Hagnaður Rarik samstæðunnar árið 2024 nam 2.246 milljónum króna, sem er talsvert meira en árið 2023, en þá var hagnaðurinn 1.521 milljón krónur. Helstu breytingar á milli ára eru meiri rekstrarhagnaður, einkum hjá Orkusölunni, dótturfélagi Rarik, en auk þess voru nettó fjármagnsgjöld lægri en árið á undan. Heildarhagnaður að teknu tilliti til áhrifa af endurmati fastafjármuna nam 7.205 milljónum króna.
Rekstrartekjur jukust um 15,8% frá árinu 2023 og námu 24 milljörðum króna. Hækkun tekna af raforkudreifingu og sölu á heitu vatni nam um 10–12% á milli ára og raforkusala jókst um 29% á milli ára. Aðrar tekjur, s.s. vegna þjónustugjalda, lækkuðu um 1,6%. Rekstrargjöld jukust um tæp 15,9% á milli ára og námu 20 milljörðum króna. Stærstu kostnaðarliðir samstæðunnar eru kaup á orkuflutningi og orku frá Landsneti og Landsvirkjun, en þessir liðir hækkuðu um tæp 19% á milli ára.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 7.556 milljónum króna eða 31,5% af veltu ársins, samanborið við 32,2% á árinu 2023. Handbært fé frá rekstri nam 5.399 milljónum króna.
Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) nam 4.005 milljónum króna, sem er tæplega 15% hækkun frá fyrra ári. Hrein fjármagnsgjöld námu 1.159 milljónum króna en námu á árinu 2023 1.576 milljónum króna. Lækkunin skýrist aðallega af hagstæðari gengismun og minni verðbólgu en árið á undan.
Samkvæmt efnahagsreikningi voru heildareignir í árslok 103.285 milljónir króna og jukust um 9.456 milljónir króna á milli ára. Heildarskuldir námu 38.353 milljónum króna og hækkuðu um 6.894 milljónir króna frá fyrra ári. Eigið fé var 64.931 milljónir króna og er eiginfjárhlutfall því 62,9% samanborið við 61,9% í árslok 2023. Fjárfestingar ársins að frádregnu söluandvirði seldra rekstrarfjármuna námu 8.399 milljónum króna, sem er 655 milljónum króna meira en árið á undan.
Með markmið stjórnvalda að leiðarljósi hvað varðar orkuskipti og loftslagsaðgerðir er stöðugt unnið að endurnýjun og styrkingu dreifikerfisins. Í árslok 2024 var hlutfall jarðstrengja í dreifikerfi Rarik um 80%. Þá er fjárfestingaþörf félagsins að aukast vegna breyttrar neysluhegðunar og orkuskipta. Stjórn Rarik samþykkti haustið 2024 fimm ára fjárfestingaáætlun sem nemur rúmlega 40 milljörðum, til að styðja við markmið um orkuskipti.
Stjórn Rarik leggur til við aðalfund að greiddar verði 310 milljónir króna í arð til eiganda fyrirtækisins, sem er Ríkissjóður Íslands.
Horfur ársins 2025 eru góðar en krefjandi. Rarik er og vill vera leiðandi afl í orkuskiptum Íslands. Orkuskiptin og undirbúningur fyrir framtíðina eru framþung verkefni og mun Rarik standa frammi fyrir stórum fjárfestingum sem þarf að fjármagna bæði úr eigin rekstri og með aukinni skuldsetningu. Gert er ráð fyrir tekjuaukningu hjá samstæðunni vegna magnaukningar í raforkudreifingu, en einnig vegna hækkunar verðskrár. Gert er ráð fyrir að EBITDA verði í kringum 32% af veltu og að fjárfestingar ársins verði um 8,4 milljarðar króna.
Helstu stærðir samstæðureiknings Rarik. Allar fjárhæðir í milljónum króna
Samstæðuársreikningur Rarik ohf. er gerður samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum.
Ársreikningur Rarik-samstæðunnar 2024 var samþykktur á fundi stjórnar þann 27. mars 2025.
Nánari upplýsingar veitir Elísabet Ýr Sveinsdóttir framkvæmdastjóri fjármála Rarik, í síma
528-9123.
Sími: 528 9000
Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15