ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

Snjallmælar

RARIK hefur hafið útskiptingu á gömlum orkumælum fyrir nýja snjallmæla. Með þessum nýju snjallmælum getum við nýtt okkur nútímalegar aðferðir við álestur og veitt bæði nákvæmari og tímanlegri upplýsingar um orkunotkun. 

Á þessari síðu finnur þú allar helstu upplýsingar um snjallmæla og snjallmælaskiptin, hvernig þau fara fram, og hvers vegna þau eru mikilvæg fyrir þig og samfélagið í heild. Þú getur skoðað kort sem sýnir á hvaða svæðum er verið að skipta um mæla og fylgst með framgangi verkefnisins á þínu svæði.
Við hvetjum viðskiptavini til að skrá farsímanúmer sitt og netfang hjá okkur á Mínum síðum til að tryggja að þeir fái allar mikilvægar upplýsingar á réttum tíma sem og tilkynningar um bilanir og viðhald á sínu svæði. Hafir þú frekari spurningar varðandi snjallmæla, þá svörum við þeim með ánægju ef þú sendir okkur línu á rarik@rarik.is.

 

 

Spurt og svarað

Hvenær verður skipt um mæli hjá mér?

Á kortinu hér fyrir ofan getur þú smellt á þína staðsetningu og séð hvenær mælaskipti eru áætluð hjá þér. RARIK mun skipta út öllum orkumælum og stefnir á að ljúka því verki sem fyrst en vöruskortur og vöntun á þjálfuðu starfsfólki hefur að einhverju leyti tafið þessa vinnu. Kortið er uppfært jafnóðum og mælaskipti komast á áætlun og því um að gera að fylgjast með.  

Hvernig fara mælaskipti fram?

Þegar mælaskiptasvæði hefur verið skilgreint sendir RARIK út SMS með hlekk á kynningarbréf á þá viðskiptavini sem eru með skráð farsímanúmer. Í kjölfarið hefur starfsfólk RARIK eða verktakar á vegum RARIK samband við viðskiptavini varðandi tímasetningu mælaskiptanna. Þau sem ekki hafa skráð símanúmer fá heimsókn en við bendum á að hægt er að bæta við eða uppfæra tengiliðaupplýsingar á Mínum síðum á vef RARIK.  
Húsráðandi eða einhver á hans vegum þarf að vera heima þegar mælaskiptin fara fram. Gera má ráð fyrir að rafmagns- og/eða heitavatnslaust verði meðan á mælaskiptunum stendur en það tekur u.þ.b. 30 mínútur að skipta gamla mælinum út fyrir snjallmæli.  

Hvað er snjallmælir?

Snjallmælar, líkt og hefðbundnir orkusölumælar, mæla notkun viðskiptavina á rafmagni og/eða heitu vatni en á mun nákvæmari hátt en áður. Að auki safna þeir gögnum um ástand dreifikerfis og afhendingargæði. Snjallmælarnir senda gögnin sjálfkrafa inn í kerfi RARIK svo álestur verður óþarfur og viðskiptavinir greiða ávallt fyrir raunnotkun í lok hvers mánaðar.  
Snjallmælar eru hluti af snjöllum veitukerfum (e. smart grid). 

Af hverju þarf að skipta út orkumælum?

Margar góðar ástæður liggja að baki því að ráðast í mælaskipti.  

  • Snjallmælar eru mikilvægur hluti af þriðju orkuskiptunum því þeir mæla orku og afl bæði til og frá veitu og munu þannig gera almennum viðskiptavinum kleift að selja orku aftur inn á dreifikerfið t.d. frá rafbílum og sólarsellum.
  • Snjallmælar safna notkunarferlum (15-60 mínútna gildi) sem gefur viðskiptavinum möguleika á að nýta tímaháða taxta bæði hjá orkusala og veitufyrirtæki. Þessi eiginleiki eykur nýtingu m.a. á dreifikerfi RARIK og seinkar fjárfestingum, sem til lengri tíma lækkar dreifikostnað. 
  • Búist er við að löggjafarvaldið setji fljótlega lög sem skilda dreifiveitur til að nota snjallmæla. 
  • Mælaframleiðendur munu brátt einungis bjóða upp á snjallmæla og þeir munu verða hinir hefðbundnu sölumælar.
  • Snjallmælar minnka líkurnar á „notkunarslysum“, og gefa viðskiptavinum tækifæri til að grípa inn í tímanlega auk þess að auka meðvitund um orkusóun. 
  • Heimsóknir starfsfólks RARIK verða óþarfar og álag á þjónustuver RARIK vegna álestra og leiðréttinga mun minnka.
  • Álestrar vegna söluaðilaskipta og flutnings verða auðveldari og öruggari. 

Hvaða áhrif hafa þessi mælaskipti fyrir mig?

Til að byrja með munu orkureikningar breytast þar sem þeir endurspegla ávallt raunnotkun. Yfir kaldari mánuðina verða þeir hærri og yfir heitari mánuði lægri. Viðskiptavinir munu geta fylgst með notkun sinni milli mánaða og sjá þannig hvort um óeðlilega aukningu á notkun er að ræða og geta brugðist við því strax.  

