ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

Öryggisdagurinn: Hugrekki til að tala

Fyrsti formlegi Öryggisdagur RARIK var haldinn föstudaginn 17. janúar s.l. Þá var þess minnst að 50 ár eru liðin frá þyrluslysi sem kostaði fimm starfsmenn okkar lífið auk tveggja manna áhafnar. Þess var einnig minnst að í þessum sama mánuði fyrir 50 árum misstum við starfsmann okkar við störf á Þórshöfn.

Frá viðburði öryggisdagsins 17. janúar 2025
Frá viðburði öryggisdagsins 17. janúar 2025

Ýmislegt hefur breyst á þeim 50 árum sem liðin eru frá þessum myrka mánuði í sögu RARIK. Á þessum fyrsta öryggisdegi tók starfsfólk okkar um allt land frá stutta stund til að koma saman og minnast þeirra sem létust og fylgjast með stuttri athöfn sem sett hafði verið saman í tilefni dagsins.

Aðstoð í boði

Magnús Þór Ásmundsson forstjóri RARIK
Magnús Þór Ásmundsson forstjóri RARIK

Öryggisdagurinn í ár var helgaður úrvinnslu áfalla og mikilvægi þess að tala um hlutina. Forstjóri RARIK, Magnús Þór Ásmundsson, minntist þeirra sem létust og hvatti starfsfólk til að horfa inn á við og huga að mikilvægi samtals og samskipta í öllu sem við gerum. Í handbókum RARIK kemur m.a. fram að yfirmenn megi, hvenær sem þeim þykir þörf, bjóða starfsfólki sínu áfallahjálp eða andlegan stuðning hjá fagfólki, og beri í raun skylda til að bjóða hana þegar slys eða áföll verða í vinnunni. Andlegt öryggi okkar og vellíðan er nefnilega ekki síður mikilvægt en líkamlegt öryggi.

Bryndís Einarsdóttir, sálfræðingur
Bryndís Einarsdóttir, sálfræðingur

Við fengum til okkar sálfræðinginn Bryndísi Einarsdóttur hjá Styðjandi sálfræðiþjónustu sem flutti okkur erindi um áfallahjálp og mikilvægi hennar við úrvinnslu áfalla. Styðjandi er hluti af Heilsuklasanum en RARIK hefur gert samning við Heilsuklasann um faglegan stuðning við starfsfólk okkar þegar á þarf að halda. Hún minnti okkur á að það er í eðli okkar að forðast erfiða hluti og tilfinningar en að slíkt geti þá setið í líkamanum í lengri tíma. Við þurfum hugrekki til að leyfa okkur að finna til og að stundum sé eðlilegt að vera ekki í jafnvægi.

Áföll hafa áhrif

Tryggvi Þór Haraldsson, ráðgjafi forstjóra
Tryggvi Þór Haraldsson, ráðgjafi forstjóra

Tryggvi Þór Haraldsson, fyrrverandi forstjóri RARIK, hóf störf hjá fyrirtækinu fimm árum eftir þetta alvarlega slys. Hann rifjaði það upp hvernig þetta mikla áfall hélt áfram að hafa áhrif á fyrirtækið í mörg ár á eftir og að aldrei hefði verið unnið úr þessum málum innanhúss. Á þessum tíma var ekki búið að finna upp orðið áfallahjálp og fólk forðaðist að ræða slysið og þótti það jafnvel óþægilegt en hann hafi þó fundið að mörgum leið illa vegna þess. Slysið varð einnig til þess að alveg var fallið frá því að nota þyrlur í starfseminni jafnvel þótt oft og tíðum hefði slíkt komið sér mjög vel. Hvenær sem minnst var á slíkar hugmyndir var það slegið út af borðinu.

 

Tryggvi minntist einnig annarra alvarlega atburða sem orðið höfðu síðan hann hóf störf og hvernig hlúa hefði mátt betur að starfsfólki í kjölfar þeirra. Hann hvatti starfsfólk til að þiggja aðstoðina sem væri í boði yrði það fyrir áföllum, jafnvel þótt þeim fyndist kannski sjálfum að þau þyrftu ekki á því að halda.

