ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

Orkuskipti við Dettifoss

RARIK mun á nýju ári taka að sér að leggja háspennulögn úr Kelduhverfi að Dettifossi og Grímsstöðum á Fjöllum. Samningur þess efnis var undirritaður af Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Magnúsi Þór Ásmundssyni, forstjóra RARIK, þann 12. desember 2024.

Samkvæmt samningi ráðuneytisins og RARIK greiðir Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið svokallað kerfisframlag til framkvæmdarinnar en háspennulagnir fyrir svo strjálbýl svæði eru óhagkvæmar og ótækt þykir að kostnaður vegna þeirra falli með öllu á viðskiptavini RARIK. Áætlaður stofnkostnaður RARIK vegna háspennulagnarinnar er 541 milljón króna en framlag ráðuneytisins til verkefnisins er tæplega 267 milljónir.

Ávinningur samfélagsins og ferðaþjónustunnar af tengingunni er mikill. Með tengingunni verður hætt að keyra díselrafstöð á Grímsstöðum á Fjöllum og kolefnisfótspor þannig minnkað. Fyrir ferðaþjónustuna mun slík innviðauppbygging styrkja vinsæla ferðamannastaði og auðvelda notendum rafbíla að ferðast um landið á umhverfisvænni hátt.

 

Sterk aðkoma stjórnvalda mikilvæg

Með háspennulögninni verða Grímsstaðir á Fjöllum loksins tengdir við raforkukerfið og þurfa því ekki að reiða sig lengur á raforku sem framleidd er með jarðefnaeldsneyti. Framkvæmdin mun því hafa í för með sér bæði umhverfisávinning og hagræðingu. Verkefnið miðar líka að því að ýta úr vegi mikilvægri hindrun þegar kemur að orkuskiptum í samgöngum þar sem nú verður hægt að setja upp hleðslustöðvar við Dettifoss en þetta er það landssvæði þar sem lengst er á milli hleðslustöðva. Hér er því um mikilvægt skref að ræða fyrir samgöngur og ferðaþjónustu á svæðinu.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri RARIK, undirrita samninginn.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Magnús Þór Ásmundsson, forstjóri RARIK, undirrita samninginn.

Guðlaugur Þór talaði um „gat í raforkukerfinu“ og að ekki hafi verið aðgengi að raforku á svæðinu sem nær frá Kröflu inn á Jökuldal. „Þetta raforkuleysi hefur valdið því að 170 km eru milli hraðhleðslustöðva á þjóðvegi 1 og að á Grímsstöðum á Fjöllum hefur þurft að framleiða raforku með dísilolíu. Í dag greiðir ríkið að meðaltali um 15 milljónir kr. á ári vegna reksturs dísilstöðva á Grímsstöðum á Fjöllum auk niðurgreiðslu á olíuhitun, til að tryggja orkuöryggi á svæðinu. Með samningnum vinnum við bót á þessu, náum um 1.000-2.000 tonna samdrætti í kolefnislosun yfir 10 ára tímabil og komum á orkuskiptum á svæði sem er ein af helstu ferðamannaperlum landsins,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarsson.

RARIK rekur víðfeðmasta dreifikerfi landsins sem teygir sig víða og tryggir lífsgæði og verðmætasköpun í okkar dreifbýla landi. „Samningurinn sem við höfum nú undirritað er eitt skref í átt að rafvæðingu dreifðra svæða og fullum orkuskiptum á Íslandi. Ekki væri mögulegt að vinna verkefni sem þetta í strjálbýlinu nema með sterkri aðkomu stjórnvalda svo við fögnum þeirri þátttöku og tökum við boltanum. Háspennulögnin verður lögð 2025 og mun skapa tækifæri fyrir ferðaþjónustu og betri búsetuskilyrði en verður ekki síst frábært framlag til loftslags- og umhverfismála,“ sagði Magnús Þór Ásmundsson.

 

Traust undirstaða orkuskipta

Með þessari framkvæmd stækkar dreifikerfið og RARIK heldur áfram að vinna að því markmiði að tengja öll byggð ból við þrífasa rafmagn. RARIK ætlar sér einnig, nú sem endranær, að vera traust undirstaða orkuskipta á Íslandi og hluti af þeirri vegferð er að gera hleðsluinnviði mögulega á þessum mikilvæga stað.

Dettifoss. Mynd: Anders Peters
Dettifoss. Mynd: Anders Peters

Strengurinn sem lagður verður að Dettifossi og Grímsstöðum á Fjöllum tekur mið af framtíðaraflþörf á svæðinu og aukinni umferð rafbíla og rafrúta. Til að byrja með mun hann verða rekinn miðað við núverandi aflþörf en gert er ráð fyrir að hægt verði að hækka spennuna á honum svo hann geti borið allt að 3,8 MW álag í framtíðinni eftir því sem notendum fjölgar og álagið eykst. Lagnaleiðin sem farið verður í liggur að svolitlum hluta við þjóðveg 1 og opnar fyrir tækifæri til að stytta bilið milli hleðslustöðva á þessu svæði.

Þegar háspennulögnin hefur verið lögð mun RARIK taka við umsóknum um heimtaugar fyrir hleðsluinnviði, búsetu, atvinnustarfssemi og fleira. Þau sem hafa áhuga á að opna hleðslustöðvar á þessu svæði munu geta sótt um tengingu við dreifikerfið.

 

Meira svona

Til að verkefni af þessum toga fái brautargengi þarf að koma framlag frá stjórnvöldum. Tengingar á hálendinu eða í miklu strjálbýli eru óarðbærar og þurfa kerfisframlag til að verða að veruleika. Fleiri verkefni af þessum toga hafa verið til skoðunar. Ekki er langt um liðið síðan lagður var strengur á Kili sem tengdi t.d. Hveravelli og Kerlingafjöll. Vonir standa til að samskonar verkefni verði sett á laggirnar fyrir Landmannalaugar. RARIK hvetur stjórnvöld og nýja ríkisstjórn til að koma af krafti inn í fleiri verkefni af þessu tagi til að stuðla að orkuskiptum og auknum hagvexti og uppbyggingu á strjálbýlum stöðum og minnka kolefnislosun til framtíðar.

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

ÞJÓNUSTUVER

Sími: 528 9000

Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Sími: 528 9000

 

 

Fylgdu okkur:

Facebook
Rarik