ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

Hvað gerðist í Vík og Mýrdal?

Í byrjun september olli umfangsmikil og alvarleg bilun í streng undir Jökulsá á Sólheimasandi víðtæku rafmagnsleysi í Vík í Mýrdal og nærliggjandi sveitum. 

Kortið sýnir svæðið sem varð rafmagnslaust þegar háspennustrengur bilaði undir Jökulsá á Sólheimasandi.
Kortið sýnir það svæði sem varð rafmagnslaust þegar háspennustrengur bilaði undir Jökulsá á Sólheimasandi.

Sunnudagskvöldið 1. september 2024, rétt eftir kl. 19, varð alvarleg bilun í rafstrengnum sem liggur undir Jökulsá á Sólheimasandi. Strengurinn flytur rafmagn til Víkur og Mýrdalshrepps og olli bilunin algjöru rafmagnsleysi á svæðinu í nokkrar klukkustundir. Bilunin átti eftir að reynast bæði krefjandi og tímafrekt verkefni fyrir starfsfólk RARIK.

Vegna umfangs bilunarinnar og rafmagnsleysisins sem hún olli var neyðarstjórn RARIK virkjuð til að hafa umsjón með aðgerðum. Segja má að stjórnstöð og framkvæmdaflokkar RARIK, auk verktaka og aðstoðarfólks, á svæðinu hafi sýnt ótrúlega þrautseigju og fagmennsku meðan unnið var að viðgerðinni.

Óheppileg tímasetning

Þegar bilunin varð, urðu u.þ.b. 530 heimili og fyrirtæki rafmagnslaus. Síðar sama kvöld var ljóst að bilanagreining og viðgerð gæti tekið allt að tveimur sólarhringum og því mikilvægt að koma varaafli til Víkur hið fyrsta. Tvær varaaflsstöðvar eru að jafnaði til staðar í Vík en svo óheppilega vildi til að önnur þeirra hafði verið aftengd skömmu áður en bilunin varð vegna vinnu við að setja upp viðbótarvél í aflstöðina. Af þessum sökum var aðeins unnt að gangsetja eina varaaflsvél strax. Þetta dugði skammt til að sjá öllum íbúum á svæðinu fyrir rafmagni og aðeins hluti Víkur fékk því rafmagn aftur um kvöldið.

Langvarandi rafmagnsleysi
Pétur Unnsteinsson, vélaumsjónarmaður hjá RARIK, fylgist með keyrslu færanlegrar varaaflsvélar skammt frá Reynisdröngum. 

Langvarandi rafmagnsleysi

Tvær varaaflsvélar til viðbótar voru fluttar á svæðið og náðu þær að anna því að mestu. Þó var hluti Mýrdals enn rafmagnslaus eða með ótryggt rafmagn fram yfir hádegi á mánudegi. Þetta kom sér sértaklega illa fyrir bændur og ferðaþjónustuaðila á svæðinu sem og fjarskiptafyrirtæki sem ekki höfðu komið sér upp nægu varaafli. Fjarskiptasendar lágu niðri á mikilvægum stöðum og til dæmis var símasambandslaust um stund við Reynisfjöru. Þegar öflug varaaflsvél, sem fengin var að láni frá Landsneti, komst í gagnið seinni hluta mánudags, gat RARIK loks tryggt örugga afhendingu rafmagns á öllu svæðinu meðan unnið var að viðgerðinni. Þar sem varaaflsvélar þola bara ákveðið mikið álag voru íbúar beðnir um að spara rafmagn eins og kostur var meðan varaaflskeyrsla var í gangi.

Illa viðrar til viðgerða
Unnið frameftir nóttu við Jökulsá á Sólheimasandi.

Illa viðrar til viðgerða

Á meðan unnið var að því að koma á varaafli og stilla af spennu á kerfinu voru framkvæmdaflokkar RARIK í óðaönn að finna og greina bilunina. Hún reyndist staðsett í strengnum þar sem hann hafði verið plægður ofan í árfarveg Jökulsár á Sólheimasandi. Mikil rigning og slæmt veður var á svæðinu og mikið rennsli í ánni. Ljóst var að erfitt myndi verða að reyna viðgerð á strengnum á þessum stað en með góðu samtali við Vegagerðina fékkst leyfi til að leggja nýjan streng undir brúna yfir ána.

