ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

Truflanir í dreifikerfinu vegna óveðurs

Óveður geisar á landinu og er töluvert um truflanir í dreifikerfi RARIK. Hér eru birtar fréttir af stöðu dreifikerfisins eftir því sem tilefni verða til. Auk þess upplýsum við um stöðu mála á tilkynningasíðu og á kortasjá. Við biðjum fólk sem hefur upplýsingar sem gætu aðstoðað okkur við bilanaleit að hafa samband við stjórnstöð RARIK í síma 528 9000.

Lokayfirferð

Uppfært 7. febrúar.
Aðgerðum RARIK vegna óveðranna sem gengu yfir landið 5. og 6. febrúar er að mestu lokið. Vindálag, selta og eldingar herjuðu á kerfið með þeim afleiðingum að staurar brotnuðu og línur slitnuðu.   

 

Hér er yfirlit yfir stöðu helstu truflana sem urðu á rafmagnsafhendingu í dreifikerfi RARIK:

 

  • Helgafellssveit– Rafmagnstruflanir hófust á miðvikudaginn kl. 14:00 en þá tókst að koma rafmagni á aftur stuttu síðar. Rafmagnið fór aftur af kl. 23:00 sama dag og tókst að koma því á aftur að hluta en rafmagnslaust var áfram í Kolgrafarfirði til rúmlega 17:00 á fimmtudag. 
  • Skógarströnd/Álftafjörður– Rafmagn fór af á Skógarströnd og í Álftafirði kl. 16:08 á miðvikudaginn. Bilunin fannst í Álftafirði og voru flestir viðskiptavinir komnir með rafmagn kl. 10:35 á fimmtudegi. Varavél var tengd við einn viðskiptavin kl. 23:20 þar til hægt er að fara í viðgerð. 
  • Mýrar– Rafmagn fór af á Mýrum kl. 17:58 á miðvikudaginn. Um fjölda bilana var að ræða á línum og tóku bilanaleitir og viðgerðir langan tíma. Klukkan 18:51 á fimmtudag var rafmagn komið á hjá öllum viðskiptavinum okkar á svæðinu. 
  • Landbrot– Rafmagnslaust varð í Landbroti á miðvikudag kl. 18:42 og tókst að koma rafmagni þar á aftur aðfaranótt fimmtudags kl. 01:30. Skemmdir voru þó á línunni og farið var í endanlega viðgerð á fimmtudagskvöld. Því þurfti að taka rafmagn af hjá nokkrum viðskiptavinum á svæðinu frá kl. 19-20:30 í gærkvöldi. 
  • Selvogur– Rafmagnslaust varð kl. 19:11 á miðvikudag og tókst að koma rafmagni þar á kl. 00:30 aðfaranótt fimmtudags. 
  • Stíflisdalur í Kjós– Rafmagnslaust varð í Stíflisdal kl. 18:55 á miðvikudag. Flestir viðskiptavinir okkar voru komnir með rafmagn kl. 10:20 á fimmtudag. Einn viðskiptavinur okkar var þó án rafmagns til kl. 19:20 á fimmtudagskvöld. 
  • Vestur-Landeyjar– Rafmagnslaust varð á þessu svæði um kl. 10:00 á fimmtudag. Þar tókst að koma rafmagni aftur á en hluti svæðisins var rafmagnslaus til kl. 16:20 sama dag. 
  • Haukadalur í Dalabyggð– Tilkynning barst um rafmagnsleysi í Haukadal um kl. 23:30 á miðvikudag.Allir nema einn viðskiptavinur voru komnir með rafmagn kl. 02:15 á aðfaranótt fimmtudags en um kl. 21:00 í gærkvöldi var rafmagn komið til allra.  
  • Reyðarfjörður– Í sunnanverðum Reyðarfirði (frá Kolmúla að Berunesi) varð rafmagnslaust um kl. 9:10 á fimmtudagsmorgun. Þegar verið var að leita að bilun fór rafmagn einnig af austanverðum Fáskrúðsfirði, út að Vattarnesvita, í stuttan tíma. Allir viðskiptavinir voru komnir með rafmagn um kl. 20 á fimmtudagskvöld. 
  • Brattholt að Keldnaholti (Flói)– Taka þurfti rafmagn af kl. 10:45 á fimmtudag vegna þess að lína lá á veginum.Þessari aðgerð var lokið og rafmagn komið aftur á kl. 15:56 sama dag. 

 

Óveðrið hafði mest áhrif á Vesturlandi, Suðurlandi og Austurlandi en lítið var um truflanir í dreifikerfi RARIK á Norðurlandi.Töluvert var um innhringingar viðskiptavina vegna staðbundinna truflana í lágspennukerfinu og einnig urðu minni fokskemmdir á spennistöðvum og slíku. 

 

Alls urðu 1355 heimili og fyrirtæki tengd dreifikerfi RARIK fyrir rafmagnsleysi eða truflunum í skemmri eða lengri tíma vegna óveðursins. 

