Uppfært 31.10.2024: RARIK hefur ákveðið að taka yfir öll samskipti og umsýslu vegna tjónatilkynninga í kjölfar truflana í kerfi Landsnets 2. október sl., í samvinnu við tryggingarfélag sitt, TM.
Birt 23.10.2024:
Þann 2. október 2024 varð mikil truflun í raforkukerfi landsins. Afleiðingarnar voru víðtækar, sérstaklega fyrir flutnings- og dreifikerfið á Norður- og Austurlandi og ollu víðtæku rafmagnsleysi og rafmagnstruflunum.
Gert er ráð fyrir að yfir 15.500 viðskiptavinir RARIK hafi fundið fyrir truflunum á rafmagni og eru þá ótaldir viðskiptavinir annarra dreifiveitna sem urðu fyrir áhrifum. Á ákveðnum svæðum, sérstaklega í Þingeyjarsveit, ollu sveiflur á tíðni og spennu rafmagnsins það miklum truflunum að raftæki og jafnvel rafmagnstöflur og sölumælar skemmdust. Sem dreifiveita stórs hluta svæðisins sér RARIK um að taka á móti tilkynningum frá viðskiptavinum sínum er varðar tjón vegna rafmagnsgæða. Ljóst er að mikið tjón hefur orðið hjá íbúum í Mývatnssveit en tæplega helmingur þeirra u.þ.b. 200 tjónatilkynninga sem borist hafa RARIK eftir atburðinn hafa komið þaðan.
Atvik eins og þetta vekur upp spurningar um hvernig við tryggjum afhendingar- og orkuöryggi á Íslandi. Hefur þessi atburður líka vakið upp brýnar spurningar um styrkleika flutnings- og dreifikerfisins og mikilvægi þess að halda áfram með uppbyggingu nýrrar byggðalínu m.a. til að koma í veg fyrir atvik eins og þetta. Forgreiningar Landsnets sýna að ný kynslóð byggðalínunnar, Holtavörðuheiðarlína og Blöndulína 3, hefðu komið í veg fyrir þennan atburð og því þykir mikilvægt að hraða framkvæmdum við nýja byggðalínu og aðrar lykilframkvæmdir í raforkukerfinu.
Hvað gerðist?
Truflunin varð þegar 540 MW af álagi hjá Norðuráli á Grundartanga sló út vegna viðhaldsvinnu. Álagið samsvarar um fjórðungi af heildarálagi landsins og olli miklum aflsveiflum í flutningskerfinu.
Byggðalínan var byggð fyrir fimmtíu árum síðan og afköst hennar miðast við aðstæður eins og þær voru þá. Gríðarleg uppbygging í orkukerfinu gerir viðhaldsaðgerðir á þessari línu krefjandi og svo óheppilega vildi til að viðhaldsaðgerð var í gangi á línunni þegar truflunin átti sér stað. Þetta gerði kerfið viðkvæmara en ella fyrir truflunum.
Þegar leysti út á Grundartanga kom mikið högg á flutningskerfið og spenna og tíðni rafmagns fóru út fyrir eðlileg mörk. Við það skiptist flutningskerfi Landsnets upp í fimm sjálfstæð kerfi og tók það um 2,5 mínútur. Stjórnstöð Landsnets náði tökum á ástandinu og hófst uppbygging 18 mínútum síðar eða kl. 12:46. RARIK hóf uppbyggingu skömmu síðar og var uppbyggingu dreifikerfisins lokið og rafmagn komið aftur á um kl. 14:30.
Af hverju varð svona mikið tjón á Mývatnssvæðinu?
Á flestum svæðum á norðanverðu landinu leystu varnir RARIK út við spennusveiflurnar, sem kom að mestu í veg fyrir skemmdir á raftækjum viðskiptavina. Í Mývatnssveit voru sveiflurnar svo hraðar að varnirnar náðu ekki að „grípa“ þær. Einnig vildi svo illa til að þegar flutningskerfið skipti sér upp í trufluninni fékk þetta svæði rafmagn frá Fljótsdalsvirkjun þar sem ein vél hélt kerfinu gangandi. Þetta olli því að spennan á Mývatnssvæðinu var óstöðug í u.þ.b. 30 mínútur sem leiddi til þess að mörg heimili og fyrirtæki urðu fyrir skemmdum á rafmagnsbúnaði.