 

Viðgerð á streng fer fram með þeim hætti að strengurinn er tekinn í sundur á hentugum stað sitthvoru megin við bilunina. Þar er svo nýr strengur tengdur á milli. Í þessu tilfelli þurftu þessar samsetningar að vera sitthvoru megin við brúna yfir Jökulsá á Sólheimasandi. Framkvæmdaflokkur undirbjó verkið af kostgæfni meðan beðið var eftir efni til viðgerðarinnar. Við tók svo vinna fram eftir nóttu við erfiðar aðstæður og veðurskilyrði.

Þrekvirki framkvæmdaflokkanna

Þrekvirki framkvæmdaflokkanna
Frá aðgerðum við Jökulsá á Sólheimasandi.

Sjálf viðgerðin tók í raun styttri tíma en gert hafði verið ráð fyrir og unnu framkvæmdaflokkar RARIK hreint þrekvirki þar. Viðgerðinni var lokið um hádegi þann 3. september. Strengurinn var þá prófaður til að athuga hvort viðgerðin hefði heppnast. Því miður leiddi prófunin í ljós frekari áverki á strengnum en ekki var vitað hvar eða hversu mikill hann væri. Því var ákveðið að keyra varaafl áfram meðan leitað var að frekari bilunum.

 

Seint sama kvöld fannst kápuskemmd á strengnum þar sem hann er plægður ofan í farveg árinnar Klifanda. Þessi skemmd var ótengd fyrri bilun og hefur líklega verið til staðar í einhvern tíma svo metið var óhætt að spennusetja strenginn á ný. Neyðarstjórn þurfti þó að taka ákvörðun um hvort farið yrði í viðgerð á kápunni strax eða síðar með tilheyrandi tilfæringum á varaafli og mögulegum óþægindum fyrir íbúa og fyrirtæki á svæðinu. Aftur var farið í gott samtal við Vegagerðina og leyfi fékkst fyrir því að festa nýjan streng undir brúna yfir Klifanda. Vinna við þá framkvæmd var enn yfirstandandi þegar þessi grein fór í loftið.

Aðgerðir við Klifanda
Mynd frá aðgerðum við Klifanda. Veður og vatnavextir hafa tafið viðgerðina á strengnum undir Klifanda og var þeim enn ólokið þegar þessi frétt fór í loftið.

Ákvarðanir til framtíðar

Rafmagni var aftur hleypt á og varaafl aftengt þann 4. september laust eftir hádegi. Varaaflsvélar RARIK voru skildar eftir í Vík svo unnt væri að fara í viðgerð á strengnum við Klifanda næstu vikur á eftir. Sú ákvörðun að festa nýjan streng undir brýrnar yfir Jökulsá á Sólheimasandi og Klifanda leysir vonandi þau framtíðarvandamál sem fylgja því að leggja strenginn í árfarveginn.

Verum viðbúin
Betur viðraði við Jökulsá á Sólheimasandi á öðrum degi aðgerða.

Verum viðbúin

Atvikið er áminning um mikilvægi varaafls og nauðsyn þess að vera viðbúin óvæntum aðstæðum og rafmagnsleysi sem varir í lengri tíma. Hóteleigendur og fjarskiptafyrirtæki á svæðinu munu eflaust grípa til ráðstafana til að undirbúa sig fyrir svipaðar aðstæður í framtíðinni og RARIK mun leggja áherslu á að bæta varaafl og tryggan raforkuflutning til svæðisins.

Starfsfólk framkvæmdaflokks
Starfsfólk framkvæmdaflokks á brúnni yfir Jökulsá á Sólheimasandi.

Takk fyrir aðstoðina

RARIK vill biðja íbúa, ferðafólk og fyrirtæki á svæðinu velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta olli. Auk þess viljum við þakka öllum sem komu að aðgerðum, Landsneti, Vegagerðinni, Veitum, verktökum og sveitarstjórn Mýrdalshrepps fyrir góða vinnu, aðstoð, samstarf og samtöl meðan á þessum aðgerðum stóð. Að lokum viljum við koma þakklæti til allra á svæðinu fyrir að halda rafmagnsnotkun í lágmarki meðan varaaflskeyrsla var í gangi. Þessi samheldni gerði það að verkum að ekki þurfti að skammta rafmagn meðan á viðgerðinni stóð.

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

ÞJÓNUSTUVER

Sími: 528 9000

Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Sími: 528 9000

 

 

Fylgdu okkur:

Facebook
Rarik