Mikið óveður gekk yfir landið 10.-11. desember síðastliðinn og voru afleiðingar þess miklar, sérstaklega á Norðurlandi. Veðrið olli umtalsverðu tjóni á línukerfum RARIK og Landsnets og hafði víðtækar rafmagnstruflanir í för með sér.
Kerfi RARIK er nokkuð laskað eftir þennan mikla hvell og þolir líklega minna en ella á næstunni. Þá hefur verið glímt við truflanir vegna seltu á öllu línukerfinu eftir veðrið og um helgina var ísingarveður sem olli nokkrum viðbótar truflunum.
Vegna þessara erfiðu veðuraðstæðna varð rafmagnsleysi víða á Norðurlandi, en einnig á Vestur-, Suður- og Austurlandi.
Veðrið sem gekk yfir landið var fádæma slæmt. Veðurspáin gerði ráð fyrir aftakaveðri um allt land með ísingu og í ljósi þess hóf RARIK formlegan undirbúning strax mánudaginn 9. des. Farið var yfir efni, verkfæri, búnað, bíla, rætt við verktaka, o.s.frv. Hugað var að staðsetningu færanlegra varaaflsvéla fyrirtækisins og þær staðsettar þar sem talið var að þeirra yrði mest þörf. Efni var flutt frá stærstu birgðastöðvum okkar á Hvolsvelli og Akureyri til annarra birgðastöðva. Varaaflsstöðvar voru mannaðar og mannskap dreift í ljósi nákvæmari veðurspár og að fengnum ráðleggingum veðurfræðinga. Á þessum tíma var búist við að veðrið myndi ganga yfir allt landið.
Að morgni 10. des. var Neyðarstjórn RARIK kölluð saman og viðbúnaður fyrirtækisins settur á hæsta stig. Þegar leið á atburðarásina og ljóst var að veðrið myndi að mestu einskorðast við Norðurland var byrjað að undirbúa flutning viðgerðarhópa af Austurlandi, Suðurlandi og Vesturlandi. Einnig var meira efni og fleiri varaaflsstöðvar flutt norður. Þar naut RARIK aðstoðar fjölmargra, m.a. annarra veitufyrirtækja sem lögðu tilvaraaflvélar og mannskap.
Gríðarlega vinnu hefur þurft að inna af hendi til að gera við kerfið og munu um 300 manns hafi unnið beint og óbeint að viðgerðum á línum og við keyrslu varaaflsstöðva. Fjölmargir starfsmenn RARIK stóðu vaktina í marga sólarhringa, en að auki naut fyrirtækið aðstoðar hátt í tvö hundruð manna frá öðrum veitufyrirtækjum, verktökum og einstaklingum en einnig Landhelgisgæslunni sem lánaði varðskipið Þór og eru þá ótaldar björgunarsveitirnar sem alltaf vinna ómetanlegt starf. Öllu þessu fólki þökkum við aðstoðina og viðskiptavinum okkar sem urðu fyrir rafmagnleysi í kjölfar óveðursins þökkum við þolinmæði og þrautseigju við þessar erfiðu aðstæður.
Að morgni 23. desember fór RARIK af hæsta viðbúnaðarstigi og er fyrirtækið nú komið í hefðbundinn rekstur ef svo má að orði komast. Neyðarstjórn RARIK og aðgerðastjórn á Norðurlandi hafa lokið störfum í bili. Framundan er mikil vinna við að klára endanlegar viðgerðir auk margvíslegrar úrvinnslu. Farið verður vel yfir hvað gekk vel og hvað hefði mátt betur fara.
Veðurspáin er batnandi og er það von okkar að viðskiptavinir RARIK geti farið inn í jól og áramót með nægt rafmagn og eigi gleðileg friðarjól.
Sími: 528 9000
Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15