Aðfaranótt mánudagsins 9. desember 2024 varð víðtækt rafmagnsleysi í Vík og Mýrdal eftir að bilun kom upp í Víkurstreng. Bilunin varð í strengnum þar sem hann liggur plægður undir Skógá. Miklir vatnavextir og hláka höfðu valdið gríðarlegum ágangi á strenginn, sem er talinn hafa skemmst þegar hreyfing komst á farveg árinnar. Þrátt fyrir erfiðar aðstæður tókst RARIK og samstarfsaðilum að koma rafmagni aftur á með aðstoð varaaflsvéla, og luku viðgerð fyrr en vonir stóðu til.
Bilunin varð um klukkan 02:30 aðfaranótt mánudagsins og olli því að 536 heimili og fyrirtæki urðu rafmagnslaus. Víkurstrengurinn, sem hefur verið í notkun frá 2013, liggur í árfarvegi Skógár og hefur sterka varnarkápu. Hún mátti sín þó lítils í vatnavöxtunum en við þá komst veruleg hreyfing á árfarveginn sem skemmdi strenginn. Þetta er önnur bilunin af þessu tagi á svæðinu á skömmum tíma; í september kom upp bilun í streng undir Jökulsá á Sólheimasandi, sem rekja mátti til svipaðra aðstæðna. Það sem báðar árnar eiga sameiginlegt er að þar hefur efnistaka farið fram og grunur leikur á að það hafi veikt jarðveginn sem plægt var ofan í.
RARIK sendi starfsmenn strax á vettvang, en óveður og lokanir á vegum gerðu aðstæður erfiðar. Samráð var haft við björgunarsveitir til að tryggja öryggi á lokunarsvæðinu, og hafist var handa við að gangsetja tiltækar varaaflsvélar í Vík um leið og starfsfólk RARIK komst á staðinn. Tæknileg vandamál varaaflsvélar og mikið álag í kerfinu, töfðu þó fyrir uppbyggingu rafmagns fyrri hluta mánudagsins.
Varaafl gegnir lykilhlutverki í að tryggja viðskiptavinum okkar rafmagn meðan viðgerðir eða bilanir standa yfir. RARIK flutti öfluga varaaflsvél til Víkur í haust sem á að geta annað aflþörf bæjarins ásamt minni varaaflsvél sem þegar er í bænum og varatenginu frá Kirkjubæjarklaustri. Uppsetningu stærri vélarinnar var því miður ekki alveg lokið þegar bilunun varð, t.d. þarf að endurnýja stjórnkerfi hennar, og þetta tafði fyrir því að rafmagn kæmist á aftur. Tvær varaaflsvélar Landsnets voru sendar til Víkur og einnig tvær vélar frá RARIK, til að næðist að koma rafmagni á allt svæðið og mæta auknu álagi.
Álagið á varaaflskerfið var mikið. Hús höfðu kólnað eftir langvarandi rafmagnsleysi sem olli enn meira álagi. Viðskiptavinir voru hvattir til að spara rafmagn, og íbúar sýndu mikla samvinnu í erfiðum kringumstæðum.
RARIK vill sérstaklega þakka íbúum Víkur og Mýrdals fyrir skilning og samvinnu í þessum aðstæðum. Íbúar voru upplýstir með reglulegum hætti um ástandið í gegnum smáskilaboð, samfélagsmiðla og fjölmiðla, og aðstoð sveitarfélagsins og annarra aðila á svæðinu hefur verið ómetanleg.
