Mörgum fallast hendur þegar kemur að raforkureikningum og mælistærðum eins og kílóvattstundum (kWst), kílóvöttum (kW) og krónum á kílóvattstund (kr./KWst). Það á kannski ekki við um áhugasama rafbílaeigendur og þá sem reiða sig töluvert meira á rafmagnsnotkun en meðalheimili. Flestir vita hvað einn lítri af bensíni eða díselolíu kostar og jafnvel hvað heimilisbíllinn eyðir á hundraði, hvað bensíntankur heimilisbílsins tekur marga lítra og hvar ódýrasta bensínið er að finna.
Til að setja hlutina í samhengi þá er stærð rafhlöðu í rafbíl yfirleitt gefin upp í kWst eða kílóvattstundum. Þegar við hlöðum bílinn skipta kW eða kílóvöttin máli. Því fleiri kW sem við tökum í einu þeim mun hraðar hlöðum við bílinn. Kannski leggjum við okkur síður fram um að skilja rafmagnsreikninginn vegna þess að almennt er hann ekki stærsti kostnaðurinn í heimilisbókhaldinu, en það fer þó eftir orkuþörf heimila.
Meðalrafmagnsnotkun heimilis sem býr við hitaveitu, sem greitt er sérstaklega fyrir, er um það bil 2.500 til 5.000 kWst á ári. Heimilisnotkun upp á 4.500 kWst, sem oft er notuð sem viðmið, kostar á bilinu 8 til 10 þúsund krónur á mánuði eða á bilinu 90 til 120 þúsund krónur á ári. Til samanburðar kostar bensín á bíl sem eyðir fimm lítrum á hundraðið um 20 þúsund krónur á mánuði ef bensínlítrinn kostar 330 krónur en það gerir um 240 þúsund á ári miðað við 15 þúsund kílómetra akstur. Rafmagnsbíll með sömu keyrslu þarf um 3.000 kWst af rafmagni ef gert er ráð fyrir að hann eyði 0,2 kWst á kílómetra. Mánaðarlegur kostnaður fer eftir því hvernig bíllinn er hlaðinn. Ef hann er alltaf hlaðinn heima á hægri hleðslu gæti viðbótar rafmagnskostnaður heimilisins verið um 4 til 5 þúsund krónur á mánuði eða um 50 til 60 þúsund á ári. Þetta samsvarar kostnaði upp á 15 til 20 kr. á kWst en það getur verið allt að þrefalt dýrara á hverja kWst að hlaða rafbíl í hraðhleðslustöð.
En hvað er á bakvið raforkuverðið?
Rafmagn er ekki ósvipað öðrum vörum eins og til dæmis bensíni þar sem margt þarf að ganga upp í samvinnu aðila til að koma vörunni frá framleiðslu og til viðskiptavina. Framleiðsla raforku og dreifing hennar til notenda kallar á samvinnu framleiðanda orkunnar, flutningsfyrirtækis og dreifiveitu. Með samþykkt Alþingis á núgildandi raforkulögum árið 2003 var komið á fót regluverki sem raforkufyrirtæki eins og RARIK starfa eftir í dag. Regluverkið gengur meðal annars út á að aðskilja sérleyfis- og samkeppnisstarfsemina þar sem dreifing og flutningur á raforku fellur undir sérleyfisstarfsemi, eins konar vegakerfi raforkunnar, en framleiðsla og sala á raforku fellur undir samkeppnisstarfsemi.
Á íslenskum raforkumarkaði starfa sex sérleyfisfyrirtæki; flutningsfyrirtækið Landsnet sem flytur mikið magn raforku í einu milli landshluta og fimm dreifiveitur sem koma raforkunni frá Landsneti og minni virkjunum til viðskiptavina, hver á sínu skilgreinda dreifiveitusvæði. Heimili og fyrirtæki í landinu, fyrir utan stóriðju, eru almennir notendur raforku og kaupa hana af raforkusala. Auk þess eru þau í viðskiptasambandi við dreifiveitu vegna flutnings og dreifingar þar sem greitt er fyrir flutning Landsnets í gegnum verðskrá dreifiveitunnar. Þess vegna fáum við tvo reikninga þegar við borgum fyrir raforkuna. Annars vegar borgum við fyrir flutning og dreifingu í samræmi við gildandi verðskrá og hins vegar fyrir raforkuna sjálfa þar sem öllum er heimilt að velja sér söluaðila, en í dag eru starfandi átta raforkusalar í landinu. Mynd 1 sýnir mánaðarverð heimila fyrir raforku með tilliti til meðalnotkunar, mikillar notkunar og notkunar þar sem heimilið er hitað upp með raforku.
