RARIK og Bláa Lónið hf. undirrituðu nýlega samning um aðgang að heitu vatni til uppbyggingar á nýjum baðstað á jörðinni Hoffelli 2. Samningurinn snýst um að nýta jarðvarma frá hitaveitunni í Hoffelli til að hita baðlónið, sem verður einstakt á heimsvísu með því að endurnýta allt vatn sem notað er. Uppbyggingin verður skammt frá Hoffellsjökli, sem er skriðjökull úr Vatnajökli, með útsýni yfir jökullónið sem þar er.
Eftir jarðhitaleit frá því um 1990 fannst heitt vatn í nægjanlegu magni í Hoffelli um miðjan síðasta áratug en sú uppgötvun gerði RARIK kleift að leggja hitaveitu í nærliggjandi byggðalög. Þeirri framkvæmd lauk árið 2021 og leysti nýja hitaveitan eldri fjarvarmaveitu af hólmi. Samningurinn við Bláa Lónið kemur RARIK til góða á marga vegu en svæðið hefur verið vel rannsakað og er talið anna vatnsþörf vel umfram daglega notkun á svæðinu. Afkastageta svæðisins er áætluð 35 l/s í meðalnotkun en notkun í dag er 25 l/s. Samningurinn við Bláa Lónið hljóðar upp á 3 l/s notkun og rúmast því vel innan þess sem stendur umfram, en jafnframt mun vatninu verða skilað til baka í jarðhitakerfið.
Nýframkvæmdir á borð við hitaveituna í Hoffelli eru dýrar og rekstur þeirra oftast þungur fyrstu árin af þeim sökum. Samningurinn við Bláa Lónið hf. eykur og tryggir fastar tekjur hitaveitunnar, sem mun bæta rekstrargrundvöll hennar til lengri tíma. Framtíðarmöguleikar veitunnar eru miklir og auknar tekjur vegna samningsins koma samfélaginu til góða. Afkoma veitunnar verður betri og til lengri tíma verður hægt að lækka verð til allra viðskiptavina fyrr en ella hefði verið hægt.
Niðurdæling er lykilatriði í sjálfbærri nýtingu jarðhitaauðlinda og hún er einnig það sem gerir hitaveituna í Hoffelli einstaka. Allt vatn sem fer á hinn nýja baðstað fer í gegnum varmaskipti og verður dælt aftur niður í jarðhitakerfið og þannig endurnýtt. RARIK stefnir auk þess á að flýta framkvæmd um að flytja bakrás hitaveitunnar frá Höfn að Hoffelli og dæla vatni frá almennum viðskiptavinum aftur niður í jarðhitakerfið eftir þörfum. Þetta mun auka afkastagetu svæðisins og tryggja nýjum notendum, bæði íbúum og fyrirtækjum, aðgang að heitu vatni til langs tíma. Búist er við að framkvæmdir vegna þessa hefjist árið 2025 og að niðurdæling hefjist árið 2026 en upphaflega var áætlað að þessi framkvæmd hæfist í kringum árið 2030.
Með niðurdælingu er hægt að viðhalda afkastagetu jarðhitakerfisins og tryggja nægt flæði heits vatns. Þetta dregur úr niðurdrætti kerfisins, án þess að auka hættu á kólnun í vinnsluholunum. Ferilefnamælingar styðja þetta ferli, þar sem þær sýna hvernig vatn flæðir í kerfinu og hvernig hitaveituvatnið skilar sér aftur inn í kerfið án neikvæðra áhrifa.
Niðurdælingin tryggir að afhendingargeta á heitu vatni til íbúa á Höfn verði ekki fyrir áhrifum af tengingu nýrra viðskiptavina og að afkastageta jarðhitakerfisins í Hoffelli haldist stöðug. Þessi sjálfbæra nýting vatnsins gerir það mögulegt að stækka hitaveituna og bæta þjónustu án þess að fram komi neikvæð áhrif á þessa mikilvægu náttúruauðlind.
Með nýjum baðstað og hóteli eykst aðdráttarafl Hornafjarðar, sem styður við ferðaþjónustu á svæðinu og skapar ný tækifæri fyrir atvinnulíf og íbúa. Samstarfið milli RARIK og Bláa Lónsins er gott dæmi um hvernig nýting náttúruauðlinda getur stuðlað að sjálfbærri þróun, bætt lífsgæði og skapað ný tækifæri fyrir uppbyggingu og þróun á svæðinu.
Sími: 528 9000
Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15