Starfsfólk framkvæmdaflokka RARIK vann hörðum höndum fyrri hluta mánudags að því að greina staðsetningu bilunarinnar, sem reyndist vera undir Skógá. Aðstæður á staðnum voru erfiðar, jafnvel hættulegar, vegna mikils vatnsmagns og straumþunga árinnar. Í samvinnu við verktaka var ákveðið að beita nýlegri tækni til að koma strengnum yfir ána – borun undir árfarveginn. Aðferðin sem slík er ekki ný en hún hefur þróast töluvert undanfarin ár og nú er mögulegt að bora í jafn lausan jarðveg og þarna er. Verktakafyrirtækið Þjótandi hóf borunina á þriðjudeginum 10. desember og lauk henni aðfaranótt þess 11. Strax morguninn eftir var starfsfólk framkvæmdaflokks RARIK mættir á staðinn til að hefja viðgerð á Víkurstreng. Strengir voru dregnir í rör sem lögð höfðu verið í göngin undir ána og var lokið við að tengja þá laust fyrir klukkan 19:00 um kvöldið.
Straumi var hleypt aftur á strenginn klukkan 19:15 sama kvöld og um klukkustund síðast var hafist handa við að keyra niður varaaflsvélarnar. Allir íbúar á svæðinu voru komnir með rafmagn frá Víkurstreng skömmu síðar.
Fyrir utan Víkurstreng var einnig unnið að viðgerð á dreifistreng við Ytri-Sólheima, sem hafði orðið fyrir skemmdum í vatnsflóðinu. Sá strengur tengdi sendi Neyðarlínunnar sem var keyrður á varaafli meðan á þessu stóð, en viðgerð þar lauk einnig með góðum árangri.
Bilun sem þessi undirstrikar mikilvægi þess að bregðast við veikleikum í kerfinu. RARIK mun í framhaldinu skoða stöðu strengja sem liggja í árfarvegum á svæðinu og íhugar nú aðrar aðferðir til að leggja strengi yfir ár, svo sem að nýta brýr eða bora undir árfarvegi eins og nú var gert. Þessi lærdómur mun nýtast í viðhalds- og fjárfestingaráætlunum komandi ára.
RARIK stefnir einnig á að ljúka uppsetningu á varanlegu varaafli í Vík, en það verkefni hefur dregist. Með fullbúnu varaafli og bættum innviðum verður hægt að mæta aflþörf á svæðinu í truflunum. Aflþörf á svæðinu hefur stóraukist á undanförnum árum vegna ferðamennsku og nýsköpunar. RARIK tekur áskorun sveitarstjórnar Mýrdalshrepps alvarlega og er jafnframt tilbúið til að taka þátt í samtali og samvinnu Mýrdalshrepps, Landsnets og stjórnvalda um frekari úrbætur.
RARIK vill minna stofnanir og fyrirtæki á mikilvægi þess að vera undirbúin fyrir mögulegt rafmagnsleysi hvar á landinu sem þau eru staðsett. Þrátt fyrir að RARIK vinni markvisst að því að tryggja áreiðanleika í raforkudreifingu, er ekki hægt að tryggja 100% afhendingaröryggi. Því er brýnt að fyrirtæki og stofnanir, sérstaklega þau sem veita mikilvæga og viðkvæma grunnþjónustu, geri viðeigandi ráðstafanir og útvegi nauðsynlegt varaafl til að tryggja órofið aðgengi að þjónustu. Þetta á t.d. við um hjúkrunarheimili, fjarskiptafyrirtæki og aðra lífsnauðsynlega starfsemi.
Þrátt fyrir slæmt veður, lokaða vegi og almennt óhagstæð skilyrði hefur miklu verið áorkað á stuttum tíma. Það að tryggja öryggi starfsfólks og afhenda rafmagn til íbúa var í forgangi allan tímann meðan á þessu verkefni stóð. Með þróuðum lausnum og samstilltu átaki tókst að ljúka viðgerðinni á góðum tíma. Við munum halda áfram að læra af þessum atburðum og bæta innviði okkar til að tryggja öruggari og áreiðanlegri afhendingu rafmagns til allra viðskiptavina okkar.
RARIK þakkar öllum þeim sem komu að verkefninu fyrir framúrskarandi vinnu og samstarf, og viðskiptavinum fyrir þolinmæði og skilning í þessum áskorunum. Við erum staðráðin í að tryggja enn betri lausnir fyrir framtíðina.
Sími: 528 9000
Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15