ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

Staða dreifikerfisins vegna óveðurs á Austurlandi

Hér eru birtar fréttir af stöðu dreifikerfisins eftir því sem tilefni verða til vegna óveðurs á Austurlandi 20. janúar 2025. Auk þess upplýsum við um stöðu mála á tilkynningasíðu og á kortasjá.


Staðan 20.01.2025 kl. 19:00

Allir viðskiptavinir með fasta búsetu voru komnir með rafmagn rétt fyrir klukkan 19:00.


Staðan 20.01.2025 kl. 16:40

Enn er unnið að bilanaleit og viðgerðum á Austurlandi. Rafmagnslausum viðskiptavinum á Austfjörðum fer fækkandi en þó eru enn 39 heimili án rafmagns. Mestu munar um að fyrir skömmu tókst að koma rafmagni aftur á í Stöðvarfirði en þar voru 190 heimili og fyrirtæki rafmagnslaus.

 

Fjöldi staura brotnaði og línur slitnuðu vegna ísingar í óveðrinu fyrir austan. Endanlegar viðgerðir á staurum og línum gætu tekið einhverja daga. Við eigum tiltækar varaaflsvélar sem við erum að undirbúa og gætum þurft að tengja einstaka viðskiptavini við á meðan verið er að klára viðgerðir. Vinna er komin vel í gang en þó er óvíst hversu langan tíma þetta mun taka. Aðstæður fyrir austan hafa verið afar krefjandi.

  • Lón: Nokkur fjöldi staura brotnaði og línur slitnuðu í Lóni. Flestir viðskiptavinir hafa fengið rafmagn, m.a. með varaafli, en því miður eru enn nokkur heimili án rafmagns á þessu svæði. Verið er að undirbúa viðgerð.
  • Djúpivogur til Álftafjarðar: Mikil ísing sligaði línur og olli rafmagnsleysi á svæðinu. Starfmenn vinnuflokks náðu að hreinsa ísinguna af og komst rafmagn aftur á rétt eftir klukkan 13:30 í dag. Ekki er gert ráð fyrir frekari truflunum þarna að óbreyttu.
  • Tunga að Grænnípu: Í sunnaverðum Fáskrúðsfirði hafa línur slitnað og staurar brotnað. Búið er að koma rafmagni aftur á hluta þess svæðis sem fyrst varð rafmagnslaus en því miður eru nokkur heimili enn án rafmagns. 
  • Berunes að Vattarnesi: Í sunnanverðum Reyðarfirði var mikil ísing. Búið er að gera við línuslit en fleiri bilanir eru á línunni og því hefur ekki tekist að koma rafmagni á aftur. 
  • Berufjörður: Frá botni Berufjarðar og út norðanverðan fjörðinn er rafmagnslaust og þar eru 13 viðskiptavinir án rafmagns. Þar hafa staurar bæði brotnað og brunnið og lína slitnað. Viðgerð stendur yfir.
  • Stöðvarfjörður: Búið er að tengja jarðstreng til Stöðvarfjarðar og spennusetja hann til að hægt sé að koma rafmagni á þar innanbæjar. Línan er illa farin og fjöldi staura brotinn og því mun einhver tími líða þar til næst að koma rafmagni aftur á í dreifbýli fjarðarins. Líklega þarf að koma því á með smærri varaaflsvélum. Þarna voru 190 heimili og fyrirtæki án rafmagns en hefur nú fækkað niður í 4 og vonir standa til að hægt verði að koma rafmagni á hjá þeim innan skamms.

Staðan 20.01.2025 kl. 12:30

Bilanir vegna óveðurs á Austurlandi eru sex talsins. Helst er um að ræða álag á loftlínur vegna ísingar og seltu en ísingin hleðst utan á línurnar og slítur þær. Nokkuð er um að staurar hafi brotnað eða brunnið af þessum sökum. Þegar mikil selta er í úrkomunni og saltur snjór leggst á staurana verður mikil leiðni til jarðar sem getur orðið til þess að staurar brenna.