Hver er munurinn á dreifbýli og þéttbýli þegar kemur að kostnaði við kerfið?
RARIK hefur starfað sem opinbert hlutafélag frá árinu 2006 og er meginstarfsemi þess rekstur dreifiveitu. Fyrirtækið rekur umfangsmesta rafdreifikerfi á Íslandi sem nær til 90% af sveitum landsins og til 44 þéttbýliskjarna. RARIK annast því orkudreifingu í flestum sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins, Reykjaness og Vestfjarða. Undantekning frá þessu eru Akranes, Akureyri, Árborg og Vestmannaeyjar.
Háspennt dreifikerfi RARIK er rúmlega 9.000 kílómetrar en háspenna er nauðsynleg þegar koma þarf raforku lengra en nokkur hundruð metra. Dreifikerfið er um tíu sinnum stærra en dreifikerfi Veitna sem er næst stærsta dreifikerfi landsins. Í dreifikerfi RARIK er orkumagnið hins vegar minna og viðskiptavinir talsvert færri enda nær það til dreifbýlli svæða landsins. Til fróðleiks er lengd línu- og strengkerfis RARIK í dreifbýli tuttugu sinnum meira en í þéttbýli og fjöldi spennistöðva er tífalt meiri í dreifbýlinu. Orkunotkunin er aftur á móti minni í dreifbýlinu en í þéttbýlinu að teknu tilliti til stærðar kerfisins og fjárfesting á hverja orkueiningu því margföld. Enn er um fjórðungur dreifikerfis í sveitum í loftlínum og rekstrarkostnaður því augljóslega umtalsvert meiri en í þéttbýli.
Núgildandi reglur um verðskrá
Í núgildandi regluverki er lögð áhersla á að gjaldtaka vegna flutnings og dreifingar endurspegli kostnað og að jafnræði viðskiptavina sé gætt, auk þess sem stuðla skal að skilvirkni, hagkvæmni og öryggi í uppbyggingu og rekstri raforkukerfa. Eitt af því sem breyttist með núgildandi raforkulögum var að dreifiveitum var ekki lengur heimilt að vera með mörg gjaldsvæði eins og áður þekktist, þar sem gjaldtaka byggði á raunkostnaði innan hvers svæðis. Ástæðan er áhersla regluverksins á jafnræði viðskiptavina. Þó raunkostnaður innan gjaldsvæða geti verið mismunandi er óheimilt að haga gjaldtöku þannig að hún mismuni viðskiptavinum.
Þetta þýðir að verðskrá RARIK byggir að miklu leyti á meðaltilkostnaði við viðskiptavini en leggur jafnframt áherslu á hóflegt samspil milli jafnræðis viðskiptavina og þess að gjaldtakan endurspegli á sanngjarnan hátt kostnað í dreifikerfinu. Þó þarf að gæta þess að kostnaður við að tengja mjög dýra viðskiptavini leggist ekki á þá sem fyrir eru. Þess vegna getur í sumum tilvikum verið nauðsynlegt fyrir fyrirtæki eins og RARIK að rukka sérstaklega fyrir raunkostnað sem mjög dýrir viðskiptavinir valda kerfinu. Dæmi um þetta eru væntanlegir viðskiptavinir sem vilja tengjast en tenging þeirra krefst töluverðs framkvæmdakostnaðar, annað hvort vegna fjarlægða eða annarra aðstæðna eins og eftirspurnar eftir miklu afli án þess að notkun, og þar af leiðandi tekjur af viðkomandi, séu stöðugar. Langflestir viðskiptavinir RARIK greiða fyrir tengingar í samræmi við meðalkostnað.
Þegar viðskiptavinir eru svo komnir með tengingu er gjaldtakan einungis byggð á meðalkostnaði, en þó þannig að því meiri sem raforkunotkunin er, því ódýrari er hver kW eða kWst. Að sama skapi er viðskiptavinum ekki mismunað í gjaldtöku eftir því í hvað rafmagnið fer eða hvar þeir eru staðsettir, innan þéttbýlis eða dreifbýlis, heldur byggir gjaldtaka á því hvernig rafmagnið er notað. Það er til dæmis hagkvæmast að notkun sé stöðug og fyrirsjáanleg og því fá viðskiptavinir að njóta þess í gjaldtökunni.