 

Starfsfólk RARIK vill þakka öllum viðskiptavinum sínum sem urðu fyrir áhrifum af rafmagnstruflunum fyrir þolinmæði og skilning meðan þetta ástand varði.  

Staðan kl. 18:00

Framkvæmdaflokkar vinna nú að því að ljúka viðgerðum. Vindálag, selta og eldingar hafa valdið tjóni víða í kerfinu; staurar hafa brotnað, línur slitnað og eldingar valdið tjóni. 

 

Staðan truflana í dreifikerfinu kl. 18:

  • Helgafellssveit – Rafmagnstruflanir hófust á þessu svæði kl. 14 í gær en tókst að koma rafmagni á aftur stuttu síðar. Rafmagnið fór aftur af kl. 23 í gærkvöldi og tókst að koma því á aftur að hluta en rafmagnslaust var áfram í Kolgrafarfirði til rúmlega 17 í dag.
  • Skógarströnd/Álftafjörður – Rafmagn fór af á Skógarströnd og í Álftafirði kl. 16:08. Bilunin fannst í Álftafirði og lauk viðgerð þar kl. 10:35. Enn var þó rafmagnslaust á Bíldhól á Skógarströnd og er unnið að viðgerð þar.
  • Mýrar – Rafmagn fór af á Mýrum kl. 17:58 í gær. Einhverjir viðskiptavinir eru komnir aftur með rafmagn en enn er stór hluti svæðisins án rafmagns. Á þessu svæði hafa fundist nokkrar bilanir sem þegar er búið að gera við og nú síðast fundust brotnir staurar sem er verið að skipta út. Viðgerð hefur staðið yfir og verið er að undirbúa að hleypa straumi aftur á. Vonast er til að ekki finnist fleiri bilanir á línunni.
  • Landbrot– Rafmagnslaust varð í Landbroti í gærkvöldi kl. 18:42 og tókst að koma rafmagni þar á aftur í nótt kl. 01:30. Skemmdir eru á línunni og ljóst að þar þarf að fara fram viðgerð þótt rafmagn hafi haldist inni. 
  • Selvogur– Rafmagnslaust varð kl. 19:11 í gærkvöldi og tókst að koma rafmagni þar á kl. 00:30. 
  • Stíflisdalur í Kjós– Rafmagnslaust varð í Stíflisdal kl. 18:55 í gærkvöldi. Framkvæmdaflokkur komst þangað í morgun og náði að koma rafmagni á hjá flestum viðskiptavinum um kl. 10:20.  Einn viðskiptavinur okkar er þó enn án rafmagns og er stutt í að viðgerð ljúki og rafmagn verði komið þar.
  • Vestur-Landeyjar – Rafmagnslaust varð á þessu svæði um kl. 10 í dag. Þar tókst að koma rafmagni aftur á en hluti svæðisins var rafmagnslaus til kl. 16:20 í dag.
  • Haukadalur í Dalabyggð – Tilkynning barst um rafmagnsleysi í Haukadal um kl. 23:30 í gærkvöldi. Allir nema einn viðskiptavinur voru komnir með rafmagn kl. 02:15 og það styttist í viðgerð og ætti hún að klárast í kvöld. 
  • Reyðarfjörður – Í sunnanverðum Reyðarfirði (frá Kolmúla að Berunesi) hefur verið rafmagnslaust frá kl. 9:10 í morgun. Þegar verið var að leita að bilun fór rafmagn einnig af austanverðum Fáskrúðsfirði, út að Vattarnesvita. Flestir viðskiptavinir eru komnir með rafmagn aftur en nokkrir viðskiptavinir, frá Kolmúla að Grímuvita, eru enn án rafmagns. Vonast er til að hægt verði að koma rafmagni á þar í kvöld.
  • Brattholt að Keldnaholti (Flói) – Taka þurfti rafmagn af kl. 10:45 vegna þess að línan lá á veginum. Þessari aðgerð er lokið og rafmagn komst aftur á kl. 15:56. 

 

Óveðrið hefur að mestu haft áhrif á Vesturlandi, Suðurlandi og Austurlandi en lítið hefur verið um truflanir í dreifikerfi RARIK á Norðurlandi. Töluvert hefur einnig verið um innhringingar viðskiptavina vegna staðbundinna truflana í lágspennukerfinu. 

Síðan óveðrið hófst hafa einnig orðið truflanir í flutningskerfinu sem höfðu áhrif á dreifikerfi okkar, en þær hafa varað stutt. Nú klukkan 18 í dag voru 394 viðskiptavinir okkar án rafmagns þar af 379 á Mýrunum. Alls urðu 1355 viðskiptavinir RARIK fyrir rafmagnsleysi eða truflunum í skemmri eða lengri tíma vegna óveðursins.

 


Staðan kl. 12:00

Framkvæmdaflokkar okkar á Suður- og Vesturlandi voru kallaðir heim vegna eldingaspár sem tók gildi kl. 12. Gert er ráð fyrir að eldingaveðrið vari í 3 klst. og þegar því líkur mun okkar fólk halda aftur út til að greina og lagfæra bilanir. Í eldingaveðri aukast enn líkur á bilunum í kerfinu og biðjum við viðskiptavini okkar að fara að öllu með gát og taka úr sambandi raftæki til að koma í veg fyrir að truflanir í kerfinu valdi skemmdum á þeim.