Ítarleg greining á ástæðum og afleiðingum truflunarinnar er í gangi og er framkvæmd af ytri aðila. Að þeim loknum munu viðeigandi úrbætur verða gerðar. Stórar aflsveiflur eru fátíðar en þær eru jafnan gripnar af vörnum áður en þær ná að valda truflunum eða tjóni.
Samvinna mikil í tjónamálum
Fljótlega var ljóst að mjög margir viðskiptavinir RARIK höfðu orðið fyrir tjóni og var því farið í samtal við sveitarstjórn á svæðinu og rafvirkjar sendir heim til fólks sem var rafmagnslaust vegna skemmda í töflu.
Verkfræðistofan Efla hefur verið fengin til að gera ítarlega greiningu á atburðinum með það að markmiði að skoða atburðarásina og greina orsakir truflunarinnar. Landsnet og RARIK hafa tekið höndum saman við að vinna úr tilkynningum og flýta bótaferlum til að stytta biðtíma viðskiptavina sem urðu fyrir tjóni.
Fyrstu dagana eftir bilunina var unnið að því að samræma verklag og tryggja að viðskiptavinir fengju upplýsingar um bótakröfur og bótaskyldu. Gefnar voru út nánari leiðbeiningar varðandi tjónatilkynningar og fólk beðið um að taka sér sinn tíma til að finna út hversu mikið tjónið hjá sér væri. Sem dreifiveita stórs hluta svæðisins er það hlutverk RARIK að aðstoða viðskiptavini sína gagnvart tjónatilkynningum, taka við þeim og forvinna þær áður en þær eru sendar áfram.
RARIK og Landsnet hafa unnið náið saman frá því að truflunin átti sér stað til að leysa sem hraðast úr tjónamálum. Ferlið við úrvinnslu tjóna er flókið og krefst náins samstarfs fyrirtækjanna og tryggingafélaga. Enn er verið að greina hvað fór úrskeiðis í biluninni en til að flýta fyrir afgreiðslu tjónamála og greiða bætur hefur verið samið við Sjóvá um afgreiðslu, yfirferð og útgreiðslu vegna tjóna. Farið var í flýtingu allra ferla til að ekki þyrfti að koma til þess að of mikil bið yrði á greiðslum tjóna til viðskiptavina.
Varnir flutnings- og dreifikerfisins
Flutningskerfi Landsnets er hannað til að flytja rafmagn frá stórum virkjunum til dreifiveitna eins og RARIK sem dreifa rafmagninu til heimila og fyrirtækja. Þetta kerfi er einn af lykilinnviðum landsins og gríðarlega mikilvægt til að tryggja stöðugt og öruggt rafmagn, en það getur líka verið viðkvæmt fyrir útleysingum, eins og þeirri sem varð á Grundartanga.
Þrátt fyrir að öflugar varnir séu til staðar í kerfi Landsnets hefur RARIK einnig sett upp varnir við of hárri og lágri spennu í sínu kerfi. Bæði RARIK og Landsnet vinna stöðugt að því að styrkja flutnings- og dreifikerfið og draga úr líkum á útleysingum. Í kjölfar truflana líkt og þeirrar sem varð eftir útleysingu á Grundartanga, er gerð ítarleg rótargreining til að bæta varnir og endurskoða stillingar í flutnings- og dreifikerfum til að reyna að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki. Þetta felur í sér breyttar stillingar varna í aðveitustöðvum til að lágmarka skaða við næstu truflun. Þegar kemur að kerfisvörnum er alltaf ákveðin málamiðlun sem á sér stað milli þess að koma í veg fyrir skemmdir á búnaði viðskiptavina annars vegar og koma í veg fyrir síendurtekið rafmagnsleysi hins vegar. Stöðugt er leitast við að ná þessu jafnvægi í rafmagnskerfunum til að vernda bæði þau sjálf og eigur fólks.
Þessi frétt er unnin í samstarfið við Landsnet og birtist einnig á landsnet.is
Sími: 528 9000
Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15