ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

Meginmarkmið RARIK í forgrunni nýrrar ársskýrslu

Ársreikningur RARIK hefur verið opinberaður og ársskýrsla verður gefin út samhliða aðalfundi félagsins þann 22. mars n.k. Helstu niðurstöður ársreikningsins eru jákvæðar. Sem dæmi má nefna hagnað ársins sem var 1.521 milljón króna og rekstrarhagnað (EBITDA) upp á .6.699 milljónir króna eða 32,3% af veltu ársin. Tekjur samstæðunnar hækkuðu að meðaltali um 15% á milli ára.

Brot úr starfsemi RARIK.
Brot úr starfsemi RARIK.

Aðalfundur RARIK fer fram föstudaginn 22. mars nk. Klukkan 14:00 í starfsstöð RARIK að Dvergshöfða 2. Hægt verður að fylgjast með fundinum í beinni vefútsendingu. Stjórn RARIK mun á aðalfundinum leggja til að greiddar verði 311 milljónir króna til eiganda fyrirtækisins, þ.e. Ríkissjóðs Íslands. Mikilvægt þykir að nýta hagnað ársins til endurnýjunar og fjárfestingar á þekkingu, búnaði, tækni og framkvæmdum.

Umbreytingaár hjá RARIK

Árið 2023 var mikið umbreytingaár hjá RARIK og mun þessara umbreytinga gæta áfram í þróun fyrirtækisins á komandi árum. Eftir mikla vinnu í lok árs 2022 var farið í endurskipulagningu RARIK með áherslu á nýtt hlutverk þess sem framsækins þekkingar- og þjónustufyrirtækis sem hefur orkuskiptin í brennidepli. Þær skipulagsbreytingar sem ráðist var í voru eitt stærsta umbótaverkefni ársins og fólu í sér fjárfestingu í bæði mannauði og tækni.

 

grunngildi RARIK litu dagsins ljós í lok árs 2022: hugrekki, árangur og virðing. Samhliða voru skilgreind sex meginmarkmið í tengslum við nýja stefnu fyrirtækisins. Markmiðin má sjá hér fyrir neðan. Ársreikningur og tilvonandi ársskýrsla RARIK sýnir hvernig unnið var markvisst að umbótaverkefnum til að uppfylla þessi markmið árið 2023.

Meginmarkmið RARIK

Útblástur gróðurhúsalofttegunda dróst saman

Helstu umhverfisáhrif af starfsemi RARIK felast í losun gróðurhúsalofttegunda og úrgangsmyndun, auk hættu á hugsanlegri mengun af völdum olíuleka eða losun á SF 6 gasi. Markmið RARIK er að kolefnislosun starfseminnar í umfangi 1 verði ekki meiri en 1.103 tCO2 ígilda árið 2030. Heildarkolefnislosun dróst saman um 517 tonn á árinu og var 2003 tonn. Minnkunina má að miklum hluta rekja til þess að ekki var skortur á skerðanlegri raforku árið 2023 og þurfti því ekki að grípa til varaafls eða olíukyndingar í jafnríkum mæli og árið áður.

 

Stefnt var að því að 95% af öllu sorpi sem fellur til í starfseminni yrði flokkað fyrir árið 2025. Þetta markmið náðist strax á árinu 2023 en þá var 97% alls sorps sem féll til í starfseminni flokkað.

 

Frá og með árinu 2023 hefur RARIK sett sér það markmið að kaupa ekki bifreiðar sem knúnar eru jarðefnaeldsneyti. Jafnframt mun fyrirtækið skoða valkosti við olíuknúið varaafl. Árið 2023 kolefnisjafnaði RARIK kolefnisspor fyrirtækisins fyrir árið 2022 með kolefnisbindingu í vottuðum kolefniseiningum.