Til lengri tíma litið geta viðskiptavinir sparað með því að velja sölutaxta sem endurspegla framboð og eftirspurn, þ.e.a.s. lækkað verð raforku á nóttunni en hærra á daginn, og hagað notkun sinni í samræmi við það.  

Að lokum munu heimsóknir og skilaboð um álestra frá dreifiveitum og söluaðilum heyra sögunni til þar sem álestrar eru sendir sjálfkrafa.  

Hvaða áhrif hafa þessi mælaskipti fyrir RARIK?

Einfaldast væri að segja að snjallmælar munu gera þjónustu RARIK skilvirkari. Snjallmælarnir auðvelda innheimtuferli og minnka kostnað RARIK við að rjúfa straum vegna vangoldinna reikninga til dreifiveitu eða orkusala. Þeir stytta einnig tímann sem fer í að koma á rafmagni eftir straumrof vegna vangreiddra reikninga 
Snjallmælar safna notkunarferlum  (15-60 mínútna gildi) sem eykur nýtingu m.a. á dreifikerfi RARIK og seinkar fjárfestingum, sem til lengri tíma lækkar dreifikostnað. Samskipti við snjallmæla RARIK eru tvíátta þannig hægt er að uppfæra hugbúnað og breyta getu þeirra að vissu marki. Hægt er að hafa mælavar stillanlegt og því hægt að auka fjölbreytni í fastagjaldi. 

Hvaða áhrif hafa þessi mælaskipti fyrir umhverfið?

Snjallmælar hjálpa okkur að minnka kolefnisspor okkar og viðskiptavina.  
Ætla má að álesarar á vegum RARIK hafi ekið um 60-100.000 kílómetra á ári. Innleiðing snjallmæla mun því draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfssemi RARIK um a.m.k. 8,6 tonn af koldíoxíði á ári. 
Með því að fylgjast með raunnotkun eða mánaðarlegum reikningum geta viðskiptavinir komið í veg fyrir notkunarslys og gripið inn í til að spara orku. Þetta eykur meðvitund gagnvart orkusóun og hjálpar því einnig til við að vernda umhverfið.  
Snjallmælar gera viðskiptavinum kleift að selja orku aftur inn á kerfið þegar orku skortir sem dregur úr virkjanaþörf og er því til hagsbóta fyrir umhverfið. 

Hvenær byrjar snjallmælirinn að telja?

Uppsettir snjallmælar verða virkir á nokkrum klukkustundum og viðskiptavinir fá raunreikning næstu mánaðarmót eftir mælaskiptin. 

Hvernig verður notkun á rafmagni til húshitunar mæld?

Hingað til hefur RARIK mælt raforkuna með tveimur orkusölumælum, einn fyrir almenna notkun og annar fyrir notkun til húshitunar. RARIK hyggst skipta þessum tveimur mælum út fyrir einn snjallmæli. Eftir snjallmælaskiptin verður 85% mældrar notkunar skilgreind sem notkun til húshitunar og 15% sem almenn notkun. Þessi skipting gildir eingöngu um íbúðarhúsnæði* og er í samræmi við "Reglugerð um framkvæmd laga um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar". Kostnaður við dreifingu á raforku mun haldast óbreyttur miðað við notkun síðasta árs. 

*Kirkjur, bænahús trúfélaga, söfn, félagsheimili og húsnæði björgunarsveita sem hituð eru með raforku njóta niðurgreiðslu á sama hátt og fyrir hitun íbúðarhúsnæðis.

Get ég afþakkað það að fá snjallmæli?

Líkt og þegar hefðbundnir orkumælar voru fyrst settir upp til að mæla orkunotkun verður ekki hægt að afþakka snjallmæla. Í undantekningartilvikum er þó hægt að fresta mælaskiptum um einhvern tíma. Eldri mælar munu þó allir þarfnast uppfærslu á endanum þar sem löggildingartími þeirra er takmarkaður og þegar honum líkur verður að skipta þeim út fyrir snjallmæli þar sem aðrir mælar verða ekki lengur fyrir hendi. 

Hvaða gögnum safnar snjallmælirinn?

Snjallmælar safna notkunarferlum á raforku (60 mínútna gildi) og/eða heitu vatni (einu sinni á dag) og skila þeim upplýsingum áfram inn í kerfi RARIK. Ekki er hægt að greina í hvað rafmagnið eða heita vatnið var notað hverju sinni. Auk þess greina snjallmælar álag og gera þjónustuaðilum kleift að finna óeðlileg töp í dreifikerfinu og forgangsraða viðhaldi. Þeir vakta afhendingargæði vörunnar sem verið er að dreifa (rafmagn og/eða heitt vatn), t.d. spennugildi og hitastig í fram- og bakrás sem eru utan marka. Þannig geta snjallmælar t.d. auðveldað bilanaleit í dreifikerfinu með sjálfvirkum tilkynningum um straumrof, stytt tíma straumleysis og jafnvel komið í veg fyrir tjón hjá viðskiptavinum. 

Hver hefur aðgang að gögnunum sem snjallmælirinn safnar?