Staðan kl. 10:30

Vegna óveðursins hefur orðið töluvert af truflunum í dreifikerfi okkar. Framkvæmdaflokkar okkar voru í viðgerðum í alla nótt og vinna nú í kapp við klukkuna til að ljúka því sem hægt er að ljúka áður en þeir þurfa frá að snúa aftur vegna veðurs. Búið er að gera við þrjár af þeim sex bilunum sem hófust í gærdag og -kvöld.

 

Í veðurham eins og hefur verið frá því í gær getur margt gerst sem veldur bilunum. Vindálag á dreifikerfið hefur verið gríðarlegt og hefur á einhverjum stöðum brotið staura. Einnig getur mikill vindur valdið samslætti á línum. Mikið eldingaveður hefur einnig valdið tjóni á einhverjum stöðum. Að auki tefur veðurofsinn fyrir viðgerðum þar sem ekki er öruggt að leita að bilunum eða gera við þær.

 

Tala má um sex megintruflanir sem hófust í gær og eru þær eftirfarandi:

  • Helgafellssveit – Rafmagnstruflanir hófust á þessu svæði kl. 14 í gær en tókst að koma rafmagni á aftur stuttu síðar. Rafmagnið fór aftur af kl. 23 í gærkvöldi og tókst að koma því á aftur að hluta. Kolgrafarfjörður er enn rafmagnslaus. Framkvæmdaflokkur er nú á leið þangað til að meta stöðuna og hefja viðgerð.
  • Skógarströnd/Álftafjörður – Rafmagn fór af á Skógarströnd og í Álftafirði kl. 16:08. Rafmagn komst aftur á Skógarströnd nokkrum tímum síðar en bilunin fannst í Álftafirði. Þar var rafmagnslaust en viðgerð var að ljúka nú kl. 10:35.
  • Mýrar – Rafmagn fór af á Mýrum kl. 17:58 í gær. Einhverjir viðskiptavinir eru komnir aftur með rafmagn en enn er stór hluti svæðisins án rafmagns. Á þessu svæði hafa fundist nokkrar bilanir sem þegar er búið að gera við en því miður eru fleiri bilanir á línunni og bilanaleit og viðgerðir stendur enn yfir.
  • Landbrot – Rafmagnslaust varð í Landbroti í gærkvöldi kl. 18:42 og tókst að koma rafmagni þar á aftur í nótt kl. 01:30. Skemmdir eru á línunni og ljóst að þar þarf að fara fram viðgerð þótt rafmagn hafi haldist inni.
  • Selvogur – Rafmagnslaust varð kl. 19:11 í gærkvöldi og tókst að koma rafmagni þar á kl. 00:30.
  • Stíflisdalur í Kjós – Rafmagnslaust var í Stíflisdal frá kl. 18:55. Framkvæmdaflokkur komst þangað fyrir skömmu og rafmagn komst aftur á núna kl. 10:20.

Um kl. 10 í morgun fór svo rafmagn af í Vestur-Landeyjum. Bilanaleit mun fara fram um leið og framkvæmdaflokkur kemst á svæðið.

 

Klukkan 10:45 þurfti að taka rafmagn af línunni frá Brattsholti að Keldnaholti þar sem þar liggur lína á veginum.

 

Óveðrið hefur að mestu haft áhrif á Vesturlandi en er nú farið að hafa áhrif á dreifikerfi okkar á Austurlandi og er nú truflun í gangi á Þernunesi.

 

Töluvert hefur verið um innhringingar viðskiptavina vegna staðbundinna truflana í lágspennukerfinu.

 

Eldingaveður hefur tafið bilanaleit og mun gera það áfram í dag þar sem eldingaveðri er spáð á þeim svæðum þar sem bilanir hafa orðið. Búið er að finna þá hluta dreifikerfisins þar sem bilanirnar eru að mestu og verður farið í viðgerðir þar um leið og veður leyfir.

 

Síðan óveðrið hófst hafa einnig orðið truflanir í flutningskerfinu sem höfðu áhrif á dreifikerfi okkar, en þær hafa varað stutt.

 

Við viljum hvetja fólk til að fara varlega í þessum veðurham og láta stjórnstöð RARIK vita í síma 528 9000 ef það sér slitnar línur eða brotna staura. Best er að halda sig í öruggri fjarlægð frá slíkum skemmdum. Einnig viljum við biðja viðskiptavini okkar um að sýna þolinmæði þar sem mikið álag er nú á þjónustuver okkar, stjórnstöð og framkvæmdaflokka.

 

Allar upplýsingar um bilanir og stöðuna á dreifikerfinu má nálgast á rarik.is/rof.

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

ÞJÓNUSTUVER

Sími: 528 9000

Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Sími: 528 9000

 

 

Fylgdu okkur:

Facebook
Rarik