á síðastliðnum tveimur árum. 

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

Þjónustuver

Sími: 528 9000

Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15

Bilanavakt Allan Sólarhringinn

Sími: 528 9000

 

 

Fylgdu okkur:

Facebook
Rarik