ao link
Fellivalmynd
Fara á forsíðu vefsvæðis RARIK
Leit
Leit

Spurningar og svör

Sveitarfélagið Hornafjörður hefur verið skilgreint sem kalt svæði en þar hefur lengi verið leitað eftir heitu vatni til að tryggja öfluga hitaveitu til framtíðar.

RARIK hefur, sem framkvæmdaaðili hitaveitunnar í Hornafirði, lagt mikla fjármuni í jarðhitaleitina og framkvæmdir við að veita heitu vatni frá jarðhitasvæðinu í Hoffelli um stofnpípu að Höfn. Því er ekki útlit fyrir að hægt verði að lækka verð veitunnar frá því sem verið hefur. Hitaveitan hefur hins vegar alla burði til að geta orðið mjög hagkvæm til framtíðar og munu íbúar njóta góðs af því.

 

Eftirfarandi eru nokkrar spurningar og svör um hitaveituna. Efnið er að stofni til það sama og birt var á vef sveitarfélagsins í febrúar 2020 en hefur verið aukið og uppfært.


Verða lagðar stofnlagnir ef íbúar taka ekki inn hitaveitu t.d. við heila götu?

Það verða alls staðar lagðar stofnlagnir þó svo íbúar velji að tengjast ekki. Tengigjaldið getur hækkað velji íbúar að tengjast ekki í fyrsta fasa.


Verður dýrara fyrir íbúa að tengjast veitunni síðar?

Það er töluvert hagræði fólgið í því að tengja fjölda húsa í sama verki og er því er um hlutfallslega dýrari framkvæmd að ræða þegar verið er að tengja stakan notanda. Kostnaður við að tengjast síðar mun ráðast af raunkostnaði til viðbótar við núverandi tengigjald og því fyrirsjáanlegt að í flestum tilfellum verður tengikostnaður hærri en verið er að bjóða núna.


Er einfalt eða tvöfalt dreifikerfi í nýju lögnunum líkt og gamla fjarvarmakerfið er byggt upp?

Viðbótin er tvöföld í póstnúmeri 780 en einfalt kerfi verður lagt í póstnúmer 781. Húseigendur með einfalt kerfi verða sjálfir að gera ráðstafanir til að koma afrennsli hitaveitu frá húsum sínum, td. í drenvatnslagnir. Ekki er heimilt að setja hitaveituvatn í skólplagnir.


Þar sem í flestum húsum á Höfn eru eirlagnir sem þola illa hitaveituvatn, er í lagi að setja hitaveituvatnið beint í þessar lagnir?

Eirlagnir þola ekki hitaveituvatn sem inniheldur hátt hlutfall brennisteinsvetnis (H2S). Brennisteinsvetni (H2S) mælist hins vegar varla í jarðhitavatninu frá Hoffelli og mun því ekki valda tæringu með sama hætti og vatn sem er ríkara af brennisteinsvetni.


Verður varmaskiptir í stöðvarhúsinu hjá RARIK fyrir gamla kerfið. Þarf fólk varmaskipti?

Gerð er krafa um varmaskipti á neysluvatn og mælt er með varmaskipti á ofnakerfið í póstnúmeri 780. Ekki eru gerðar slíkar kröfur í póstnúmeri 781 en þó er mælt með því.


Hafa íbúar kost á að taka inntakið en bíða með framkvæmdir innanhúss hjá sér og þar með tengjast hitaveitunni?

Fólk hefur kost á að taka inn heimæð án þess að hleypt sé á strax. Styrkur frá ríkinu er þó ekki greiddur út fyrr en vatni er hleypt á. Orkusetur hefur þá viðmiðunarreglu að miða við að íbúar hafi 9 mánuði til framkvæmda innanhúss áður en vatni er hleypt á og niðurgreiðslur falla niður. Rætt var við forsvarsmenn Orkuseturs og kom fram að það er einhver sveigjanleiki veittur með þessa 9 mánuði og fer það eftir aðstæðum hverju sinni, s.s. framboði á verktökum. Í lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar segir m.a. að áfram megi greiða niður rafmagn til húshitunar:

 

„Þegar íbúð á veitusvæði hitaveitu er hituð með raforku enda sé kostnaður við tengingu við hitaveituna og áætluð orkukaup meiri en við niðurgreidda rafhitun samanlagt fyrstu tíu árin eftir tengingu.“

 

Þetta á við um kostnað við að taka inn heimtaugina og kaup á tengigrind, hins vegar á þetta ekki við um þær breytingar sem fólk þarf að fara í innanhúss hjá sér. Orkusetur og RARIK geta reiknað þetta út miðað við notkun síðustu ára fyrir hvert hús fyrir sig.