Snjallmælar og kerfi tengd þeim eru í grunninn orkusölumælar sem uppfylla öll skilyrða laga og reglugerða um sölumæla, persónuvernd og neytendavernd. Samskipti milli snjallmæla RARIK og umsjónarkerfis eða söfnunarkerfis fer fram með tvennum hætti, gegnum farsímakerfi símafyrirtækja og svo með útvarpsbylgjum en þessi samskipti eru dulkóðuð alla leið frá mæli og í umsjónarkerfið. Dulkóðun þýðir að erfitt er fyrir utanaðkomandi aðila að komast inn í þau samskipti. Þannig gerum við eins vel og hægt er að gera til að tryggja samskipti, persónuvernd og öryggi viðskiptavina.  
Umsjónar- og stjórnkerfi snjallmæla eru hýst hjá RARIK og lúta ströngum öryggiskröfum. Mæligögn verða, hér eftir sem hingað til, vistuð í miðlægum gagnagrunni RARIK og einungis það starfsfólk sem þarf að vinna með upplýsingarnar hefur aðgang að þeim. Starfsfólk og verktakar sem vinna fyrir RARIK eru, eins og áður, bundin trúnaði um allar upplýsingar viðskiptavina. 

Er rafsegulgeislun frá mælunum?

Rafsegulbylgjur sem koma frá snjallmælum eru mun minni en t.d. rafsegulbylgur frá farsímum og mælarnir eru flestum stundum í meiri fjarlægð frá fólki en farsímar. Snjallmælar uppfylla öll skilyrði laga og reglugerða þegar kemur að rafsegulbylgjum.

Er hægt að „hakka“ snjallmælana?

Snjallmælar og þau gögn sem þeir taka við og senda frá sér eru dulkóðuð til að koma í veg fyrir að hægt sé að eiga við þau. Mælarnir uppfylla öll öryggisskilyrði sem þýðir að erfitt er fyrir „hakkara“ að brjótast inn í þá. Hafa skal þó í huga að ekkert kerfi er 100% öruggt og tölvuþrjótar finna sér sífellt nýjar leiðir til að komast yfir upplýsingar og brjótast inn í kerfi. Oftar en ekki nýta þeir sér traust fólks til að blekkja það og komast yfir innskráningarupplýsingar.

Við hvetjum viðskiptavini okkar til að gæta ítrustu varkárni hvar sem er á Netinu og gefa aldrei upp persónuupplýsingar, leyniorð eða annað sem gæti auðveldað óprúttnum aðilum að brjótast inn í kerfi sem geyma viðkvæmar upplýsingar. 

Hvað verður gert við gömlu orkumælana?

Gömlu orkusölumælunum er komið til viðurkenndra endurvinnsluaðila á hverju svæði fyrir sig sem sjá til þess að mælarnir og allir hlutar þeirra komist í rétt endurvinnsluferli.  

Get ég fylgst með minni notkun í rauntíma?

Hægt er að setja upp búnað til að fylgjast með notkunargögnum frá snjallmælunum í rauntíma en viðskiptavinir þurfa sjálfir að kaupa búnaðinn og setja hann upp hjá sér.  

Get ég fengið snjallmælinn fyrr?

Snjallmælavæðing er tekin skipulega, svæði eftir svæði, og ræðst val á svæði eftir því hvar við fáum vinnuafl og hvar mannálestrar eru bæði kostnaðarsamir og erfiðir. Almennt séð er ekki hægt að flýta snjallmælaskiptum hjá einstökum viðskiptavinum þar sem það yrði of kostnaðarsamt auk þess sem óvíst er að mælirinn myndi nýtast sem snjallmælir þar sem hann yrði utan þjónustusvæðis safnstöðva (þangað sem álestrarupplýsingum mælisins er safnað). Viðskiptavinir sem eru með ólöggilda mæla geta farið fram á mælaskipti en þar gildir það sama, óvíst er að mælirinn yrði "snjall" þar til búið er að tengja svæðið álestrarnetinu og safnstöð. Áfram þyrfti því mannálestur fyrir mælinn. 

Get ég keypt ódýrara rafmagn á nóttunni með tilkomu snjallmælisins?

Til að geta fengið rafmagn á næturtaxta, líkt og sum sölufyrirtæki bjóða nú upp á, þurfa sölumælar að senda frá sér svokölluð tímaraðagögn. Þetta geta snjallmælar gert en sem stendur er þessum tímaröðum aðeins miðlað til Netorku (reiknistofu dreifiveitna) hjá stórnotendum sem eru að nota yfir 100 kW á klst. Ástæðan fyrir því að miðlun tímaraðagagna er ekki enn orðin almenn er vegna tæknilegra annmarka en einnig eru reglur varðandi leiðréttingar og fleira óljósar. Sérfræðingar okkar leggja allt kapp á að leysa þessi vandamál og munum við kynna lausnina fyrir viðskiptavinum okkar um leið og þær verða innleiddar.

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

ÞJÓNUSTUVER

Sími: 528 9000

Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Sími: 528 9000

 

 

Fylgdu okkur:

Facebook
Rarik