ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

Virkt samtal á vorfundi

Fyrir dreifiveitu eins og Rarik hefur aldrei verið mikilvægara en nú að eiga gott samtal og samráð við þau sveitarfélög og fyrirtæki sem við þjónum. Aðeins þannig tryggjum við að fólkið sem treystir á okkur til að byggja upp sterk og blómleg samfélög fái framúrskarandi þjónustu, örugga afhendingu raforku í því magni sem það þarfnast og njóti fullrar sanngirni þegar kemur að fjármögnun mikilvægra orkuinnviða fyrir yfirstandandi orkuskipti. Vorfundur okkar á Selfossi fimmtudaginn 10. apríl var liður í þessu samtali en þangað buðum við öllum þeim sem áhuga hafa á orkumálum og orkuskiptum á landsbyggðinni auk helstu hagaðila okkar. 

Mætingin á Selfossi var framar okkar björtustu vonum og erindin sem flutt voru, bæði af sérfræðingum okkar og gestafyrirlesurum, sem komu úr hópi okkar stærstu hagaðila, virtust leggjast vel í áheyrendur. Fundurinn var sendur út í beinu streymi bæði á vef okkar og samfélagsmiðlum og fylgdust hátt í 700 manns með okkur í streymi.

Sameiginlegir hagsmunir okkar og landsbyggðarinnar

Forstjóri Rarik, Magnús Þór Ásmundsson, opnaði fundinn og sagði m.a. frá stefnumarkmiðum okkar fyrir 2025 sem felast m.a. í því að tryggja áreiðanlega afhendingu orku sem styður við orkuskipti og þróttmikið atvinnulíf og setja umhverfi, samfélagsábyrgð og eflingu byggðar í forgang. Við erum landsbyggðafyrirtæki og við erum stolt af því. Við rekum 19 starfsstöðvar víðsvegar um land og yfir 70% af starfsfólki okkar er á landsbyggðinni og fer þeim fjölgandi. Það er stefna okkar að ráða í sérfræðistörf á landsbyggðinni sé þess kostur og við lítum á það sem jafnréttismál. Við viljum sjá sveitarfélögin um allt land dafna enda eigum við mikla sameiginlega hagsmuni með þeim. Jöfnun dreifbýlis og þéttbýlis er jafnréttis,- aðgengis- og sanngirnismál en staðreyndin er sú að það kostar meira að byggja upp og reka dreifikerfi í dreifbýli. Við fögnum því að Umhverfis-, orku- og lofstlagsráðuneyti hafi gefið það út að jöfnunargjald og þar með dreifbýlisframlag verði hækkað.

Mynd af Magnúsi

Stjórnvöld koma að borðinu

Ljóst var á máli þeirra sem töluðu að áskoranir hvað varðar orku og orkuöryggi væri mál málanna. Orku þarf að tryggja, orkuöryggi þarf að liggja ljóst fyrir, flutningur og dreifing orku er byggð á módeli sem ekki sá orkuskiptin fyrir og þörf er á nýjum lausnum fyrir áskoranir nýrra tíma. Umhverfis, orku- og loftslagsráðherra ávarpaði fundinn og sagði nýja ríkisstjórn ætla sér að vera hreyfiafl fyrir orkuskipti og uppbyggingu á landsbyggðinni. Hnykkt verður á forgangsröðun til heimila og innviða þegar upp koma óviðráðanlegar aðstæður í raforkukerfinu. Einnig verður liðkað fyrir örkuöflun til að tryggja að við getum staðið undir orkuskiptum og ýtt undir verðmætasköpun og jákvæða byggðaþróun um allt land. Milljarður verður settur í átak sem snýr að jarðhitaleit, verkefni sem hefur það að markmiði að losa um einhvern hluta þeirrar orku sem nú fer í rafhitun húsnæðis á köldum svæðum. Á þessu ári mun einnig koma til aukin jöfnun á dreifikostnaði raforku sem skiptir miklu máli fyrir heimili og fyrirtæki á landsbyggðinni. Jóhann Páll boðaði enn stærri skref í þessum málum á næstu árum og sagði að leitast yrði við að draga frekar úr því ójafnvægi sem myndast hefði milli dreifbýlis og þéttbýlis þegar kæmi að dreifikostnaði.

Breyttar áherslur

Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, talaði um vöxt Víkur og hversu stóru hlutverki ferðaþjónustan gegnir þar. Íbúafjöldi Víkur hefur tvöfaldast á aðeins 10 árum þökk sé ferðaþjónustunni. Ferðaþjónustan á eftir að eflast enn frekar og Vík er einnig mikilvæg staðsetning fyrir orkuskiptin í umferðinni og margir aðilar vilja setja þar upp hleðsluinnviði. Truflanir á afhendingu raforku, sem hafa verið algengar undanfarin ár, hafa mikil áhrif á ferðafólk á svæðinu. Í truflunum er ekki hægt að greiða fyrir vörur og þjónustu, ekki hægt að elda mat ofan í gesti og það er einmitt ferðafólk sem yfirleitt á ekki til mikinn mat í ísskápnum og treystir því á verslanir og matsölustaði. Þjónusta við þúsundir ferðamanna lamast því algerlega þegar truflanir verða í dreifikerfinu. Hann sagði nýjan kafla vera hafinn í sögu byggðaþróunar á Íslandi sem byggðist á aðgengi að auðlindum sem tengdust ferðaþjónustu, þ.e. náttúruperlum, þess vegna hefði Vík vaxið jafnhratt og raun ber vitni. Það er ekkert sem segir að þróun þéttbýlismyndunar sé lokið á Íslandi. Verulega þarf að bæta afhendingargetu raforku í Vík því án aukinnar afhendingargetu getur sveitarfélagið ekki vaxið í takt við aukna eftirspurn eftir þjónustu.