  • Lón: Bilun í Lóni orsakast af að minnsta kosti 10 brotnum staurum og sliti á leiðurum. Þar hefur varaafli verið komið á víðast hvar en einhverjir viðskiptavinir eru þó án rafmagns. Verið er að flytja mannskap frá Suðurlandi til að aðstoða við viðgerð.
  • Djúpivogur til Álftafjarðar: Bilanagreining er enn í gangi. Ekki sást hnjask í línum í nótt en skyggni var erfitt. Snjóflóð féll í Hvalnesskriðum og er unnið að því að ryðja veginn. Framkvæmdaflokkar okkar eru tilbúnir að fara í frekari bilanaleit og viðgerðir um leið og fært er.
  • Tunga að Grænnípu: Sunnan Fáskrúðsfjarðar er mikil ófærð og framkvæmdaflokkar okkar komust ekki í nótt í bilanaleit vegna færðar og skyggnis. Vegagerðin er að ryðja fyrir okkur og eru framkvæmdaflokkar reiðubúnir um leið og færð leyfir.
  • Berunes að Vattarnesi: Sunnan Reyðarfjarðar slitnaði vír. Vegagerðin mun líklega ryðja veginn á næstu klukkustundum svo hægt verði að senda framkvæmdaflokka þangað til viðgerða.
  • Berufjörður til Álftafjarðar: Vitað er um að staur hafi brunnið á þessu svæði en björgunarsveit er komin á staðin í leit að frekari áverkum á línum og staurum.
  • Stöðvarfjörður: Bilun í línu frá aðveitustöð að Stöðvarfirði. Að minnsta kosti 12 stæður eru brotnar. Framkvæmdaflokkar munu í dag vinna að því að tengja jarðstreng á svæðinu en til þess þarf að koma frekari búnaði á staðinn. Verið er að opna vegi og styttist í að framkvæmdaflokkur og efni komi á staðinn.
    Unnið er að því að flytja mannskap frá Norðurlandi til að aðstoða við viðgerðir.

Viðgerðir geta í versta falli tekið einhverja daga en við erum að undirbúa varaafl sem við munum tengja við einstaka viðskiptavini á meðan viðgerðir eru kláraðar. Vegna aðstæðna eru tímasetningar óljósar en svo virðist sem bilanasvæðin séu að opnast og að framkvæmdaflokkar okkar geti farið að komast þangað til að greina bilanir og ráðast í viðgerðir.

Frá Berufirði - Mynd: Kári Snær

Framkvæmdaflokkur í Berufirði

Ísing á loftlínu í Berufirði 20. janúar 2025

Ísing á loftlínu í Berufirði 20. janúar 2025


Staðan 20.01.2025 kl. 10:00

RARIK hefur verið í viðbragðsstöðu síðan í gær vegna óveðurs. Við höfum mannað upp í samræmi við veðurspá og sendum viðbótarmannskap frá Egilsstöðum á svæðin á Austfjörðum. Jafnframt vorum við tilbúin til að bregðast við mögulegum bilunum á Héraði og Jökuldal. Við erum í nánu samstarfi við Almannavarnir til að tryggja að hægt sé að flytja mannskap og búnað á milli staða. Hér er yfirlit yfir bilanir sem hafa orðið vegna óveðursins:
  • 19. janúar kl. 15:31 – Lón: Bilun einangruð og varavél sett upp fyrir nokkra viðskiptavini. Neyðarlínan er á varaafli. Enginn ætti að vera án rafmagns.
  • 19. janúar kl. 19:22 – Djúpivogur til Álftafjarðar: Brunninn staur fannst. Ekki hefur verið hægt að hefja viðgerð. 13 viðskiptavinir án rafmagns.
  • 20. janúar kl. 00:15 – Tunga að Grænnípu: Ekki hefur verið hægt að leita bilana vegna slæmrar færðar og skyggnis. 12 viðskiptavinir án rafmagns.
  • 20. janúar kl. 00:24 – Berunes að Vattarnesi: ekki hægt að leita að bilun vegna aðstæðna. 12 viðskiptavinir án rafmagns.
  • 20. janúar kl. 01:55 – Berufjörður: Brunninn staur fannst, en viðgerð ekki hafin. 13 viðskiptavinir án rafmagns.
  • 20. janúar kl. 04:09 – Stöðvarfjörður: Bilun í línu frá aðveitustöð. Að minnsta kosti 5 staurar brotnir. Möguleiki er að tengja nýjan streng ef við náum mannskap og búnaði á staðinn. 190 viðskiptavinir án rafmagns.
Við viljum þakka viðskiptavinum okkar fyrir þolinmæðina og skilninginn á meðan við vinnum hörðum höndum að því að koma rafmagninu aftur á sem allra fyrst. Uppfærslur verða birtar reglulega.

Staðan 20.01.2025 kl. 07:00

Það hefur verið annasöm nótt hjá RARIK vegna truflana sem hafa verið í línukerfinu okkar á Austurlandi. Í gær fengum við bilun í Lóninu og allir ættu að vera með rafmagn þar þó að ekki hafi verið hægt að fara í viðgerðir enn. Fimm aðrar bilanir eru og eru samtals 257 viðskiptavinir án rafmagns, þar af 190 á Stöðvarfirði, en allur bærinn er án rafmagns. Að minnsta kosti fimm staurar eru brotnir í línu sem liggur frá aðveitustöð inn í bæinn. Aðstæður hafa verið mjög erfiðar og ekki verið hægt að koma mannskap í bilanaleit á öðrum stöðum. Haft verður samráð við Vegagerð og Almannavarnir um næstu skref.

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

ÞJÓNUSTUVER

Sími: 528 9000

Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Sími: 528 9000

 

 

Fylgdu okkur:

Facebook
Rarik