ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

Minning: 50 ár frá mannskæðu þyrluslysi á Kjalarnesi

50 ár eru nú liðin frá því að sjö manns létust í þyrluslysi á Kjalarnesi. Um borð voru fimm starfsmenn á vegum RARIK ásamt flugmanni og eiganda þyrlufyrirtækisins. Slysið er enn mannskæðasta þyrluslys sem orðið hefur á Íslandi og jafnframt þriðja mannskæðasta flugslysið. Við minnumst þessa hörmulega atburðar með því að halda sérstakan öryggisdag sem ætlunin er að halda árlega í minningu þeirra sem látið hafa lífið í þjónustu RARIK.

Örlagaflug

Klukkan 10:30 að morgni 17. janúar 1975 héldu fimm starfsmenn á vegum RARIK af stað frá Reykjavík með þyrlu flugfélagsins Þyrluflugs hf., TF-LKH. Þetta voru Indriði H. Einarsson, yfirverkfræðingur framkvæmdadeildar, 42 ára, Tómas Sigurðsson, deildarverkfræðingur, 36, ára, Stefán Ólafur Ólafsson, byggingaverkfræðingur, 50 ára, Guðmundur Eiður Hannesson, yfirverkstjóri línudeildar, 41 árs, og Sigurbjörg Guðmundsdóttir, matráðskona, 63 ára. Í áhöfn þyrlunnar voru Lúðvík Karlsson, flugmaður og annar eigenda þyrlunnar, 31 árs, og Kristján S. Helgason, eigandi og framkvæmdastjóri Þyrluflugs, 29 ára.

Þyrlan var á leið til Vegamóta á Snæfellsnesi. Verkfræðingar og verkstjórar RARIK ætluðu þar að líta á framkvæmdir og aðstoða og leiðbeina við byggingu háspennulínu og spennistöðvar á Nesinu sem áttu að gera Snæfellingum öllum kleift að fá rafmagn frá hinum stóru vatnsorkuverum Landsvirkjunar við Sog og Þjórsá. Sigurbjörg var á leið til Vegamóta til að starfa þar sem matráðskona hjá framkvæmdaflokki tengdasonar síns, Páls Guðfinnssonar. Miklar framkvæmdir höfðu átt sér stað á Snæfellsnesi og lokaáfangi tengingarinnar við stóru vatnsaflsvirkjanirnar var að hefjast. Tekist hafði að tengja suðurhluta Snæfellsness rétt fyrir jólin í miklu frosti og blindhríð.

 

Þennan örlagaríka dag var veðrið mun skárra en mikill strekkingur í lofti og vindhviður við fjallaskörð. Rúmlega stundarfjórðungi eftir að TF-LKH hélt af stað frá Reykjavík féll hún til jarðar í landi Hjarðarness í mynni Hvalfjarðar. Sjónarvottar segja sprengingu hafa orðið þegar þyrlan brotlenti og mikla eldsúlu hafa risið upp frá slysstað. Allir um borð létu lífið samstundis. Fólk á nærliggjandi bæjum sem dreif sig strax að slysstað kom engum björgum við vegna eldhafsins.

Þyrlan nýkomin til landsins

Þyrlan TF-LKH var af gerðinni Sikorsky S-55B og hafði hún komið samsett til landsins með Brúarfossi frá Bandaríkjunum á nýársdag þessa árs. Vélin var 20 ára gömul, framleidd árið 1954 fyrir bandaríska herinn. Hún var svo endursmíðuð og tekin í gegn fjórum árum áður en hún kom til Íslands af Orlando Helecopter Airways í Flórída sem nýtti hana til farþegaflugs. Hún var svo seld Þyrluflugi hf. skömmu fyrir áramótin 1974-1975. Þyrlan gat mest tekið 11 manns í sæti, auk tveggja flugmanna, á styttri leiðum, þ.e. þegar hún hafði einungis lítið eldsneyti innanborðs. Samkvæmt framleiðendum hennar var mælt með að farþegar væru ekki fleiri en 8 og að aukasæti væru nýtt til að tryggja rétta þyngdardreifingu í þyrlunni.

 

Forsvarsmenn Þyrluflugs vildu með þessari ferð kynna þessa nýju þyrlu fyrir yfirmönnum RARIK en fyrirtækið hugðist nýta sér þessa þjónustu í auknum mæli til að koma bæði fólki og efni á milli staða. Yfirmenn RARIK vildu nýta sér kynninguna þennan dag til að skoða framkvæmdir á Snæfellsnesi, huga að línustæði vestur yfir Kerlingarskarð til Stykkishólms og ferja Sigurbjörgu að Vegamótum til að sjá um starfsfólkið sem vann þar við að reisa línur og spennistöð. Þetta var þriðja ferð þyrlunnar eftir að hún kom til landsins, þar af önnur á vegum RARIK.