Mynd af Einari

Hvernig mætum við framtíðinni?

Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri þróunar og framtíðar hjá Rarik, talaði um vöxtinn sem hefur orðið í notkun rafmagns á landsbyggðinni og sagði það merki um að landsbyggðin væri að dafna. Árangur Rarik er árangur landsbyggðarinnar. Orkuskiptin og tæknin kalla á meira rafmagn og getan til að afhenda rafmagn er nánast uppseld í Vík. Því miður sér Rarik ekki fram á að geta boðið fram á aukningu á afhendingu í Vík strax þar sem afhendingarstaðir frá flutningskerfinu eru ekki fyrir hendi. Þess í stað þarf að skoða hvað við getum gert núna til leysa úr þessum áskorunum með aðstoð tækni og nýsköpunar. Þegar eru farin í gang spennandi verkefni sem miða að því að auka afhendingargetu okkar þar. En það er önnur nýsköpun sem kemur til og gæti breytt öllu fyrir Vík: Jarðvarmi.

Jákvæð teikn eru á lofti þarna því Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti hefur sett af stað átak í jarðhitaleit sem kallast Jarðhiti jafnar leikinn. Rarik og Mýrdalshreppur munu taka höndum saman og sækja um fjármagn þaðan til að fara í jarðhitaleit á svæðinu og vonast er til að með jarðhita verði hægt að jafna leikinn fyrir íbúa og fyrirtæki í sveitarfélaginu. 

Mynd af Kristínu Soffíu

Svigrúm til nýsköpunar

Margrét Ágústa Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Bændasamtakanna, talaði um raforkumál og landbúnað sem stendur á tímamótum. Bændur glíma við áskoranir vegna breyttra aðstæðna á markaði, verðbólgu og orkukostnaðar en einnig leynast tækifæri í orkuskiptunum. Loftslagsbreytingar krefjast aðgerða en skapa einnig svigrúm til nýsköpunar, orkunýtingar og sjálfbærni. Bændur hafa þegar brugðist við með breyttri nýtingu á orku til alls kyns framleiðslu. Við horfum fram á aukna tæknivæðingu landbúnaðarins og orkumál, þ.e. rafmagn og aðgengi að hagkvæmri orku, eru þar í lykilhlutverki, ekki síst til að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar. Tryggja þarf að raforkuverð og tengimöguleikar standi undir þessari þróun og umbreytingu á landbúnaði sem fram undan er. Hækkun á raforkuverði undanfarin misseri er áhyggjuefni og hefur neikvæð árhrif á afkomu t.d. garðyrkjubænda, skapar óvissu um framtíð fjárfestinga í grænum lausnum og minnkar hvata til nýsköpunar og orkuskipta. Jafna þarf kostnað við dreifingu rafmagns milli dreifbýlis og þéttbýlis til að tryggja samkeppnishæfni landbúnaðarins og samfélaga úti á landi. Án öruggs aðgengis að rafmagni og varmaorku minnka möguleikar fólks til búsetu og atvinnu.

Mynd af Margréti

Raforkumarkaður fyrir samfélagið

Aðstoðarforstjóri Rarik, Silja Rán Steinberg Sigurðardóttir, gerði raforkumarkaði að umtalsefni sínu. Hún sagði að samkeppni myndi vera við líði á eftirspurnarhliðinni jafnvel þótt ekki hefði komið til uppskiptingar á raforkumarkaðnum í framleiðslu, flutning, dreifingu og sölu. Markaður með ótrygga orku hófst í kringum 1980 og það gekk, þar til það gekk ekki. Við stöndum á tímamótum hvað þetta varðar og við þurfum að spá í því hvernig við viljum hafa raforkumarkaðinn og hverjum hann á að þjóna. Raforkulög sem sett voru árið 2003 kláruðu kannski aldrei almennilega þessa vinnu. Silja bendir á að raforka geymist illa, flækjustig raforkumarkaðarins er hátt og auk þess er raforka orðin lífsnauðsynleg sem þýðir að skortur á henni mun ávallt hækka verð, m.a. á viðkvæma viðskiptavini. En ávinningur af vel hönnuðum raforkumarkaði eru t.d. aukin sanngirni og aukinn hvati til nýsköpunar og hagkvæmni. Við þurfum að hafa vel hannaðar leikreglur sem grípa okkur þegar eitthvað kemur uppá. Hlutverk Rarik er að tala máli viðskiptavina sinna hvað þessi mál varðar. Við erum einnig stór orkukaupandi og erum að skoða þessi mál daginn út og inn. Við höfum því þekkinguna og bolmagnið til að standa vörð um hagsmuni viðskiptavina okkar þar sem þar fara einnig okkar eigin hagsmunir. 

Gott samtal - góð samvinna

Við erum gríðarlega ánægð með hvernig tókst til með þennan fyrsta vorfund okkar og þakklát þeim sem heimsóttu okkur á Selfossi. Það sem stendur eftir hjá okkur er þetta samtal sem við viljum eiga við hagaðila okkar og við teljum okkur hafa opnað enn betur á með þessum fundi. Við komum ekki bara til að tala og segja frá heldur einnig til að hlusta á áhyggjur og þarfir viðskiptavina okkar. Við vonum að sveitarfélög og stórir sem smáir viðskiptavinir haldi áfram að vera í virku samtali við okkur og vinna með okkur að því að efla byggð, atvinnulíf og samfélög hringinn í kringum landið.

 

Hægt er að horfa á vorfund Rarik í heild sinni hér.

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

Þjónustuver

Sími: 528 9000

Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15

Bilanavakt Allan Sólarhringinn

Sími: 528 9000

 

 

Fylgdu okkur:

Facebook
Rarik