RARIK hefur ákveðið að taka yfir öll samskipti og umsýslu vegna tjónatilkynninga í kjölfar truflana í kerfi Landsnets 2. október sl., í samvinnu við tryggingarfélag sitt, TM. Við hörmum að einhverjum viðskiptavinum sem tilkynntu tjón hafi borist tölvupóstur frá Sjóvá (tryggingarfélagi Landsnets) þar sem fram kom að álitamál væri hvort tjón af völdum rafmagnstruflana væri bótaskylt. Orðalag póstsins var villandi og ekki til þess fallið að vekja traust hjá viðskiptavinum okkar.
Mögulega gætu einhverjir viðskiptavinir þurft að miðla upplýsingum um tjón í tvígang af þessum sökum, á því biðjumst við velvirðingar en forgangsverkefni okkar er að greiða úr tjónamálunum fyrir viðskiptavini.
Til að koma í veg fyrir frekari misskilning og óhagræði munu RARIK og TM, héðan í frá, annast yfirferð tjónatilkynninga, samskipti við viðskiptavini og útgreiðslu bóta. TM býr yfir sérfræðiþekkingu við afgreiðslu bótamála og því telur RARIK mikilvægt að njóta liðsinnis félagsins við afgreiðslu einstakra mála og samskipti við viðskiptavini til að flýta fyrir úrlausn.
TM mun hafa samband við viðskiptavini sem hafa tilkynnt tjón innan skamms vegna afgreiðslu málsins og óska eftir frekari upplýsingum um tjónið ef þörf er á.
RARIK og TM munu kappkosta að koma í veg fyrir frekari tafir á afgreiðslu mála. Breytingarnar eru gerðar með hagsmuni viðskiptavina okkar að leiðarljósi og vilja RARIK og TM gera sitt besta til að tryggja farsæla lausn á öllum málum.
Sími: 528 9000
Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15