Fjárfest í mannauði og tækni

Orkuskiptin eru drifin áfram af loftslagsvá, tækniþróun og væntingum samfélagsins. RARIK gerir ráð fyrir aukinni og víðtækari notkun á rafmagni, t.a.m. í samgöngum og samhliða því aukinni kröfu um aðgengi og afhendingaröryggi. Takmörkuðu framboði þarf að mæta með aukinni stýringu orkunotkunarinnar, t.d. til að jafna hana yfir sólarhringinn og koma í veg fyrir offjárfestingu í innviðum. Aukin eftirspurn eftir orku, og þá sér í lagi hreinni orku, mun einnig greiða leið fyrir fjölbreyttari framleiðsluaðferðum og fleiri og smærri framleiðsluaðilum. Framtíðarviðskiptavinir RARIK verða því ekki bara notendur rafmagns heldur einnig framleiðendur sem geta selt sitt umframrafmagn inn á dreifikerfið.

 

RARIK vill taka forystu um nýtt hlutverk sem öflugt þekkingar- og þjónustufyrirtæki til að mæta þörfum framtíðar um aukinn sveigjanleika, gagnkvæm orkuviðskipti og aukna eigin framleiðslu með endurnýjanlegum orkugjöfum. Því var sem fyrr segir ráðist í mikla endurskipulagningu á starfseminni til að straumlínulaga verkferla og innleiða nýjar tæknilausnir svo starfsfólk og kerfi RARIK verði vel í stakk búin til að takast á við breytt og stækkað hlutverk RARIK sem undirstöðu orkuskipta á landinu.

Í framkvæmdastjórn RARIK eru fimm konur og þrír karlar.
Í framkvæmdastjórn RARIK eru fimm konur og þrír karlar.

Hlutfall kvenna hjá RARIK eykst

Stór hluti skipulagsbreytinga hjá RARIK sneri að mannauðsmálum, innri stefnum og því að færa starfsemina í nútímalegra form. RARIK verði þannig eftirsóknarverður vinnustaður fyrir vinnuafl framtíðarinnar og laði til sín sem hæfast starfsfólk. RARIK er með starfsmannastefnu og jafnréttisstefnu, auk launa- og jafnlaunastefnu. Allt starfsfólk skal njóta sömu tækifæra og kjara óháð kynferði. Tekin voru upp reglubundin starfsþróunarsamtöl starfsmanna. Jafnframt var gerð sú breyting að mannauðs- og menningarmál eru nú skilgreind sem sérstakt svið innan fyrirtækisins.

 

Áherslan í mannauðsmálum snýr að mótun heilbrigðrar vinnustaðarmenningar og uppbyggingar á vinnustað með ný grunngildi RARIK að leiðarljósi. Sýnileg framför var á milli ára í svokallaðri gildamælingu starfsfólks. Fjölbreytileiki starfsfólks og dreifð starfsemi eru meðal leiðarljósa í mannauðsmálum RARIK, t.a.m. voru auglýstar og ráðið í 12 stöður sérfræðinga. Störfin voru auglýst án staðsetningar og var ráðið í sjö þeirra á starfsstöðvar fyrirtækisins á landsbyggðinni og fimm í Reykjavík. Hlutfall kvenna og karla í þessum ráðningum var jafnt.

 

Samhliða skipulagsbreytingum tók ný framkvæmdastjórn til starfa og í henni sitja sex framkvæmdastjórar auk aðstoðarforstjóra og forstjóra, fimm konur og þrír karlar, en RARIK hefur sett sér það markmið að hafa jafnrétti og fjölbreytileika í forgangi í ábyrgðastöðum innan fyrirtækisins. Samkvæmt fjölbreytnivísum fjölgaði konum í stjórnendastöðum úr 21% árið 2022 í 36% árið 2023. Í heildina fjölgaði konum hjá RARIK úr 19% í 20%.