Munu íbúar í dreifbýlinu í Nesjum sitja þeir við sama borð og íbúar í þéttbýli varðandi kostnað við að tengjast hitaveitunni?

Fjórðungur íbúða í þéttbýlinu og allt dreifbýlið í Nesjum er ekki tengt fjarvarmaveitu. Þessum íbúðaeigendum stendur til boða að tengjast hitaveitu með því að greiða fyrir það. Kostnaður við tengingu endurspeglar að einhverju leiti raunkostnað við framkvæmdina og því liggur fyrir að kostnaður við tengingu í dreifbýli er hærri en í þéttbýli. Verð fyrir tengingu allt að 200 m heimæð í dreifbýli er 1.200.000 kr +vsk. og svo til viðbótar 5.000 kr +vsk. fyrir hvern metra umfram 200 m. Verð fyrir tengingu allt að 50 m í þéttbýli er 390.000 kr +vsk. og svo til viðbótar 5.000 kr +vsk. fyrir hvern metra umfram 50 m.


Hvaða hitastig verður á vatninu við afhendingu til notenda?

Hitastig frá kyndistöð á höfn verður frá 75°C til 78°C eftir álagi. Hitastig á vatni við afhendingu ræðst af tveimur megin þáttum. Það er fjarlægð viðskiptavinar frá stofnlögnum (lengd heimæðar) og stundarálag notandans og er því ómögulegt að alhæfa um hvað hitastig hjá einstaka notanda verður. RARIK mun þú ekki afgreiða vatn nema tryggt sé að hitastig fari ekki niður fyrir 50°C í öllum tilfellum.


Hvernig verður gjaldtökunni háttað, miðast hún eingöngu við það magn vatns sem notað er eða munu aðrir þættir eins og hitastig vatnsins hafa áhrif á verðið?

Gjaldtaka miðast við afhenta orku. Mælir RARIK reiknar orku í kWst út frá framrásarhita, vatnsmagni í rúmmetrum og föstum 30°C bakrásarhita skv. reglugerð 561/2012.


Munu íbúar geta notað afrennsli heita vatnsins í heita potta við hús sín eða sem snjóbræðslu í stéttar án þess að heitavatnsreikningurinn hækki?

Öll nýting á varma niður fyrir 30°C er án endurgjalds þar sem mælir RARIK reiknar orku í kWst út frá framrásarhita, vatnsmagni í rúmmetrum og föstum 30°C bakrásarhita skv. reglugerð 561/2012. Þó þarf hönnun kerfis að taka mið af því að skila vatni til baka í þéttbýli, en húseigendur með einfalt kerfi verða sjálfir að gera ráðstafanir til að koma afrennsli hitaveitu frá húsum sínum, td. í drenvatnslagnir. Ekki er heimilt að setja hitaveituvatn í skólplagnir.


Hvaða styrkir standa íbúðum til boða til að lækka kostnað við að tengjast hitaveitunni?

Með tilkomu hitaveitu hættir ríkið að greiða niður raforku til beinnar húshitunar þar sem talið er að hitaveita sé hagkvæm. Í staðinn greiðir ríkið húseigendum og viðkomandi orkufyrirtæki „eingreiðslu“ sem nemur 12 ára hitaniðurgreiðslum, þar sem tekið er mið af meðalnotkun hvers notanda sl. 5 ár. Umrædd eingreiðsla skiptist milli húseigenda og dreifiveitu í hlutföllunum 35/65 þar sem að húseigandi fær 35% en dreifiveitan 65%. Ekki er greiddur styrkur til þeirra sem þegar eru á núverandi hitaveitu, enda þurfa þeir m.a. ekki að greiða tengigjöld. Veitan fær hins vegar 65% af tólf ára niðurgreiðslum til að greiða niður stofnkostnað veitunnar.


Hvert get ég leitað til að fá ráðgjöf varðandi breytingar innanhús hjá mér til að tengjast hitaveitunni?

Pípulagningameistarar og lagnahönnuðir geta ráðlagt fólki varðandi hönnun og efnisval í hitakerfum sínum. Hægt er að nálgast lista yfir slíka aðila á vefsíðum félags pípulagningameistara og mannvirkjastofnun. Einnig má finna á vef Sveitarfélagsins Hornafjarðar tilboð í inntaksgrind fyrir hitaveitu.


Var efnið á þessari síðu hjálplegt?

Takk fyrir framlag þitt

Takk fyrir ábendingarnar

Rarik

RARIK ohf.

Dvergshöfða 2
110 Reykjavík
Kt. 520269-2669
Netfang: rarik@rarik.is

ÞJÓNUSTUVER

Sími: 528 9000

Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15

BILANAVAKT ALLAN SÓLARHRINGINN

Sími: 528 9000

 

 

Fylgdu okkur:

Facebook
Rarik