Fimmtudaginn 16.mars sl. var haldinn íbúafundur í Félagsheimilinu Mánagarði í Nesjum í Hornafirði. Fundurinn var haldinn til að kynna áætlanir RARIK er varða fyrirhugaða lagningu stofnpípu nýrrar hitaveitu frá Hoffelli til Hafnar.
Góð mæting var á fundinn. Fundinum stýrði Lovísa Rósa Bjarnadóttir, forseti bæjarstjórnar.
Erindi héldu Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, Þórhallur Halldórsson, deildarstjóri hönnunar og verkefnastjórnunar , Pétur E. Þórðarson, framkvæmdastjóri Tæknisviðs og Tryggvi Ásgrímsson, deildarstjóri notendaþjónustu.
Farið var yfir aðdraganda jarðhitaleitar á svæðinu, hverjir gætu mögulega tengst hinni nýju veitu í dreifbýlinu, farið yfir áætlaða lagnaleið og hvenær RARIK hyggst fara í framkvæmdir. Einnig var farið yfir drög að samningum milli RARIK og landeigenda vegna lagnarinnar og tengingar mögulegra notenda. Að lokum var farið lauslega yfir það hvað eigendur húsa gætu þurft að gera til að tengjast hitaveitunni og hvað áætlaður kostnaður sé við þær breytingar. Í lok erinda voru fyrirspurnir og umræður.
Að fundinum loknum voru frekari umræður og kaffiveitingar.
RARIK þakkar öllum fyrir sem komu að þessum fundi, ekki síst Kvenfélaginu Vöku sem sá um kaffiveitingar.
Sími: 528 9000
Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15