Mikilvægi verðjöfnunar milli dreifbýlis og þéttbýlis
Við gildistöku núgildandi raforkulaga lögðu stjórnvöld strax upp með að jafna dreifikostnað milli þéttbýlis og dreifbýlis. Leiðin sem var valin gengur út á að dreifiveitur sem þjóna strjálbýlum svæðum, eða umfram 5% af heildar orkumagni, hafa leyfi til þess að vera með tvö gjaldsvæði, og þar með tvær verðskrár, þ.e. dreifbýlisverðskrá og þéttbýlisverðskrá. Dreifiveitusvæði RARIK og Orkubús Vestfjarða falla þarna undir og nýta þar af leiðandi þessa heimild. Aðrar dreifiveitur hafa aðeins heimild til að vera með eina verðskrá sem skiptist í ýmsa verðskrárliði, háð því hvað viðskiptavinir þurfa mikla orku og hvernig þeir nýta hana, eins og áður hefur komið fram. Fyrir hvert verðskrársvæði fá dreifiveitur tekjuheimildir eða tekjumörk sem byggja á meðaltilkostnaði á svæðinu og Orkustofnun hefur eftirlit með. Ef dreifiveita er með tvær verðskrár og tvö verðskrársvæði þarf að halda tilkostnaði þeirra aðskildum.
Þetta kerfi, að heimila dreifiveitu að vera með tvær verðskrár, þýðir að hægt er koma með gagnsæjum hætti auga á umframkostnað dreifbýlisins og jafna hann. Þannig taka allir landsmenn þátt í jöfnuninni, en ekki bara íbúar á dreifiveitusvæði RARIK og Orkubús Vestfjarða. Ef RARIK hefði eina verðskrá þyrftu íbúar í Borgarnesi, Stykkishólmi, Ólafsvík, Hvammstanga, Blönduósi, Sauðárkróki, Siglufirði og Dalvík að standa undir kostnaði við raforkudreifingu í dreifbýlinu, en ekki íbúar höfuðborgarsvæðisins og Reykjaness, svo dæmi sé tekið. Til álita getur svo komið hvar nákvæmlega mörkin milli dreifbýlis og þéttbýlis eiga að liggja en RARIK leggur áherslu á að gæta þar jafnræðis viðskiptavina sinna og fara í einu og öllu eftir regluverkinu. Mörkin eru skilgreind í reglugerð og byggja meðal annars á raffræðilegum þáttum, en einnig á skilgreiningu Hagstofu Íslands á þéttbýli.
Óánægja með dreifbýlisverðskrá
Stjórnvöld hafa frá upphafi raforkuvæðingar á Íslandi verið meðvituð um þann kostnað sem hlýst af uppbyggingu raforkukerfis í okkar strjálbýla landi. Þau hafa að sama skapi lagt áherslu á að styrkja strjálbýl svæði til tengingar, meðal annars í rafvæðingu landsins með því að styrkja notendur með framlögum úr Raforkusjóði, sem síðar varð að Orkusjóði. Á undanförnum árum hefur stundum borið á óánægju viðskiptavina RARIK með dreifbýlisverðskrána vegna þess verðmunar sem er á þéttbýli og dreifbýli. RARIK hefur í gegnum tíðina lagt mikla áherslu á að stjórnvöld jafni þennan mun eins og kostur er. Ekki hefur borið á öðru en velvilja stjórnvalda til þess enda er regluverkið þannig uppbyggt. Með lögum um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku frá árinu 2004 og lögum um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar frá 2002 hafa stjórnvöld einnig, að mati RARIK, sett skýr markmið um að raforkunotendur í viðkvæmri stöðu vegna staðsetningar njóti ekki verri kjara með tilliti til flutnings og dreifingar á raforku en aðrir. Að mati RARIK er þess vegna af og frá að tala um þéttbýlisstefnu í raforkumálum.
Frá árinu 2014 hefur átak verið gert í að jafna kostnað raforkunotenda vegna flutnings og dreifingar og er jöfnunin nú um 70% þar sem miðað er við hæsta meðalkostnað við dreifingu á forgangsorku í þéttbýli. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2023 er gert ráð fyrir að veita 2.290 milljónum króna í jöfnun á næsta ári og verður þá jöfnunin komin í 85%. Hluti þessarar fjárhæðar er innheimt með jöfnunargjaldi sem allir almennir notendur raforku greiða. Stjórnvöld gera einnig ráð fyrir að veita um 2.300 milljónum til niðurgreiðslu vegna húshitunarkostnaðar á næsta ári. Mikilvægt er að halda áfram að auka þessa verðjöfnun milli dreifbýlis og þéttbýlis því dreifikerfi sveitanna er ekki einkamál íbúa í dreifbýli. Dreifikerfi um hinar dreifðu byggðir landsins eru að verða hluti af grunninnviðum í samgöngumálum allrar þjóðarinnar og mikilvægt að allir taki þátt í uppbyggingu þeirra.
