ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

RARIK fjárfesti fyrir 7,5 milljarða króna 2020

Fjárfestingar RARIK voru meiri á síðasta ári en mörg undanfarin ár, en alls var fjárfest fyrir um 7,5 milljarða króna á árinu sem er tæpum 2 milljörðum króna meira en árið áður. Þar af var fjárfesting í endurnýjun og aukningu dreifikerfisins, með kaupum á dreifikerfi Rafveitu Reyðarfjarðar tæplega 3.7 milljarðar króna.

Eitt stærsta einstaka verkefnið á árinu var tenging jarðhitasvæðisins á Hoffelli í Nesjum við hitaveituna á Höfn í Hornafirði með lagningu 20 km stofnæðar og byggingu tengdra mannvirkja. Alls var fjárfest fyrir um 1,5 milljarð króna í þessu verkefni. Þetta er meðal þess sem fram kom á aðalfundi RARIK sem haldin var í dag. Vegna sóttvarna fór aðalfundurinn fram í beinni útsendingu í gegnum fjarfundarbúnað eins og á síðasta ári.

 

Endurnýjun kerfisins flýtt

Á fundinum kom fram að rekstur RARIK samstæðunnar gekk tiltölulega vel á árinu 2020 þrátt fyrir umtalsverð tjón á dreifikerfinu í lok árs 2019 og á fyrri hluta árs 2020. Þá höfðu miklar sóttvarnaraðgerðir vegna COVID-19 faraldursins umtalsverð áhrif á vinnutilhögun og vinnuumhverfi starfsmanna. Starfsemin á árinu einkenndist af miklum framkvæmdum við endurnýjun og þrífösun dreifikerfis raforku í dreifbýli. Fjárfestingar í dreifikerfinu voru meiri en gert var ráð fyrir í langtímaáætlunum meðal annars vegna þess að verkefnum var flýtt í kjölfar áðurnefndra tjóna. Fjárfestingar í stofnkerfi voru hins vegar í samræmi við áætlanir og sömuleiðis fjárfestingar í hitaveitum.

 

380 km af jarðstrengjum og 155 km af ljósleiðurum lagðir á árinu

Samtals voru lagðir um 380 km af nýjum jarðstrengjum á árinu og jafnframt nýttu fjarskiptafélög og sveitarfélög sér að leggja með þeim um 155 km af ljósleiðurum. Að stærstum hluta voru þetta verkefni sem voru á langtímaáætlun um endurnýjun dreifikerfisins, en í kjölfar tjóna í árslok 2019 ákvað stjórn RARIK að breyta áður samþykktri fjárfestingaráætlun og bæta við 230 milljónum króna til að flýta nýjum verkefnum í endurnýjun dreifikerfisins á Norðurlandi. Þá ákváðu stjórnvöld að veita 50 milljónum króna til að flýta nokkrum verkum gegn 100 milljóna mótframlagi RARIK. Í árslok 2020 voru því tæp 70% af dreifikerfi RARIK komin í jörð en um 30% eru enn í loftlínum.

 

Afkoma að mestu í samræmi við áætlanir

Afkoma RARIK fyrir fjármagnsliði var að mestu í samræmi við áætlanir þrátt fyrir samdrátt í efnahagslífinu, en vegna veikingar krónunnar var afkoman eftir fjármagnsliði

talsvert undir áætlunum. Hagnaður ársins samkvæmt rekstrarreikningi, nam um 1,8 milljörðum króna sem er 35% minna en árið 2019 þegar hagnaður ársins var 2,7 milljarðar króna. Heildareignir RARIK í lok árs 2020 námu tæpum 78,9 milljörðum króna og hækkuðu um rúma 10,5 milljarða á milli ára. Heildarskuldir námu 29,1 milljarði króna og hækkuðu um tæpa 4,8 milljarða frá fyrra ári. Eigið fé var rúmir 49,7 milljarðar króna og er eiginfjárhlutfall því 63,1% samanborið við 64,3% í árslok 2019.

 

310 milljónir króna arðgreiðsla

Á fundinum var samþykkt að greiða 310 milljónir króna í arð til eigenda vegna ársins 2020. Á fundinum var stjórn félagsins endurkjörinn en hana skipa: Arndís Soffía Sigurðardóttir, Álfheiður Eymarsdóttir, Birkir Jón Jónsson, Kristján L. Möller og Valgerður Gunnarsdóttir.

 

Birkir Jón Jónsson, stjórnarformaður RARIK, flutti setningarávarp sitt í gegnum fjarfundarbúnað
Birkir Jón Jónsson, stjórnarformaður RARIK, flutti setningarávarp sitt í gegnum fjarfundarbúnað.
Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, fór yfir helstu atriði í starfsemi RARIK á liðnu ári
Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, fór yfir helstu atriði í starfsemi RARIK á liðnu ári.
Vegna sóttvarna fór aðalfundurinn fram í beinni útsendingu í gegnum fjarfundarbúnað eins og á síðasta ári
Vegna sóttvarna fór aðalfundurinn fram í beinni útsendingu í gegnum fjarfundarbúnað eins og á síðasta ári.

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

ÞJÓNUSTUVER

Sími: 528 9000

Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Sími: 528 9000

 

 

Fylgdu okkur:

Facebook
Rarik