Borun á holu HF-5 við Hoffell vegna fyrirhugaðrar hitaveitu á Höfn í Hornafirði og í nágrenni lauk 8. ágúst sl. og hafði borun þá staðið með hléum frá því í apríl 2018.
Borað var niður á 1.727 metra dýpi en undir lok verksins var framgangur orðinn hægur vegna hörku í bergi. Ræktunarsamband Flóa og Skeiða sá um borunina eins og á hinum fjórum holunum á svæðinu.
Þegar að komið var á um 960 metra dýpi fór holan að gefa þó nokkuð vatn en talið er að alls átta sprungur sem borað var í gegnum gefi heitt vatn.
Í fyrri hluta október hófst tilraunadæling úr holunni, en markmið hennar er að meta afköst og hita í holunni. Þegar búið verður að dæla 25 lítrum á sekúndu stöðugt upp úr holunni í einn mánuð, taka aðrar rannsóknir við. Frá því tilraunadælingin hófst hefur vatnshitinn hækkað smám saman eins og búist var við. Hitinn er nú 77,9 gráður en vatnsborðið er í dag á 151 metra frá holutoppi.
Standi hola HF-5 undir væntingum er þó búið að tryggja nægilegt vatn fyrir væntanlega hitaveitu og má því segja að allt stefni í að lögn stofnpípu frá Hoffelli að Höfn hefjist næsta sumar.
Sími: 528 9000
Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15