Snjallvæðing RARIK

Með auknum orkuskiptum, rafvæðingu og fjölgun smávirkjana og örvirkjana munu viðskipti og þjónusta RARIK verða flóknari. Því er mikilvægt að fjárfesta verulega í þekkingu og lausnum sem geta haldið utan um og sinnt þessum breytingum og fleytt RARIK í framlínu þekkingar- og þjónustufyrirtækja á raforkumarkaði. RARIK vinnur að innleiðingu snjallmæla sem munu einfalda og sjálfvirknivæða álestur hjá viðskiptavinum auk þess að bæta stýringu dreifikerfisins og auka tækifæri til að minnka sóun. Með snjallmælavæðingu er jafnframt möguleiki á að bjóða upp á verðskrár, fyrir raforkukaup eða dreifingu, sem tekur mið af notkun. Í lok ársins 2023 var búið að skipta út 32% allra rafmagnsmæla hjá RARIK fyrir fjar- eða snjallmæla og 82% allra hitaveitumæla.

Háspennukerfi RARIK er nú yfir 10.000 km að lengd og eru 77,4% þess komin í jarðstrengi.
Háspennukerfi RARIK er nú yfir 10.000 km að lengd og eru 77,4% þess komin í jarðstrengi.

Afhendingaröryggi eykst

Háspennukerfi RARIK er nú yfir 10.000 km að lengd og eru 77,4% þess komin í jarðstrengi. 330 km af jarðstrengjum voru lagðir á árinu. Jarðstrengir auka afhendingaröryggi en þrátt fyrir að fjöldi truflana í dreifikerfinu hafi verið 5% yfir meðaltali undanfarinna 10 ára dróst fjöldi fyrirvaralausra truflana saman um 18%, truflanatilvik vegna veðurs drógust saman um 70,9% og skerðing til notenda vegna truflana dróst saman um 64,6%. Fjárfestingar í stofn- og dreifikerfi RARIK námu 7,3 milljörðum á árinu og er gert ráð fyrir enn frekari fjárfestingum á komandi árum.

Öryggið í fyrirrúmi

Öryggismenning og árvekni eins og hún snýr að rekstri RARIK er tvíþætt. Í aðalhlutverki er hið veraldlega öryggi sem snýr að búnaði, lífi og limum starfsfólks sem og afhendingaröryggi til handa viðskiptavinum. Einnig þarf þó að huga að upplýsingaöryggi sem snýr að innri kerfum og neti fyrirtækisins en þar eru miklir hagsmunir í húfi. Stjórnkerfi upplýsingaöryggis RARIK byggist á ISO 27001 staðlinum og í lok árs 2023 fékk RARIK vottun samkvæmt ISO/IEC 27001:2017 stjórnunarkerfi um upplýsingaöryggi.

 

Markmið RARIK í öryggismálum er að allir komi heilir heim að vinnu lokinni og er stuðlað að því með reglubundinni fræðslu, fyrirbyggjandi aðgerðum og skýru verklagi.

 

RARIK innleiddi nýtt smáforrit í upphafi ársins 2023 sem auðveldar starfsfólki að tilkynna og koma með ábendingar um öryggismál auk gæða-, umhverfis- og jafnlaunamál. Ábendingum fjölgaði og er það markmið RARIK að fjölga tilkynningum og ábendingum enn frekar til að hægt sé að draga lærdóm af og ráðast í fyrirbyggjandi umbætur jafnóðum.

Fleiri breytinga að vænta

Nýjum markmiðum og gildum RARIK er vel fylgt eftir samkvæmt ársreikningi og ársskýrslu RARIK og þótt fyrsta ári í umbreytingafasa sé lokið er framþróun fyrirtækisins enn í fullum gangi. Fleiri breytinga er að vænta hjá RARIK á komandi árum og enn verður tekist á við það verkefni að þróa fyrirtækið í takt við það framtíðarhlutverk sem það gegnir í orkumálum og orkuskiptum Íslands.

Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

ÞJÓNUSTUVER

Sími: 528 9000

Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Sími: 528 9000

 

 

Fylgdu okkur:

Facebook
Rarik