Hér eru birtar fréttir af stöðu dreifikerfisins eftir því sem tilefni verða til vegna óveðurs á Austurlandi 20. janúar 2025. Auk þess upplýsum við um stöðu mála á tilkynningasíðu og á kortasjá.
Allir viðskiptavinir með fasta búsetu voru komnir með rafmagn rétt fyrir klukkan 19:00.
Enn er unnið að bilanaleit og viðgerðum á Austurlandi. Rafmagnslausum viðskiptavinum á Austfjörðum fer fækkandi en þó eru enn 39 heimili án rafmagns. Mestu munar um að fyrir skömmu tókst að koma rafmagni aftur á í Stöðvarfirði en þar voru 190 heimili og fyrirtæki rafmagnslaus.
Fjöldi staura brotnaði og línur slitnuðu vegna ísingar í óveðrinu fyrir austan. Endanlegar viðgerðir á staurum og línum gætu tekið einhverja daga. Við eigum tiltækar varaaflsvélar sem við erum að undirbúa og gætum þurft að tengja einstaka viðskiptavini við á meðan verið er að klára viðgerðir. Vinna er komin vel í gang en þó er óvíst hversu langan tíma þetta mun taka. Aðstæður fyrir austan hafa verið afar krefjandi.
Bilanir vegna óveðurs á Austurlandi eru sex talsins. Helst er um að ræða álag á loftlínur vegna ísingar og seltu en ísingin hleðst utan á línurnar og slítur þær. Nokkuð er um að staurar hafi brotnað eða brunnið af þessum sökum. Þegar mikil selta er í úrkomunni og saltur snjór leggst á staurana verður mikil leiðni til jarðar sem getur orðið til þess að staurar brenna.
Viðgerðir geta í versta falli tekið einhverja daga en við erum að undirbúa varaafl sem við munum tengja við einstaka viðskiptavini á meðan viðgerðir eru kláraðar. Vegna aðstæðna eru tímasetningar óljósar en svo virðist sem bilanasvæðin séu að opnast og að framkvæmdaflokkar okkar geti farið að komast þangað til að greina bilanir og ráðast í viðgerðir.
Það hefur verið annasöm nótt hjá RARIK vegna truflana sem hafa verið í línukerfinu okkar á Austurlandi. Í gær fengum við bilun í Lóninu og allir ættu að vera með rafmagn þar þó að ekki hafi verið hægt að fara í viðgerðir enn. Fimm aðrar bilanir eru og eru samtals 257 viðskiptavinir án rafmagns, þar af 190 á Stöðvarfirði, en allur bærinn er án rafmagns. Að minnsta kosti fimm staurar eru brotnir í línu sem liggur frá aðveitustöð inn í bæinn. Aðstæður hafa verið mjög erfiðar og ekki verið hægt að koma mannskap í bilanaleit á öðrum stöðum. Haft verður samráð við Vegagerð og Almannavarnir um næstu skref.
Sími: 528 9000
Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15