Útgefið 31.10.2024
Tilgangur
Siðareglur þessar eru grunnviðmið starfsfólks RARIK fyrir góða viðskiptahætti og siðferði.
Þær eiga að stuðla að því að starfsemin einkennist af fagmennsku og heiðarleika og að traust ríki milli fyrirtækisins, viðskiptavina, starfsfólks, stjórnvalda, eftirlitsstofnana, hluthafa og samfélagsins alls.
Þær eru viðbót við opinbert regluverk og verklagsreglur og til fyllingar á þeim sviðum sem lög og reglur ná ekki til.
Ábyrgð
Reglurnar ná til stjórnar RARIK, undirnefnda hennar og alls starfsfólks og aðila, sem tengdir eru fyrirtækinu með lögum, starfssamningi eða verktakasamningi, dótturfélaga sem eru alfarið í eigu RARIK og annarra sem koma fram fyrir hönd RARIK eða í nafni þess, hér eftir nefnt starfsfólk.
Starfsfólk gætir að því, hvert fyrir sig, að farið sé eftir reglunum. Stjórnendur skulu sjá til þess að starfsfólk þekki reglurnar og að þær séu eðlilegur þáttur í starfi fyrirtækisins.
Samskipti
Við berum virðingu fyrir samstarfsfólki okkar, viðskiptavinum og öllum þeim sem við höfum samskipti við. Við sýnum umburðarlyndi og tökum tillit til ólíkra sjónarmiða og aðstæðna.
Við líðum ekki undir neinum kringumstæðum einelti, kynferðislega áreitni, kynbundið áreiti eða annars konar ofbeldi.
Grunngildi RARIK eru hugrekki, árangur og virðing. Við gætum þess að framkoma okkar og hegðun, innan vinnustaðar sem utan, sé ávallt í samræmi við áherslur og gildi RARIK.
Góðir viðskiptahættir
Við vinnum saman af heiðarleika, metnaði og fagmennsku.
Við gætum að jafnræði og þiggjum ekki né veitum gjafir eða hvers kyns hlunnindi sem eru til þess fallin að hafa áhrif á ákvarðanatöku eða dómgreind okkar eða annarra við vinnslu mála.
Við gætum ávallt fyllsta öryggis í störfum okkar og fylgjum öryggisreglum í hvívetna.
Við berum virðingu fyrir umhverfi og náttúru í öllum okkar störfum.
Við viðurkennum mistök og leitumst við að læra af þeim.
Hagsmunir
Við störfum af heilindum og látum persónulega hagsmuni ekki hafa áhrif á störf okkar. Við tökum ekki þátt í meðferð mála er varða hagsmuni okkar sjálfra eða tengdra aðila.
Við upplýsum stjórnendur um atriði sem kunna að valda hagsmunaárekstrum.
Brot gegn siðareglum
RARIK lítur á allar ábendingar sem tækifæri til að bæta menningu og þjónustu félagsins og lágmarka skaða.
Starfsfólk er hvatt til að leggja fram kvörtun eða ábendingu ef það telur sig vita af eða hefur grun um óreiðu eða misgjörðir í starfsemi félagsins, eða siðferðislega ámælisvert eða ólögmætt athæfi. Starfsfólk getur sent slíkar ábendingar undir nafni eða nafnlaust eftir atvikum til stjórnenda eða í þann farveg sem skilgreindur hefur verið í gæðahandbók fyrirtækisins. EKKO nefnd fjallar sérstaklega um mál tengd einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi og getur starfsfólk beint málum milliliðalaust til nefndarinnar.
Frávik frá siðareglum getur leitt til tiltals, áminningar eða brottrekstrar úr starfi í alvarlegri tilfellum.
Sími: 528 9000
Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15