Endurbótum á rafstöð RARIK í Grímsey er nú að ljúka en búnaður hennar var orðinn gamall og þarfnaðist endurnýjunar.
Settar voru upp þrjár nýjar Scania 160 kW díselvélar sem hver og ein nægir til að anna orkuþörf í eyjunni en ef álag eykst ræsir stjórnkerfið aðra vél í samkeyrslu. Vélarnar eru reknar sem sjálfstæðar einingar og er hægt að taka hverja einingu úr notkun ef þörf er á vegna viðhalds. Við val á vélum var tekið mið af eldsneytis- og varmaorkunýtni þeirra. Samhliða var allur raf- og stýribúnaður og stoðkerfi stöðvarinnar endurnýjaður í því skyni að gera rafstöð RARIK í Grímsey eins sjálfvirka og framast er kostur og að bæta vöktunar- og fjarstýrimöguleika og auka þar með áreiðanleika. Þá var sett upp nýtt og fullkomið loftræstikerfi sem tryggir loftskipti í rafstöðvarbyggingunni og dregur úr raka og seltu í innblásturlofti. Varmaorkan frá nýju díselvélunum mun að hluta til nýtast til að hita upp sundlaug Grímseyinga. EFLA verkfræðistofa var aðalhönnuður og ráðgjafi RARIK við verkið og sá um verkeftirlit á framkvæmdatímanum. Næsta sumar er áætlað að lagfæra húsnæði stöðvarinnar að utan og ganga frá lóð og frárennslislögnum með olíugildrum og að endurnýja birgðatank.
Sími: 528 9000
Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15