Því miður er rafmagnsleysi óhjákvæmilegur hluti af rekstri raforkukerfa. Sem dæmi má nefna að loftlínur eru útsettar fyrir óveðrum og strengir geta orðið fyrir hnjaski þegar grafið er í þá. Að jafnaði verða á hverju ári um 600 fyrirvaralaus tilvik þar sem rafmagnsleysi verður í dreifikerfi RARIK.
Þess vegna er mikilvægt að notendur geri ráð fyrir því að rafmagnsleysi geti orðið og séu undir það búnir. Sama má segja um skammvinnar spennubreytingar í raforkukerfinu. Slíkar spennubreytingar standa aðeins yfir í sekúndubrot og eiga raftæki að þola þannig sveiflur. Því miður er hins vegar allt of algengt að þau geri það ekki og af því hljótast tjón.
Til að forðast tjón vegna rafmagnsleysis eða vegna skammvinnra spennubreytinga geta húseigendur gripið til einfaldra aðgerða sem geta skipt sköpum.
Þegar sumarhús er yfirgefið ætti að taka rafmagnstæki úr sambandi, einkum rafmagnstæki með viðkvæman rafeindabúnað. Undirbúið sumarhúsið vel fyrir veturinn en vatnstjón í sumarhúsum eru algengust á veturna þegar frýs í leiðslum, þær springa og þegar aftur þiðnar lekur vatnið um sumarhúsið. Þetta eru oft alvarleg tjón þar sem lekinn uppgötvast ekki fyrr en í næstu heimsókn í bústaðinn og þá getur vatnið hafa skemmt mikið út frá sér.
RARIK sendir út tilkynningar um rafmagnsleysi með SMS skilaboðum og í tölvupósti til viðskiptavina sem hafa símanúmer og netfang skráð hjá okkur. Ef mögulegt er þá eru slíkar tilkynningar sendar viðskiptavinum þegar fyrirvaralaust rafmagnsleysi verður eða þegar búist er við rafmagnsleysi vegna vinnu við raforkukerfið. Til að fá slíkar tilkynningar þarf að skrá upplýsingar um símanúmer og netfang á Mínar síður, eða hafa samband við RARIK í síma 528 9000 og gefa upp símanúmer/netfang.
Mikilvægt er að bregðast við slíkum tilkynningum og grípa til viðeigandi ráðstafana, svo sem að taka viðvæm tæki úr sambandi og huga að því hvort rafmagn hafi komist aftur á hús að truflun lokinni.
Til að verja raftæki fyrir truflunum frá rafmagni er einfalt og öruggt ráð að taka þau úr sambandi þegar þau eru ekki í notkun. Ef tilkynnt hefur verið um rafmagnsleysi eða ef veðurútlit er slæmt eða von er á þrumuveðri er skynsamlegt að taka viðkvæm tæki úr sambandi, svo sem sjónvörp, tölvur, heita potta og rafeindastýrðan búnað.
Rafmagnsvöktunarbúnaður er einfalt tæki sem setja má í samband við venjulegan heimilistengil og sendir húseiganda GSM boð ef rafmagn fer af eða kemur á. Þessi búnaður er gagnlegur ef mannlaust hús verður rafmagnslaust og gerir forráðamönnum þess mögulegt að bregðast við í tæka tíð. Venjuleg öryggiskerfi gefa einnig slíkar upplýsingar. Hægt er að fá rafmagnsvöktunarbúnað hjá söluaðilum á Íslandi eða erlendis frá (e. Power Failure Detector).
Við truflanir í raforkukerfinu getur spenna hækkað talsvert í skamman tíma, eða í fáein sekúndubrot. Rétt hönnuð raftæki eiga að þola slík frávik en reynslan sýnir að alltof algengt er að þau geri það ekki. Sérstaklega er rafeindabúnaður viðkvæmur fyrir slíkum atvikum. Til að verja öll raftæki í neysluveitu má setja upp yfirspennuvörn í aðaltöflu neysluveitu, en það er einfaldur og tiltölulega ódýr búnaður. Athugið að löggiltur rafverktaki þarf að annast uppsetningu slíks búnaðar eins og á við um allar breytingar á aðaltöflu.
Almennt þola raftæki betur að spenna lækki í skamman tíma, (í fáein sekúndubrot), heldur en spennuhækkun. Reynslan sýnir að sum tæki þola slíka spennulækkun samt ekki, t.d. viðkvæmur rafeindabúnaður. Til að verja raftæki í slíkum atvikum er hægt að setja undirspennuvörn í aðaltöflu neysluveitu, en það er einfaldur búnaður á hóflegu verði sem unnt er að fá löggiltan rafverktaka til að annast uppsetningu á. Hafðu hugfast að aðeins löggiltum rafverktökum er heimilt að gera breytingar á aðaltöflu.
Þegar t.d. spáð er óveðri eða eldingaveðri og búast má við rafmagnstruflunum er ráðlegt að slökkva á þeim rafmagnstækjum, sem slökkva ekki á sér sjálf þegar rafmagni slær út og sem geta valdið tjóni þegar rafmagn kemur á að nýju. Þetta á meðal annars við um eldavélar og fleiri hitunartæki en einnig er ráðlegt að slökkva á viðkvæmum tækjum á borð við sjónvörp. Þá hefur reynst mörgum vel að að eiga vasaljós að grípa til því farsímaljós eru fljót að tæma farsímarafhlöður enda símarnir orkufrekir. Minnum einnig á að rafmagnsleysi getur haft áhrif á fjarskipti og ýmsa þjónustu sem er háð rafmagni.
Sími: 528 9000
Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15