Nýlega lauk tengingu nýs 33 kV jarðstrengs frá Skeiðsfossvirkjun að Ketilási í Fljótum en hann kemur í stað einnar elstu loftlínu RARIK sem reist var 1946. Verktaki í þessu verkefni var Steypustöð Skagafjarðar. Strengurinn verður á næstu árum rekinn á 22 kV spennu, eins og tengingin til Siglufjarðar er í dag.
Á þessum slóðum er nú kominn samfeldur jarðstrengur frá Fremri Kotum í Norðurárdal (Öxnadalsheiði) eftir austanverðum Skagafirði að Deplum í Fljótum. Línur austan Héraðsvatna og norðan Kjálka eru allar komnar í jörð fyrir utan línuna í Hjaltadal sem kominn er á aldur og fer væntanlega í jarðstreng á næsta ári.
Þannig hverfa loftlínur RARIK ein af annarri og í staðinn koma jarðstrengir sem auka rekstraröryggi dreifikerfisins og draga úr sjónrænum áhrifum. Skemmst er að minnast þess að fyrir þremur árum var enn eldri lína, svokallaður „Öldungur“ á Svalbarðsströnd, sem reist var 1939 tekin úr notkun. Elsti hluti dreifikerfis RARIK í dag eru línur sem reistar voru 1948 en það eru hlutar í línunni á milli Selfoss og Hveragerðis og þar á eftir kemur hluti af Glaumbæjarlínu í Skagafirði frá 1949 sem skipt verður út á næsta ári.
Um síðustu áramót var hlutfall jarðstrengja í dreifikerfi RARIK 70% og samkvæmt áætlun verða öll býli í ábúð komin með þriggja fasa jarðstrengi 2030 og kerfið að fullu komið í jörð árið 2035.
Sími: 528 9000
Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15