Mikilvægi þess að eiga saman stund

Sr. Skúli Ólafsson, prestur í Neskirkju
Sr. Skúli Ólafsson, prestur í Neskirkju

Við vorum svo heppin að komast í kynni við Sr. Skúla Ólafsson, prest í Neskirkju, sem er ekki bara þaulvanur því að hjálpa aðstandendum í sorgarferli heldur hefur einnig tengingu við þyrluslysið. Tómas Sigurðsson, einn starfsmanna okkar sem lést í slysinu, var móðurbróðir sr. Skúla. Hið hroðalega slys markaði fjölskyldu sr. Skúla mjög en hann vildi minna okkur á mikilvægi þess að eiga saman stund fyrir athafnir af þessu tagi. Þar sem við minnumst atburða, bæði góðra og erfiðra, tölum saman, sýnum hvort öðru samhug og lærum eitthvað af þeim. Hann talaði einnig um hvernig áföll marka fólk, sérstaklega ef ekki er unnið úr þeim, og að án úrvinnslunnar geti átt sér stað, það sem hann kallaði, seinni harmleikur.

Öryggi er samtal

Björn Guðmundsson, öryggisstjóri
Björn Guðmundsson, öryggisstjóri

Að lokum flutti Björn Guðmundsson, öryggisstjóri okkar, stutta hugvekju um öryggismál. Björn er bæði þaulvanur þyrluflugmaður og með menntun á sviði rannsókna flugslysa. Hann kemur úr flugheiminum en þar er ýmislegt sem hægt er að yfirfæra á orkugeirann þegar kemur að öryggismálum. Björn minntist eins stærsta flugslyss sögunnar á Tenerife, sem varð aðeins tveimur árum eftir þetta slys og varð til þess að flugrekendur tóku loksins verulega til í öryggismálum og bættu úr samskiptum. Ein af orsökum slyssins á Tenerife var skortur á samskiptum, að fólk talaði ekki saman. Hann minnti okkur á að það þarf hugrekki til að tilkynna og tala um öryggisatvik eða hluti sem ógnað gætu öryggi. Alltaf ef við hugsum um það hvort eitthvað sé þess vert að tilkynna þá ættum við að tilkynna það.

Við getum lært af fortíðinni

Hugrekki til að tala
Hugrekki til að tala

Til að auka öryggisvitund alls starfsfólks okkar, líka þeirra sem vinna á skrifstofum RARIK víðsvegar um landið, hvetjum við starfsfólk okkar, hér eftir sem hingað til, til að koma með ábendingar að bættum öryggisvenjum og láta vita af öryggisatvikum. Starfsfólki okkar hefur lengi vel boðist að tilkynna og skrá öryggisábendingar og með tilkomu ábendingahnapps á Teams-forritinu hjá okkur fyrir nokkrum misserum er það nú enn auðveldara en áður. Það er markmið okkar að fá aukinn fjölda slíkra ábendinga ár hvert og hvetja starfsfólk til að tala upphátt um það sem þeim kann að brenna fyrir brjósti varðandi öryggismál.

 

Yfirskrift öryggisdagsins í ár var „Hugrekki til að tala“ og er ákall til alls starfsfólks okkar um að tala saman um öryggismál. Bæði áður en öryggisatvik eiga sér stað en, ekki síður, eftir að slys verða. Með því að tala upphátt um hluti sem valda okkur áhyggjum eða virðast ótraustir og gætu mögulega valdið slysum gætum við komið í veg fyrir óhöpp og áföll. Með því að tala um áföll sem við verðum fyrir, bæði sem einstaklingar og sem liðsheild, getum við unnið okkur í gegnum þau og lært af þeim. Að tala upphátt og opinskátt um hlutina hjálpar okkur og heilar og er því mikilvægur hluti af öryggismenningu okkar.

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

ÞJÓNUSTUVER

Sími: 528 9000

Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Sími: 528 9000

 

 

Fylgdu okkur:

Facebook
Rarik