Þróun á gjaldtöku frá 2005 og samanburður við aðrar dreifiveitur
Gjaldtaka RARIK er byggð þannig upp að hún endurspegli kostnað sem best en gæti þó jafnræðis, eins og áður hefur komið fram. Venjuleg heimilisnotkun inniheldur fastagjald og orkugjald en stærri viðskiptavinir RARIK sem nota meira afl í kW falla undir svokallaða aflverðskrá, sem er hagstæðari ef notkun er mikil. Þannig viðskiptavinir sem eru yfirleitt lítil til miðlungsstór iðnaðarfyrirtæki og eru oft nefndir aflnotendur þar sem þeir borga ekki bara í samræmi við fastagjald og orkugjald heldur einnig í samkvæmt svokölluðum afltoppi mældum í kW sem endurspeglar hvað notandinn notar mikið rafmagn í einu, en ekki bara hvort hann er að nota rafmagn.
Viðskiptavinir sem nota mjög mikla orku (meira en 2 MW afltopp) með háan notkunartíma, eða yfir 80% nýtingarhlutfall, oft stærri iðnaður en þó ekki svokölluð stóriðja, borga nákvæmlega sama verð í dreifbýli og þéttbýli eins og sjá má á mynd 2.
Myndir 3 og 4 hér fyrir neðan draga fram þróun á gjaldtöku RARIK frá árinu 2005 niður á orkueiningu að meðaltali (kr./kWst), samanborið við hæsta verð vegna flutnings og dreifingar í þéttbýli á landinu hverju sinni fyrir annars vegar heimilisnotkun og hins vegar miðlungsstóran iðnað (aflnotanda).
Mynd 5 sýnir samanburð á mánaðarlegum kostnaði aflnotenda RARIK í þéttbýli og dreifbýli við dýrustu og ódýrustu verðskrá í þéttbýli hér á landi. Á henni sést að dreifbýlisverðskrá hjá aflnotanda er ódýrari en dýrasta verðskrá í þéttbýli ef afltoppur ársins er kominn yfir 400 til 450 kW.
Stundum kemur upp spurningin hvort það sé sanngjarnt að viðskiptavinir RARIK í þéttbýli þar sem fleiri en 200 íbúar eiga lögheimili borgi samkvæmt þéttbýlisverðskrá, þegar lítil eða miðlungsstór iðnaður sem staðsettur er í dreifbýli RARIK borgar samkvæmt dreifbýlisverðskrá. Heildar raforkunotkun þessa eina notanda getur nefnilega verið sú sama og alls þéttbýlisins. Eins og myndirnar að ofan (mynd 3 og 4) sýna er kostnaður á kWst töluvert hærri fyrir heimili en hann er fyrir lítinn eða miðlungsstóran iðnað. Fyrir meðalnotandann er þetta um tvöfalt hærri kostnaður. Þetta þýðir að þær tekjur sem RARIK fær vegna 200 íbúa í þéttbýli eru þónokkuð hærri en tekjur vegna eins notanda þó hann noti jafn mikla raforku og allt þorpið og þó að hann greiði samkvæmt dreifbýlisverðskrá.
Hluti af þeim kostnaði sem heimili greiða fyrir er tilkomin vegna þess að hverjum og einum notanda fylgir ákveðin kostnaður, mælir, heimtaug, reikningagerð osfrv. Hins vegar er kostnaðurinn við að koma ákveðnu afli og orku frá Landsneti og/eða virkjun og til afhendingarstaðar RARIK sá sami hvort sem um er að ræða þéttbýli með fleiri en 200 íbúum eða einn viðskiptavin. Þegar notkunin er orðin svo mikil er mjög lítill munur á þéttbýlis og dreifbýlisverðskrá RARIK ásamt því að dreifbýlisverðskrá RARIK er orðin hagstæðari en þéttbýlisverðskrá sumra annara veitufyrirtækja.
Sími: 528 9000
Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15