 

Forstjórinn sem fór ekki

Örlögin höguðu því þannig að forstjóri RARIK á þessum tíma, Valgarð Thoroddsen, sem átti að fara með þyrlunni þennan dag var ekki um borð. Þegar Valgarð hætti við ferðina var öðrum starfsmanni, Baldri Helgasyni, boðið að fara í hans stað en hann komst ekki sökum anna. Einnig hafði Sigurði Sigurðssyni, fréttamanni hjá útvarpinu, verið boðið með en hann ákvað að eiga ferðina inni þar til síðar. Valgarð Thoroddsen, þáverandi forstjóri RARIK sagði í blaðaviðtali vegna atburðarins að illan beyg hafi sett að konu hans vegna ferðarinnar og hún hafi lagt hart að honum að vera heima. Hann hafi verið búinn að pakka vinnufötum í tösku en hafi hætt við á síðustu stundu að beiðni konunnar sinnar. 

Hvað gerðist?

Orsakir þyrluslyssin á Kjalarnesi árið 1975 hafa aldrei talist fyllilega ljósar eða sannaðar. Þyrlan var að koma yfir Tíðarskarð við mynni Hvalfjarðar, sem er þekkt fyrir sviptivinda, þegar hún, að sögn sjónarvotta, hóf að fljúga undarlega og eins og hún léti ekki að stjórn.

Guðmundur Guðmundsson, rafgæslumaður
Guðmundur Guðmundsson, rafgæslumaður

Áfallið

Janúar 1975 var ekki einungis erfiður fyrir RARIK vegna þyrluslyssins en fyrirtækið hafði einnig misst öflugan starfsmann á Norð-Austurlandi skömmu áður. Guðmundur Guðmundsson, 58 ára gamall rafgæslumaður á Þórshöfn, lést við störf sín 12. janúar. Dánarorsök hans er sögð ofreynsla og hjartabilun en Guðmundur var að lagfæra bilun í raforkukerfinu á Þórshöfn í blindhríð og kafsnjó þegar hann lést.  

 

Það er sem betur fer ekki algengt að stór áföll af þessu tagi verði á vinnustöðum landsins en þarna missti RARIK nokkra af sínum færustu sérfræðingum á einum degi og varð fyrir tveimur stórum áföllum í sama mánuðinum. Eftir stóðu fjölskyldur hinna látnu í sárum og samstarfsfélagar í áfalli.

 

Skyndilegt brotthvarf starfsfólks RARIK hafði tilfinnanleg áhrif á starfsemi fyrirtækisins lengi eftir slysið og sú regla var sett í kjölfar þess að nota ekki þyrlur við starfsemina. Það verklag var viðhaft þar til fyrir fáum árum.

 

Hugrekki til að tala

Hjá RARIK hefur öryggi starfsfólks ávallt verið ofarlega á dagskrá og eru öryggismál stór hluti af stefnu okkar og starfsemi. Með nýrri stefnu, gildum og meginmarkmiðum sem tekin voru upp í október 2023 var öryggismálum gert enn hærra undir höfði.

 

Til að minnast þess að 50 ár eru liðin frá þyrluslysinu á Kjalarnesi og þessa myrka mánaðar í sögu okkar hefur verið ákveðið að koma á fót sérstökum og, hér eftir, árlegum öryggisdegi innan fyrirtækisins. Við viljum heiðra minningu allra þeirra sem létust þennan örlagaríka janúarmánuð við störf í þágu RARIK, sem og annarra sem hafa látið lífið við störf hjá fyrirtækinu í gegnum árin, með því að stuðla enn frekar að aukinni öryggisvitund meðal starfsfólks okkar. Þannig viljum við sýna, bæði í orði og á borði, að við setjum öryggið í fyrsta sæti og að það sé forgangsatriði að fólk komi heilt heim að vinnudegi loknum, bæði á líkama og sál.

 

Öryggisdagurinn í ár er helgaður úrvinnslu áfalla og mikilvægi þess að tala um hlutina. Eitt af gildum RARIK er hugrekki. Við þurfum hugrekki til að tala um hlutina, láta í okkur heyra þegar aðstæður virðast ótryggar og tjá okkur ef við höfum orðið fyrir áfalli eða slysi. Að tala upphátt og opinskátt um áföll hjálpar okkur og heilar og er því mikilvægur hluti af öryggismenningu okkar. 

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

ÞJÓNUSTUVER

Sími: 528 9000

Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Sími: 528 9000

 

 

Fylgdu okkur:

Facebook
Rarik