Tugir staura brotnuðu og nokkrar skemmdir urðu á línum víðsvegar á Austfjörðum í miklu óveðri sem hófst sunnudaginn 19. janúar. Framkvæmdaflokkar okkar á Austurlandi voru í viðbragsstöðu vegna veðurspár frá sunnudeginum en vegna mikillar ofankomu með tilheyrandi ófærð og slæmu skyggni varð þeim ekki hægt um vik þegar mikil ísing fór að fella línur og staura. Veðurspá hafði gert ráð fyrir að ísing yrði mun ofar en raunin varð. Við vorum í nánu samstarfi við Almannavarnir og Vegagerðina um að koma starfsfólki okkar örugglega milli svæða eftir því sem þörf krafði og við fengum einnig aðstoð björgunarsveita og verktaka. Viðbótarmannskapur var sendur frá Akureyri, Þórshöfn og Hvolsvelli á mánudeginum.
Sex bilanir urðu á Austurlandi í þessu áhlaupi og allar urðu þær á stöðum sem treysta á afhendingu rafmagns um loftlínur.
Viðgerðir uppi í staur við Karlsá í Lóni.
Bilanirnar hófust með því að rafmagnslaust varð í Lóni kl. 15:30 á sunnudaginn. Framkvæmdaflokkur okkar á Höfn náði að einangra bilunina og koma á varaafli hjá flestum viðskiptavinum okkar á svæðinu nokkuð fljótt en þó var þar enn rafmagnslaust á nokkrum bæjum fram á mánudag. Á mánudeginum barst liðsauki frá Hvolsvelli og efni til viðgerða á staðinn og var þar unnið að viðgerðum fram á kvöld. Í það minnsta 10 staurar brotnuðu og línur slitnuðu. Viðgerðum í Lóni lauk um kl. 17 á þriðjudag og voru þá allir viðskiptavinir komnir aftur með rafmagn frá dreifikerfinu.
Viðgerð við Svínhóla í Lóni.
Á sunnudagskvöldið, kl. 19:20, leysti línan á svæðinu út. Erfitt var fyrir framkvæmdaflokka að greina bilanir vegna skyggnis. Þá féll snjóflóð í Hvalnesskriðum um nóttina og hamlaði því að framkvæmdaflokkar kæmust leiðar sinnar á mánudagsmorgun. Þegar starfsmenn okkar komust á svæðið kom í ljós að mikil ísing hafði sligað línurnar en þó ekki slitið þær. Ísingin var hreinsuð af og komst þá rafmagn á aftur rétt eftir kl. 13:30. Frekari viðgerða var ekki þörf á svæðinu en þó gæti þurft að herða á línunni eftir átökin við ísinguna þar sem hún er sigin á köflum.
Í sunnanverðum Fáskrúðsfirði fór rafmagn af rétt eftir miðnætti aðfaranótt mánudags. Ekki var hægt að framkvæma bilanaleit vegna slæmrar færðar og skyggnis. Þess var beðið fyrri hluta mánudags að vegir yrðu færir svo hægt yrði að skoða aðstæður og biðu starfsmenn framkvæmdaflokka tilbúnir eftir því. Í ljós kom að nokkrir staurar höfðu brotnað og línur slitnað í veðurofsanum. Tvær varaaflsvélar voru fluttar á svæðið og tengdar og tókst að koma rafmagni til allra bæja sem búið er á upp úr kl. 18 um kvöldið. Viðgerðir á línu og uppsetning staura gekk vel á þriðjudegi en mun meira fannst af skemmdum línum en áætlað hafði verið auk brotins spennis. Viðgerðir halda áfram í dag, miðvikudag, og gert er ráð fyrir að ná að tengja viðskiptavini okkar aftur við dreifikerfið síðdegis.
Ísing á staurum og línum í Reyðarfirði.
Í sunnanverðum Reyðarfirði var ástandið svipað og í Fáskrúðsfirði en þar fór rafmagnið af tæpum 10 mínútum síðar eða 00:24 aðfaranótt mánudags. Ekki var hægt að hefja bilanaleit vegna veðurs og ófærðar en ábúandi í Vattarnesi lét okkur vita af slitnum línum. Vegagerðin ruddi veginn rétt eftir hádegi og komust framkvæmdaflokkar okkar þá á staðinn. Við þeim blasti mikil ísing sem hafði sligað og slitið línur og brotið staura. Unnið var að viðgerðum fram á mánudagskvöld sem tókst að ljúka um kl. 19. Ekki þurfti að keyra upp varaaflsvélar á þessu svæði.
Rafmagnslaust varð frá botni Berufjarðar og út norðanverðan fjörðinn rétt fyrir klukkan tvö aðfaranótt mánudags. Vitað var um allavega einn brunninn staur á svæðinu en ekki var hægt að hefja viðgerð. Í ljós kom til viðbótar að annar staur hafði brotnað og línur slitnað vegna ísingar. Viðgerð hófst um miðjan dag á mánudag og var henni lokið um kl. 17:30 sama dag. Þó var enn rafmagnslaust í Karlstaðatangavita en þar þurfti að hreinsa ísingu af til að koma rafmagni á aftur. Þeirri aðgerð lauk rétt eftir hádegi í dag, miðvikudag.
Fossárvík í Berufirði.
Á Stöðvarfirði fór rafmagnið af rétt eftir klukkan fjögur um nóttina og vitað var um a.m.k. 5 brotna staura nærri bænum en sú tala átti eftir að hækka töluvert eftir því sem leið á daginn. Um 190 heimili og fyrirtæki misstu rafmagn í þessari bilun og ófært var á svæðinu fram að hádegi á mánudegi. Jarðstrengsverkefni RARIK hefur þegar náð til Stöðvarfjarðar og þar var tilbúinn plægður jarðstrengur síðan í haust. Verkefninu við að tengja strenginn var þó ekki lokið þar sem beðið var eftir rofa og einnig átti eftir að prófa strenginn. Þessi rofi hefur nú verið settur upp og er því jarðstrengurinn kominn í varanlegan rekstur. Rafmagn komst aftur á í þéttbýli Stöðvarfjarðar upp úr kl. 16 á mánudeginum en íbúar í dreifbýli voru skömmu síðar tengdir varaafli.
Brotnir staurar í Stöðvarfirði.
Þriggja fasa stofnlínan inn í Stöðvarfjörð fór mjög illa í óveðrinu. Stofnlínan verður ekki endurbyggð heldur tekur jarðstrengurinn nú alfarið við hennar hlutverki. Í stað núverandi línu verður lagður annar jarðstrengur sem mun tryggja tvöfalda tengingu frá aðveitustöðinni inn til Stöðvarfjarðar. Þetta verkefni þarfnast undirbúnings og ekki er búið að festa tímasetningu á því hvenær það klárast að fullu en við munum undirbúa bráðabirgðalausn sem hægt verður að grípa til ef jarðstrengurinn skyldi bila. Ljóst er að afhendingaröryggi í Stöðvarfirði eykst til muna við þessa aðgerð.
Viðbótarmannskapur okkar frá Akureyri, Þórshöfn og Hvolsvelli heldur nú til síns heima. Hjá framkvæmdaflokkum okkar á Höfn og Egilsstöðum tekur við að klára verkefnið á Stöðvarfirði og taka til eftir óveðrið eftir að hafa unnið sín þrekvirki.
RARIK vill þakka öllum íbúum og fyrirtækjum á svæðinu fyrir þolinmæði og skilning og senda sérstakar þakkir til verktaka, fjarskiptafyrirtækja og björgunarsveita sem aðstoðuðu okkur í þessu verkefni.
Sími: 528 9000
Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15