Í samræmi við áætlun RARIK um að færa allar loftlínur í jörð fyrir árið 2035 er unnið að jarðstrengjavæðingu dreifikerfis RARIK en í fyrra tókst að leggja alls 420 km af jarðstrengjum. Í ár gerir framkvæmdaáætlun ráð fyrir að alls verði lagðir um 290 km í jörð í dreifbýli. Eins og síðustu ár bætast tilfallandi notendadrifin verk við þessar tölur en á hverju ári er nokkuð um slík verk.
Samkvæmt framkvæmdaáætlun RARIK er gert ráð fyrir rúmlega 3,4 milljarða fjárfestingu í endurnýjun og aukningu dreifikerfis til sveita, og þar af verður um 3,03 milljörðum varið til þrífösunar dreifikerfisins, m.a. með aðkomu ríkisjóðs, og um 240 milljónum króna verður varið í lagningu stofnkerfis á tímabilinu.
Í ár hafa jarðstrengsverkefni fyrirtækisins tafist töluvert af ýmsum ástæðum. Aðferðafræðin við val á jarðvinnuverktökum í þessi verk var kærð til kærunefndar útboðsmála. Staðan í því máli er sú að RARIK má setja í gang 14 af 16 útboðsverkum sem eru á dagskrá. Tvö útboðsverk á Suðurlandi eru stopp eins og er og beðið er eftir hvort að kærunefnd útboðsmála leyfi að þau verði sett í framkvæmd eða hvort það þurfi að bjóða þau út aftur síðar.
Á forsíðu vefsins www.rarik.is er hægt að finna kortasjá og þar má nálgast samræmdar upplýsingar um helstu framkvæmdir á vegum fyrirtækisins um allt land.
Ef smellt er á framkvæmdaflipa kortasjárinnar, birtast framkvæmdir á korti sem hægt er að smella á til að fá nánari lýsingu á einstaka verki auk upplýsinga um verktíma, lengd, legu, spennu jarðstrengs o.s.frv.
Sími: 528 9000
Opið:
Mán-fim 9-16 og fös 9-15